FSu í 8 liða úrslit Maltbikarsins

Grein skrifuð Mánudagur, 05 desember 2016
 

FSu tók á móti Sindra frá Höfn í Hornafirði í gær í bikarkeppni KKÍ, Maltbikarnum. Þessi leikur var í 16 liða úrslitum og með sigri í leiknum er FSu þar með komið í 8 liða úrslit. Dregið verður á morgun um það hvaða lið mætast eftir áramót í næstu umferð keppninnar.

Hornfirðingar mættu alls óbangnir til leiks og þeir Justin Dean Berry (26 stig / 6 frák.) og Hallmar Hallsson (23 stig) drógu fyrir þá vagninn. Leikurinn var jafn lengi vel, þó FSu væri yfir mestallan tímann, og ekki fyrr en liðið var aðeins á fjórða leikhluta að heimamenn stungu af og unnu með 22 stiga mun, 81-59.

FSu varð fyrir enn einu áfallinu þegar Sveinn Hafsteinn meiddi sig á fingri eftir að hafa leikið 11 mínútur og gat ekki tekið þátt eftir það. 

Gleðitíðindi voru aftur á móti að Hlynur Hreinsson gat spilað 12 og hálfa mínútu og minnti heldur betur á sig með 11 stigum, þar af þremur þriggjastigakörfum (3/6), og 2 öruggum vítum (2/2).

Annars skipti Eloy mínútunum nokkuð bróðurlega milli manna. Hilmir Ægir var að vísu í meiðslahvíld eins og Arnþór og Hörður, en aðrir spiluðu allir um 20 mínútur eða meira (að frátöldum Hlyni og Svenna sem meiddist).

Terrance skoraði 25 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og var nú líkari sjálfum sér en í síðasta leik, þræleinbeittur og góður í vörn. Ari skoraði 23 stig og önnur ánægjuleg tíðindi eru að þriggjastiganýtingin rís jafnt og þétt hjá honum, fór nú í 50% (3/6). Ari bætti við 7 fráköstum og lék vel. Sveinn Hafsteinn var orðinn sjóðheitur með 6 stig, 2/3 í þristum, þegar hann þurfti að setjast með íspokann og Haukur Hreinsson átti góðan dag með 6 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Svavar Ingi skoraði 4 stig en tók 8 fráköst, þar af 6 í sókn, og eru það enn jákvæð tíðindi fyrir liðið að hann er með 10 frk. að meðaltali í síðustu leikjum. Sigurður Jónsson bætti við 5 stigum og Gísli Gautason því eina sem upp á vantar. 

Þá er ekkert annað að gera í bili en bíða spenntur eftir drætti í 8 liða úrslitin á morgun.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©