Bikardraumurinn úti

Grein skrifuð Tuesday, 17 janúar 2017
 

FSu sótti ekki gull í greipar nágranna sinna í Þór í 8 liða úrslitum Maltbikarsins niðri í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Þór tók öll völd strax í upphafi leiks, eftir fyrsta hluta munaði 25 stigum og hálfleik 37, 62-25. Í seinni hálfleik var meira jafnvægi, FSu skoraði 43 stig gegn 42 stigum Þórs og úrslitin því 104-68.

Ekki var í sjálfu sér við því að búast að FSu, lið í neðri hluta 1. deildar, hefði nægt blek í eitt af skárri Dominosdeildarliðunum. Þetta var þó tækifæri fyrir lið á fyrstu metrum uppbyggingarferlis, og unga og óreynda leikmenn, að sýna tennurnar í bikarleik, þar sem „allt getur gerst“, skv. áreiðanlegum heimildum.

En skortur á einbeitingu varð þess valdandi að úr varð leikur kattar að mús, hittnin var slök í upphafi leiks, sem er ekki ámælisvert á neinn hátt, en verri voru slakar sendingar, beint í hendur andstæðinganna á galopnum velli, sem kostuðu auðveld sniðskot og troðslur, heimaliðinu og stuðningsmönnum þess til óblandinnar ánægju. Þetta, ásamt því að „gleyma“ of oft að hlaupa í vörn og leyfa fyrir vikið sendingar yfir endilangan völlin í frí sniðskot, eru þau tvö atriði sem ritari leyfir sér að gagnrýna FSu-liðið fyrir - og skrifar á einbeitingarskort. Þó andstæðingurinn sé betri á öllum öðrum sviðum þarf lítilmagninn alltaf að hafa stjórn á þessum grundvallaratriðum. Það er hans eina von. Og Þórsliðið þurfti hreint ekkert á neinni gjafmildi að halda.

En að öðru leyti var yfir engu að kvarta. Í uppsettum leik á hálfum velli, hvort sem var í sókn eða vörn, var margt vel gert. Inn á milli sáust fallegar fléttur og tilþrif, jafnvel þó boltinn hafi ekki alltaf viljað niður í gegn um hringinn. Þegar á leið minnkaði stressið og skotin fóru að detta. Liðið skapaði nóg af fríum skotum og lét ekki pressu slá sig út af laginu, og það sýnir sig í skorinu í seinni hálfleik.

Þórsarar skiptu mínútunum bróðurlega á milli sín. Enginn lék minna en 13:32 mín. og enginn meira en 25:10. Tíu leikmenn komust á blað en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir liðsins náði sá 11. ekki að skora. Ragnar Örn Bragason var stigahæstur með 20 stig  en það markverðasta á tölfræðiskýrslunni er samt að Tobin Carberry tók ekki eitt einasta skot í leiknum. Öll 3 stigin hans komu af vítalínunni. Segir þetta e.t.v. meira en orð um persónuleika þessa frábæra leikstjórnanda, sem hirti að auki fyrir liðið sitt 14 fráköst.

Eloy skipti einnig FSu-mínútunum bróðurlega og þar komust 9 af 10 leikmönnum á blað. Terrance var atkvæðamestur með 15 stig og 8 fráköst, næstur kom Sveinn Hafsteinn Gunnarsson með 11 stig (50% nýting), Jón Jökull Þráinsson (50% nýting, 3 frk.) og Svavar Ingi Stefánsson (5 frk.) 10 stig, Ari Gylfason (7 frk.) 7 stig, Hilmir Ægir og Sigurður Jóinsson (5 sts.) 5 stig hvor, Helgi Jónson (5 frk.) 3 og Gísli Gautason 2 stig.

Að loknum þessum æfingaleik taka við mikilvægar vikur. Í næstu viku eru tveir heimaleikir, á mánudaginn 23. jan. gegn Hamri og á fimmtudag 26. jan. gegn ÍA. Að lokinni keppnisferð á Egilsstaði 2. febrúar er svo von á Vestra í Iðu sunnudaginn 5. febrúar. Þetta eru úrslitaleikirnir, því FSu, Hamar, Vestri og ÍA eru nánast í einum hnapp að berjast um 5. sætið í deildinni, sem er síðasta sætið inn í úrslitakeppnina í vor. Að því sæti ætlum við að gera atlögu.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©