Endað á jákvæðan og uppbyggilegan hátt

Grein skrifuð Laugardagur, 11 mars 2017
 

Síðasti leikurinn okkar á tímabilinu fór fram í gærkvöldi, útileikur gegn Hamri, svo búast mátti við spennandi leik þessara nágrannaliða sem eldað hafa grátt silfur mörg undanfarin ár og sumir leikirnir með alveg nístandi spenningi eins og grannaslagir eiga að vera.

En ekki fór fyrir þannig stemmningu í gær. Leikurinn skipti kannski ekki nógu miklu máli, þannig lagað séð, því Hamar var öruggur í úrslitakeppnina en FSu sigldi lygnan sjó í 7. sætinu og gat ekki klifrað hærra í töflunni. Nokkra sterka leikmenn vantaði hjá Hamri vegna meiðsla, m.a. þeirra besta mann, Chris Woods, og þeir Snorri Þorvalds. og Hilmar Péturs. hvíldu líka. Hjá FSu var Hlynur Hreinsson fjarri góðu gamni og þrír aðrir leikmenn sátu á varamannabekknum í borgaralegum klæðum vegna meiðsla, þeir Hörður Jóh., Hilmir Ægir Ómars. og Sveinn Hafsteinn.

En hvað sem þessu leið var FSu liðið mun betra, tók strax örugga forystu, 0-10 eftir 3 mínútur og eftir fyrsta leikhluta var munurinn 19 stig, 15-34. Í öðrum leikhluta var meira jafnræði, FSu vann þann hluta þó með 3 stigum, 18-21, og fór í te með bæði tögl og hagldir, 33-55.

En ekki lögðust Hvergerðingar á bakið og dilluðu rófunni í seinni hálfleik, heldur bitu í skjaldarrendur. FSu liðið hélt ekki einbeitingunni, tapaði mörgum boltum og „skaut framhjá“ í ágætum færum þannig að Hamar minnkaði muninn, óþarflega mikið að mati skrifara sem sat í stúkunni, og komst niður í einfalda tölu þegar verst lét. En það var bara augnablik og munurinn fór aftur upp í 12 stig, 57-69, við lok 3. leikhluta. Þegar 4 mín. voru eftir munaði 13 stigum, 71-84, en lokamínúturnar voru gestanna og úrslitin 71-92 sem fyrr segir.

Elli Stefáns. var stigahæstur heimamanna með 21 stig og góður í gegnumbrotum en með slaka nýtingu af þriggjastigafæri. Örn Sigurðar skilaði hæstu framlagi, 19 punktum, en hann skoraði 19 stig, nýtti 62% skotanna og tók 5 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson, kornungur og efnilegur nemandi í FSu-Akademíunni, setti 12 stig í andlitið á kennurum sínum þar, 4 þristar úr 8 tilraunum, takk fyrir túkall! Smári Hrafnsson skoraði 8 stig, Oddur Ólafs. 7 (9 frk. og 4 sts.), Kristinn „Diddi“ Ólafsson 3 og Guðjón Ágúst Guðjónsson 1 stig.

Það er orðin hálfgerð tugga að segja að Terrance Motley hafi verið atkvæðamestur hjá FSu. En þó hann hafi skorað 27 stig, tekið 10 fráköst, gefið 9 stoðsendingar, stolið 4 boltum og skilað 31 framlagsstigi má færa rök fyrir því að Ari Gylfason hafi jafnvel látið meira að sér kveða. Ari skoraði 26 stig, tók 11 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, stal 6 boltum og fékk fyrir það 33 í framlag. Ari setti niður 6 þrista í leiknum og var að heyra úr stúkunni að heimamenn séu orðnir hálfleiðir á honum.

Arnþór Tryggvason átti góðan dag, 12 stig, 6 fráköst og 1 varið skot er enginn smá happadráttur fyrir liðið inn í teiginn. Helgi Jónsson var annar Akademíustrákur sem lét verulega að sér kveða. Helgi brilleraði alveg með 11 stig, 80% skotnýtingu (3/4 í þristum), 8 fráköst og 6 stoðsendingar, alls 21 framlagsstig, sem er ekki ónýtt hjá 17 ára gutta!! Svavar Ingi skoraði 6 stig (50% nýting), Gísli Gautason 4 (2/2) og þeir Jón Jökull Þráinsson og heimamaðurinn Páll Ingason, þriðji Akademíunemandinn sem gerði sig gildandi, skoruðu 3 stig hvor. Tóti Friðriks náði ekki að setj'ann í gær en lék góða vörn og tók 2 fráköst.

Srákarnir okkar luku keppni á mjög jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Eins og Eloy sagði í viðtali við Gest frá Hæli eftir leik hefur þetta tímabil að mörgu leyti verið erfitt vegna ástands og aðstæðna í leikmannahópnum, mikil umskipti frá því í fyrra, ótrúleg meiðsli og vandræði fyrir vikið að halda úti almennilegum æfingum. Úr þessu öllu hafa þjálfararnir greitt snilldarlega, liðið, og leikmenn einstaklingslega, hefur verið í stöðugri framför í allan vetur, þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að æfa 5 á 5 nema kannski einu sinni, tvisvar í viku sum tímaskeiðin. Vel gert, Eloy og Jose!

Við hlökkum til að sjá hvert þeir geta farið með þetta lið næsta vetur.

ÁFRAM FSU!!!

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©