Skyldusigur á Ármanni

Grein skrifuð Sunnudagur, 19 febrúar 2017
 

FSu mætti Ármanni Íþróttahúsi Kennaraháskólans á föstudagskvöldið. Ármenningar hafa ekki enn unnið leik í 1. deildinni, enda búa þeir við mikla „leikmannaveltu“, inn og út um dyr hjá þeim hafa frá því á síðasta tímabili farið leikmenn sem nemur a.m.k. þremur liðum. Niðurstaðan varð öruggur sigur FSu, 59-86.

FSu tók forystuna strax í upphafi en Ármenningar fylgdu í humátt á eftir. Eftir fyrsta leikhluta leiddum við með 6 stigum, 14-20 og náðum svo 10 stiga forystu, 17-27 snemma í öðrum hluta. En Ármenningar minnkuðu muninn fljótt í 6 stig, 23-29. FSu leiddi með 14 í hálfleik, 32-46.

Svona gekk þetta fram í fjórða leikhluta og þegar 8 mínútur voru eftir munaði 11 stigum, 53-64. Þá jókst munurinn og var kominn upp í 20 stig eftir 35 mínútur og fór að lokum upp undir 30 stig, lokatölur 59-86.

Ármann hefur þrjá leikmenn frá Stjörnunni á sínum snærum, á venslasamningi, og tveir þeirra voru atkvæðamestir. Daníel Freyr Friðriksson skoraði 16 stig og skilaði hæstu framlagi (14) og Brynjar Magnús Friðriksson var öflugur með 12 stig og 13 fráköst. Allir 10 leikmenn Ármanns komust á blað.

Eloy skipti mínútum vel milli manna og allir 10 skoruðu stig. Ari, Hlynur og Terrance drógu tölfræðivagninn hjá FSu en allir skiluðu sínu hlutverki vel, og góðu dagsverki. Ari skoraði mest, 21 stig, þar af 17 í fyrri hálfleik og var þá mjög öflugur. Auk þess tók hann 6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Reyndar mætti velta fyrir sér skráningu stoðsendinga í leiknum, allt lið FSu gaf 10 stoðsendingar en lið Ármanns 8, skv. tölfræðiskýrslunni, og má ímynda sér að einhver misbrestur sé þar á. Hlynur skoraði 20 stig og nýtti 80% skota sinna, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þeir frændur voru hæstir og jafnir með 22 framlagspunkta. Terrance skoraði 19 stig, tók 11 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Arnþór Tryggvason skoraði 10 stig (5/8) og tók 6 fráköst, Jón Jökull skoraði 5 stig og tók 3 fráköst, Svavar Ingi skoraði 4 stig, Páll Ingason skoraði 3 og tók 2 fráköst,  og Helgi Jónsson og Þórarinn Friðriksson skoruðu 2 stig hvor. 

Næsti leikur FSu er fimmtudaginn 23. febrúar kl. 19:15, gegn Val í Iðu. Við unnum Valsara í Iðu í haust og getum gert það aftur á góðum degi.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©