Áttleysa og kyrrð á skjálftasvæðum

Grein skrifuð Föstudagur, 18 nóvember 2016
 

Í gærkvöldi fór fram fyrsti nágrannaslagur vetrarins af þremur í 1. deild karla milli FSu og Hamars. Leikið  var í Frystikistunni fyrir þunnskipuðum áhorfendapöllum og leikurinn stóð engan veginn undir nafni sem einhver Suðurlandsskjálfti, eins og oft hefur verið, í mestalagi að greina hafi mátt, með góðum vilja, eitthvert smákiltl undir iljum.

Bæði lið voru í leikmannahallæri langt fram á haustið og eru því enn má segja í undirbúningsfasa og eiga inni töluvert svigrúm til framfara. Hamar hefur þó á að skipa mun fleiri reyndum leikmönnum, og kannski var það einmitt reynslan sem reið baggamuninn, altént mættu heimamenn mun einbeittari til leiks, áttu í litlum vandræðum með óákveðna og hikandi gesti sína og unnu öruggan 10 stiga sigur, 85-75, sem er þó minni munur en útlit var fyrir þegar skammt lifði leiks. Með sigrinum færðist Hamar upp fyrir FSu í 5. sæti deildarinnar, bæði lið með 4/4 árangur.

FSu skoraði fyrstu 2 stigin en það var í eina skiptið sem við vorum yfir í leiknum. Hamar jafnaði 2-2 og það var í eina skiptið sem liðin voru jöfn. Hamar hamraði deigt járnið frá upphafi og skoraði 15 stig áður en okkar menn rönkuðu við sér og staðan 15-2 eftir 5 mínútur. Strákarnir réttu sinn hlut og eftir fyrsta hluta var munurinn kominn niður í 6 stig, 26-20.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Hamarsmenn tóku aftur völdin í 2. hluta og unnu hann 17-8, þannig að ekki var sóknarleikur okkar upp á marga fiska. Hittnin var alveg ótrúlega slök hjá strákunum okkar, verður bara að segjast eins og það er, og það var ekki út af stórkostlegum varnarleik Hamars, heldur einbeitingar- og skipulagsleysi. Staðan í hálfleik 43-28.

FSu-liðinu til afsökunar má segja að það vann báða seinni fjórðungana, þann þriðja 20-23 og þann fjórða 22-24. Það var þó augljóslega ekki nóg, og segir heldur ekki nema hálfa söguna, því þegar langt var liðið á fjórða leikhluta var Hamar með 20 stiga forystu. FSu-menn höfðu sem betur fer það stolt að sætta sig ekki við að skíttapa, minnkuðu muninn með góðu áhlaupi síðustu 2-3 mínúturnar og þá sást m.a. glitta í gamalkunn tilþrif fyrir utan þriggjastigalínuna.

Okkar gamli félagi og vinur, Chris Woods, átt ágætan dag fyrir Hamar, 24 stig, 15 fráköst, 6 stoðs. og 30 framlagspunktar. Örn Sigurðar. var á sínum stað með sinn mjúka úlnlið, 17 stig, 7 fráköst og fína nýtingu, Oddur Ólafsson setti 15 stig, Smári Hrafnsson 13 (4/5 í þristum), Snorri Þorvaldsson 8 stig, Mikael Rúnar 6 og Rúnar Ingi Erlingsson 2. Allir þessir leikmenn eru gamalreyndir og traustir í hvívetna en að auki tók hinn ungi Björn Ásgeir Ásgeirsson lítillega þátt í leiknum.

Í FSu-liðinu var Motley atkvæðamestur sem fyrr. Hann var nokkuð lengi í gang og skorti upp á einbeitinguna og kraftinn sem einkennt hefur hans leik hingað til. Terrance skoraði þrátt fyrir það 41 stig, tók 15 fráköst, fiskaði 9 villur og varði 2 skot, skilaði 52% skotnýtingu (þrátt fyrir 0/5 í þristum) og 37 framlagspunktum. Ari er enn að leita að skotinu sínu, nýtingin ekki góð, og 19 stig, 7 fráköst og 8 fiskaðar villur telja því ekki meira en 8 framlagspunkta. Þrír þristar í gamalkunnum stíl undir lok leiks eru þó vonandi næg upprifjun fyrir hann um  hvar körfuna verður að finna í næsta leik. Orri Jónsson skoraði 9 stig og tók 5 fráköst en Svavar Ingi (3 stig/5 fráköst), Sveinn Hafsteinn (2 stig), Hilmir Ægir (1 stig, 3 frk./3 stoðs.), Sigurður og Helgi Jónssynir hefðu allir þurft að bæta meiru við, miðað við leikmínútur, til að von væri um sigur.

Arnþór og Jón Jökull misstu af leiknum vegna meiðsla og Hörður sneri sig illa þegar 3 mínútur voru liðnar af leik og lék ekki meir. Gísli Gautason nýtti sínar tæpar 4 mínútur til að taka 2 fráköst.

Næsti leikur FSu er á sunnudaginn kemur, 20. nóv. gegn ÍA á Akranesi. Leikið er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu kl. 19.15.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©