Frá aðalfundi

Grein skrifuð Föstudagur, 31 mars 2017
 

Aðalfundur Körfuknattleiksfélags FSu var haldinn í Iðu í gærkvöldi. Góð mæting var á fundinn og gengu hin hefðbundnu aðalfundarstörf vel.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn, en hana skipa nú:

Gylfi Þorkelsson, formaður, Eyþór Frímannsson, gjaldkeri, Blaka Hreggviðsdóttir, ritari, Auður Rafnsdóttir og Ólafur Valdín Halldórsson. Varastjórn skipa Sigríður Elín Sveinsdóttir og Jóhanna Hallbjörnsdóttir.

Úr stjórn gengu Gestur Einarsson, Ragnar Gylfason og Anna Björg Þorláksdóttir. Þeim eru hér með þökkuð góð störf í þágu félagsins, ekki síst Önnu Björgu sem hefur setið í stjórn í mörg ár.

Önnur helstu tíðindi af fundinum voru annars vegar ársreikningurinn. Ánægjulegt er að rekstrarreikningur er jákvæður annað árið í röð. Hagnaður af reglulegri starfsemi 2016 er ríflega ein milljón króna, miðað við rétt tæpar 500 þúsundir árið 2015. Langtímaskuldir að vinna á eru enn nokkrar, bankalán og yfirdráttur, en öllum skammtímaskuldum hefur tekist á tveimur árum að koma í lóg. Þetta má kalla mikinn og góðan árangur á stuttum tíma, en ljóst er þó að enn er brekka framundan, enda vaxtagjöld á síðasta rekstrarári 545 þúsundir, sem gjarnan mætti nýta í annað.

Hins vegar er gaman að segja frá því að á fundinum var kynnt nýtt merki félagsins. Það var hinn geðþekki Eyrbekkingur og FSu stúdent, Elli joð, sem hannaði merkið, sem er einfalt og smekklegt, látlaust og stílhreint, og í nokkrum mismunandi útfærslum. Á meðfylgjandi myndum má sjá nokkrar útfærslur.

oll logo

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©