Lyftiduftið vantaði

Grein skrifuð Tuesday, 31 janúar 2017
 

Ekki náðum við að halda einbeitingu út alla síðustu viku og fylgja eftir frábærum leik gegn Hamri á mánudegi með því að vinna líka ÍA á fimmtudeginum - og koma okkur þar með í betri stöðu í baráttunni um úrslitasætið. Því miður virðist eitthvað af baráttunni, liðsandanum og sigurviljanum hafa orðið eftir í þvottavélinni með svitanum úr búningunum, og Skagamenn hrósuðu sigri 65-70.

Í stöðunni 5-5 tóku gestirnir forystuna og leiddu mestallan leikinn með 5-8 stigum. Einu sinni fór munurinn í 10 stig, 33-43 eftir 25 mínútur, en FSu jafnaði 53-53 þegar 5 mínútur voru eftir. Þá sigu Skagamenn, með Ármann Örn Vilbergsson í broddi fylkingar, aftur fram úr og unnu með 5 stiga mun.

Það er ansi brokkgengt að skora 93 stig gegn Hamri en bara 65 á heimavelli í næsta leik á eftir gegn veikari andstæðingi, þó með fullri virðingu fyrir liði ÍA, og sýnir svart á hvítu að FSu-liðið er hvorki fugl né fiskur nema 100% einbeiting og baráttuandi sé til staðar á öllum póstum, alltaf. Það er ekki hægt að kvarta yfir því að halda Skagamönnum í 70 stigum, að ekki sé talað um að besti leikmaður þeirra, sá bandaríski, skori aðeins 10, en allt lyftiduftið virðist hafa klárast gegn Hamri og vantaði sem sagt í deigið að þessu sinni svo úr yrði æt kaka.  

Ármann Örn var atkvæðamestur Skagamanna með 21 stig úr 7 þriggjastigaskotum af 14, auk þess að næla í 10 fráköst. Áskell Jónsson skoraði 17 stig, Andri Jökulsson 13, Derek Shouse 10 og tók 10 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 8 stig og 11 fráköst og Sigurður Rúnar skoraði 1 stig.

Terrance var stigahæstur heimamanna með 25 stig 10 fráköst og 2 varin skot, Ari Gylfason skoraði 17 stig og tók 11 fráköst, Hlynur Hreinsson 8 stig og 4 fráköst, og þessir þrír skiluðu 100% vítanýtingu (18/18) og liðið 92% sem er ljós punktur. Svavar Ingi Stefánsson kom næstur með 6 stig og 5 fráköst, Helgi Jónsson 5 stig og 4 fráköst, Páll Ingason 3 stig og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 1.

Vonandi kennir niðurstaðan úr þessum leik þá lexíu að eina færa leiðin fram á við er að allir gefi til liðsheildarinnar allt sem þeir geta.  

Næsti leikur er á Egilsstöðum nk. fimmtudag og á sunnudaginn þann 5. febrúar mætum við Vestra í Iðu kl. 19:15 í sannkölluðum fjögurra stiga leik um 5. sætið.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©