Fjölnir of stór biti

Grein skrifuð Tuesday, 17 janúar 2017
 

FSu heimsótti Fjölni í 1. deild karla föstudaginn 13. jaúar sl. Þó freistandi geti verið að kenna dagsetningunni um þá var það ekki hún sem réði úrslitum, heldur er Fjölnir einfaldlega um þessar mundir með betra lið en FSu og vann leikinn nokkuð örugglega, 99-87.

Eftir tveggja mínútna þreifingar í upphafi leiks, í stöðunni 6-6, skildi á milli liðanna og Fjölnir leiddi með 14 stigum eftir fyrsta hluta, 32-18. Heimamenn hömruðu heitt járnið í upphafi  annars leikhluta og eftir 14 mínútur var staðan orðin 43-22 og útlitið ekki gott hjá „strákunum okkar“. Þeir sýndu þó að það er ekki aldeigt í þeim, skorðuðu 6 stig í röð og minnkuðu svo muninn í 44-32 og síðar í 50-39, en fyrir hálfleiksgjallið bættu heimamenn við 4 stigum gegn 2, staðan þá 54-41.

Í seinni hálfleik fór munurinn fljótlega aftur upp undir 20 stigin, 63-45 og 68-50 um miðjan þriðja fjórðung. Þá komu 5 stig í röð frá okkur en áhlaupin voru of stutt og ekki alveg nógu öflug, heimamenn áttu alltaf svör og skildu strákana eftir í reyknum í bili.

Þegar ein mínúta var búin af 4. hluta munaði 21 stigi, 81-60. FSu-strákum til hróss gáfust þeir aldrei upp né brotnuðu. Þeir söfnuðu vopnum sínum síðustu mínúturnar, gáfu alla orku sem þeir áttu og komu muninum niður fyrir tveggja stafa tölu, 88-79 á 36. mínútu og 90-81 þegar 2 mín. voru eftir. En þetta var of breitt bil að brúa gegn jafn vel skipulögðu og góðu liði og Fjölnir er og niðurstaðan varð 12 stiga tap.

Það var góður bragur á FSu-liðinu í þessum leik. Baráttuandi og fítonskraftur, sem þó dugði ekki til að vega upp skort á árum, reynslu, líkamsstyrk og getu. En þessi leikur fer vissulega í „reynslubankann“ víðfræga og er strákunum mikilvæg lexía á leið sinni til framfara.

Hjá Fjölni var Collin Pryor atkvæðamestur með 27 stig og 9 fráköst en Egill Egilsson (15 stig), Garðar Sveinbjörnsson (13 stig) og Þorsteinn Gunnlaugsson (12 stig, 7 frk.) voru líka öflugir og með góða nýtingu.

Terrance Motley átti mjög góðan dag, skoraði körfur í öllum regnbogans litum og endaði með 43 stig og 10 fráköst. Ari Gylfason (14 stig, 5 frk.) leiddi sína hjörð og það sem enn kann að skorta á styrk og nákvæmni í skotum vinnur hann upp með óbilandi baráttuþreki alls staðar á vellinum. Hlynur Hreinsson (8 stig, 4 sts.) er vissulega á batavegi en á samt enn langt í land að ná fullri heilsu og ekkert annað að gera en sýna þolinmæði og hlakka til þess dags að hann getur beitt sér 100%. Svavar Ingi (6 stig), Haukur Hreinsson (5 stig, 3 frk., 3 sts.), Jón Jökull (4 stig, 2 sts.), Gísli Gautason (4 stig, 4 frk.), Helgi Jónsson (3 stig), Sveinn Hafsteinn, Sigurður Jónsson og Hilmir Ægir komu mismikið við sögu en voru allir sjálfum sér og liðinu til sóma með baráttu sinni og góðum liðsanda.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©