Vöntun á einbeitingarleysisskorti

Grein skrifuð Miðvikudagur, 11 október 2017
 

FSU heimsótti Snæfell sl. mánudag í öðrum leik liðanna í 1. deild karla. Bæði höfðu tapað í 1. umferð og hafði leikurinn því nokkra þýðingu. Eftir mjög jafnan leik sigu heimamenn þó nóg framúr síðustu mínúturnar til að gestirnir næðu ekki í skottið á þeim og lokatölurnar 110-103 fyrir Snæfell.

Leikurinn var hnífjafn allan fyrri hálfeikinn, liðin skiptust á að hafa forystuna og munurinn aldrei meiri en 6 stig. Jafnt var í hálfleik, 46-46.

Sama var uppi á teningnum mest allan seinni hálfleikinn, jafnt 53-53, 60-60, 73-73 og þegar 5 mínútur voru eftir munaði einu stigi, 90-89. Heimamenn skoruðu þá 5 stig í röð og FSU náði ekki að brúa það bil.

Eins og tölurnar bera með sér var varnarleikur liðanna ekki upp á marga fiska. Heimamenn, með Covile í broddi fylkingar, fengu of mörg tækifæri til að bruna lítt áreittir inn að körfunni og leggja sniðskotin ofan í. Þá má segja að á ögurstundu hafi sjálfstraust Snæfellinga verið meira, og meira og minna allir leikmennirnir hittu úr „stórum“ skotum fyrir utan þriggjastiga línuna, þegar okkar menn reyndu sameiginlega að stöðva Covile. Á sama tíma geiguðu skotin okkar og við þurftum að sætta okkur við tap. 

Covile var mjög góður fyrir Snæfell með 35 stig, 12 fráköst og 62% skotnýtingu, ótrúlegur íþróttamaður sem ekki er heiglum hent að ráða við, eins og þekkt er en hann lék einnig með Snæfellingum á síðasta keppnistímabili. Viktor Marinó Alexandersson var einnig góður með 18 stig og olli oft usla með hraða sínum og krafti. Geir Elías átti skínandi leik með 17 stig og 5/7 í þristum, Jón páll Gunnarsson skoraði 13, Nökkvi Már Nökkvason 12 og Þorbergur Helgi Sæþórsson 8 en aðrir minna.

Í FSU liðinu var Jett Speelman mjög góður með 27 stig og 17 fráköst, 31 framlagsstig. Var sannast sagna oft á tíðum með ólíkindum í seinni hálfleik að fylgjast með hve mjög var leyfilegt að brjóta á honum undir körfunni. Ari Gylfason var stigahæstur FSU-manna og lék einnig mjög vel, með 28 stig, 7 fráköst og 56% skotnýtingu, 30 framlagspunkta. Sömu sögu má segja um Florijan Jovanov sem skoraði 20 stig, tók 7 fráköst og skilaði 20 framlagsstigum. Haukur Hreinsson skoraði 13 stig og gaf 7 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 6 stig og 4 stoðsendingar, Jón Jökull Þráinsson 5 stig og Maciek Klimaszewski 4 stig.

Ekki er tilefni til að kvarta yfir sóknarleiknum hjá okkar mönnum, þó vissulega sé þar enn margt að bæta, eða frammistöðu einstakra leikmanna almennt séð, heldur var það fyrst og fremst liðsvörnin sem brást hvað eftir annað. Þetta skrifast fyrst og fremst á „vöntun á einbeitingarleysisskorti“ en liðið mætti því miður ekki rétt stemmt til leiks.

Það verður lagað fyrir næsta og næstu leiki.

Tölfræðina úr leiknum má nálgast hér.

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Friday the 22nd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©