Herslumun vantaði gegn sterku Valsliði

Grein skrifuð Föstudagur, 24 febrúar 2017
 

Sjálfsagt hafa einhverjir talið að Valur ætti í vændum léttan byr í seglin í Iðu og þægilegan sigur á okkar liði í 1. deild karla í gærkvöldi. Valur með sitt vel mannaða lið nýbúinn að velgja Íslandsmeisturunum verulega undir uggum í undanúrslitum Maltbikarsins og siglandi hraðbyri að úrvalsdeildarsæti, þó úrslitakeppni sé að vísu framundan. En FSu-liðið brýndi klærnar vel og gerði gestum sínum lífið leitt með ágætri spilamennsku á löngum köflum. Herslumuninn vantaði þó í lok leiks og Valur tryggði 5 stiga sigur, 76-81, með tveimur vítaskotum þegar 4 sek. voru eftir.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik. Valur náði 5 stiga forystu eftir 11 mínútur, 23-28 og FSu 6 stiga forystu eftir 18, 43-37. Annars var jafnt á nánast öllum tölum, 43-43 í hálfleik. Í þriðja leikhluta tóku Valsmenn af skarið og leiddu allt til loka. Mest náðu þeir 12 stiga forystu, 53-65 eftir 27 mín. og 60-72 eftir 32 mín. En heimamenn lögðu ekki árar í bát heldur reru lífróður og minnkuðu muninn smám saman, í 70-75 þegar þrjár mínútur voru eftir og allt að opnast. Þá komu smá mistök og Valur jók forskotið í 70-79. En FSu skoraði 6 stig í tveimur þriggjastigasóknum í röð og fékk svo tvö ágæt tækifæri til að jafna en skotin geiguðu naumlega og Bracy nýtti sér bónusinn með því að setja bæði vítin í, að sjálfsögðu.

Urald King var stigahæstur Valsmanna með 24 stig, 8 fráköst, 7 fiskaðar villur, 2 varin skot og 50% skotnýtingu Birgir Björn var líka mjög góður með 18 stig, 6 fráköst og 71% skotnýtingu. Magnus Bracy spilaði mest Valsmanna, tæpar 36 mín. og skoraði 10 stig, Oddur Birnir skoraði 9, Þorgeir Blöndal og Illugi (6 frák.) 6, Sigurður Dagur 4 og Sigurður Páll og Benedikt Blöndal (5 sts.) 2 stig hvor.

Terrance var að venju öflugastur heimamanna með 36 stig, 15 fráköst, 9 stolna, og 40 framlagspunkta - og spilaði allar 40 mínúturnar. Eini ljóðurinn á hans leik var 1/10 fyrir utan þriggja stiga línuna. Ari átti góðan leik, skoraði 19 stig, og í fyrri hálfleik sérstaklega sást glitta í hans gamla, góða leikstíl þegar hann setti 5 þrista en hægði að auki verulega á Bracy með góðum varnarleik. Nokkuð langt var í næstu menn, Hlynur (4 sts.) og Jón Jökull (2/3 í þristum) skoruðu 6 stig, Arnþór 4, Svavar Ingi og Þórarinn (4 frk.) 2 og Helgi 1 stig.

Mikill munur var á villudómunum, FSu fékk á sig 26 villur en Valur aðeins 17, sem var alveg óeðlilegt miðað við gang leiksins og baráttuna. Hlynur, sem byrjaði leikinn mjög vel, sat leiðinlega mikið vegna þessa og kólnaði aðeins í skotunum fyrir vikið, en hann, Terance, Ari og Svavar voru allir komnir á síðasta sjens og Arnþór fokinn nokkru fyrir leikslok. Hjá Val var það aðeins Bensi Blöndal sem leið fyrir dómgæsluna og missti takt við leikinn en hann og Oddur Birnir sönkuðu að 53% villna liðsins.

Það verður að segjast eins og er að FSU getur spilað alveg glimrandi bolta og stendur þá jafnfætis bestu liðum deildarinnar. En stöðugleikann vantar og inn á milli er liðið alveg skítlélegt, það verður bara að segja það eins og það er. Á þessu eru margar eðlilegar skýringar, sem fram hafa komið hér í skrifum um leikina, og verður ekki farið meira út í þá sálma. Nú er ekkert að gera annað en að horfa fram á veginn, klára þetta tímabil með reisn, nýta sumarið vel og geirnegla þetta næsta vetur. Við höfum nægan eðalvið í það og smíðakunnáttuna.

Næsti leikur er strax á mánudaginn, 27. febrúar gegn Breiðabliki í Smáranum kl. 19:15.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©