FSu tók Kögunarhól

Grein skrifuð Tuesday, 24 janúar 2017
 

FSu mætti Hamri í hörkuleik í Iðu í gærkvöldi. Þetta var önnur viðureign liðanna af þremur í 1. deild karla á keppnistímabilinu, en þá fyrstu vann Hamar með 10 stigum í haust í Hveragerði. En strákarnir okkar sneru nú við taflinu og eftir vel útfærðri hernaðaráætlun Eloy tóku þeir Kögunarhól með kraftmikilli árás í seinni hálfleik og njóta nú útsýnisins yfir Flóann og Ölvesið ofanvert.

Hamar hóf leikinn af meiri krafti, leiddi 4-7 og svo 6-14 eftir 4 mínútur. En FSu náði vopnum sínum og komst yfir 15-14 eftir 7 mínútna leik. Jafnt var að loknum fyrsta leikhluta 21-21 og leikurinn hnífjafn fram að hálfleik, þó FSu væri alltaf skrefi eða hálfu á undan, og staðan eftir 20 mínútur 45-43.

Strax í upphafi seinni hálfleiks tók heimaliðið frumkvæðið. Terrance Motley tók af skarið og skoraði 8 stig í röð fyrir FSu, tvo flotta þrista, og gestirnir náðu aldrei að ógna FSu-liðinu verulega eftir það. Munurinn fór mest í 16 stig, 76-60, eftir 32 mínútur en aldrei niður fyrir 8 stigin, 88-80, þegar 2 mínútur voru eftir. Lokatölur 93-80 og FSu liðið fagnaði eðlilega vel og innilega, enda hefur á ýmsu gengið frá því í lok október, þegar vinningshlutfallið var 4/1 eftir 5 fyrstu leikina, og allt sjálfstraust fauk út í veður og vind á tímabili. 

Það er alveg magnað hvernig þessu unga og brothætta liði hefur tekist að berja sig saman undanfarið svo nú skín sjálfstraust og öryggi af hverju andliti og góður liðsbragur svífur aftur yfir vötnum. Fyrir vikið er gaman að vera í Iðu og horfa á!!

Hjá Hamri var það bara Chris Woods sem lék af eðlilegri getu. Þessi ljúfi vinur okkar var líka frábær, með 35 stig og 19 fráköst, 38 framlagspunkta sem reyndist 47% af samanlögðu liðsframlagi Hamarsliðsins. Erlendur Ágúst skoraði 12 stig en Örn Sigurðarson kom næstur Chris með 9 stig, 5 frk. 4 stoðsendingar og 13 framlagsstig. Hilmar Pétursson setti 10 stig og nýtti 44% skota sinna en annars var skotnýting liðsins slök, 24% í þriggjastigaskotum og þakka má Chris Woods fyrir að hífa heildarnýtinguna í 40%.

Terrance Motley var að vanda atkvæðamestur í okkar liði. Hann átti úrvalsgóðan dag eins og tölurnar bera vitni, 28 stig, 16 fráköst, 8 stoðsendingar, 52% skotnýting, 3 varin skot og 41 framlagsstig. Eini ljóðurinn á hans leik var að næla sér í tvær kjánalegar og óþarfar villur og þurfa fyrir vikið að horfa af bekknum á félaga sína sigla fleyinu til hafnar. En Motley hefur margítrekað í vetur sýnt það hve góður leikmaður hann er, og sýndi sem sagt sparihliðarnar í gær.

Fyrirliðinn Ari Gylfason var líka magnaður. Hann dreif liðið áfram með ákafa sínum í vörn og sókn og sló hvergi af allar þær 35:32 mínútur sem hann spilaði. Ari skoraði 24 stig (25 framlagsstig), tók 6 fráköst (3 í sókn) og fiskaði 9 villur. Af þeim gáfu 8 vítaskot sem hann nýtti öll með tölu, og skotnýtingin er jafnt og þétt á uppleið. 

Það sem skiptir þó mestu fyrir möguleika liðsins á einhverjum árangri er viðbótin í aðalleikstjórnanda þess, Hlyni Hreinssyni, sem er hægt og rólega að ná sér upp úr sínum langvarandi meiðslum. Hlynur gat nú spilað rúmar 29 mínútur og sýndi gamalkunna takta sem liðið heldur betur munar um: 14 stig, 6 stoðsendingar, 4 fráköst 57% nýting (2/2 í þristum) og 19 framlagsstig, takk fyrir túkall!

Svavar Ingi var öflugur, bætir sig með hverjum leik og sýnir meiri stöðugleika. Hann skoraði 12 stig, tók 7 fráköst og skilaði liðinu 14 framlagsstigum.

Þó þessir fjórir ofantaldir séu meira áberandi á tölfræðiskýrslunni skiluðu hinir leikmennirnir allir mjög góðum hráefnum og nauðsynlegum í sigursúpuna. Allir tóku kröftuglega á sleifinni, hrærðu vel upp í og bættu við nauðsynlegu kryddi til að migi í munni. Jón Jökull Þráinsson skoraði 6 stig, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 5 og þeir Helgi Jónsson og Hilmir Ægir Ómarsson skoruðu 2 stig hvor. 

Hvað sem öðru líður fann liðið í kvöld góða uppskrift og tókst að sjóða og hræra úr henni þá ljúffengu súpu sem það getur stolt borið á borð fyrir hvaða gesti sem er, hvenær sem er. Þá er bara að halda sig við hana áfram og allir ganga brosandi frá borði. Takk fyrir mig.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©