Fjölnir og Hamar

Grein skrifuð Mánudagur, 20 nóvember 2017
 

Ekki hefur enn verið greint frá úrslitum eða fjallað um síðust þrjá leiki FSU í 1. deild karla hér á síðunni. Þar er við ritara einan að sakast, sem hefur haft í ýmsu að snúast. Nú verður bætt örlítið úr fréttaskortinum, þó seint sé.

FSU-FJÖLNIR

Þetta var jafn leikur en FSU leiddi mest allan tímann, náði mest 10 stiga forystu snemma í öðrum leikhluta, 32-22. Fjölnir nartaði þó alltaf í hælana, munurinn 4-6 stig fram undir lok fyrri hálfleiks, en þá leiddi heimaliðið með einu stigi, 41-40. Í þriðja leikhluta var jafnt á flestum tölum og staðan eftir 30 mín. 66-66. Fjölnir komst yfir strax í síðasta hluta, en bara 1-3 stigum og þegar síðasta mínútan var á veg komin leiddu Fjölnismenn 76-75. Þá gerðum við dýr mistök og gestirnir kláruðu dæmið af vítalínunni, lokatölur 75-79.

Samuel Prescott setti 36 stig fyrir Fjölni og tók 10 fráköst, Sigvaldi Eggertsson var líka góður með 24 stig og 6 fráköst og Rafn Kristján Kristjánsson gerði vel með 8 stig og 12 fráköst.

Af heimamönnum voru atkvæðamestir Jett Speelman með 25 stig og 5 fráköst, Ari Gylfason með 20 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar og Florijan Jovanov með 12 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Hilmir Ægir átti líka ágæta innkomu með 11 stig og úrvals skotnýtingu. Meira framlag vantaði frá fleiri leikmönnum til að tryggja sigurinn en annars tapaðist þessi leikur á töpuðum boltum (16/10) og fráköstum (32/41), eins og fleiri leikir í haust.

HAMAR-FSU

Þá var komið að fyrsta útileiknum í þriggja leikja hrinu, gegn Hamri í Hveragerði. Eftir jafnar upphafsmínútur tók Hamar frumkvæðið því okkar mönnum gekk bölvanlega að hitta í körfuna þrátt fyrir ágæta spilamennsku og opin færi. Hamar leiddi 24-21 eftir fyrsta hluta en strax í þeim næsta tók FSU völdin og náði ágætu forskoti, 24-38, um miðjan leikhlutann. Þá kom röð af mistökum og töpuðum boltum og heimamenn komust inn í leikinn aftur á undraskömmum tíma en í hálfleik var staðan 41-45. Stemmningin var áfram Hamarsmegin allan þriðja hlutann og munurinn 5-6 stig þeim í hag, 65-60 eftir þrjá hluta. Þessu sneri FSU við í lokaleikhlutanum og hafði 3 stiga forystu um hann miðjan, 75-78, og 77-81 þegar 3 mín. voru eftir og fékk nokkur gullin tækifæri til að auka muninn enn frekar og gera út um leikinn. Það tókst ekki og röð mistaka leiddi til þess að Hamar vann síðustu mínúturnar 10-2 og leikinn með 4 stigum, 87-83. ARRRRRGGGG!!!

Larry Thomas var bestur Hamarsmanna með 23 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þorgeir Freyr Gíslason var einnig öflugur með 17 stig og ekki síst sín 10 fráköst. Julian Nelson skoraði 15 stig og 4 leikmenn aðrir voru með 7-9 stig.

Hjá FSU dreifðist framlagið ekki jafn vel. Jett skilaði sínu með 27 stig og 11 fráköst og sömuleiðis Florijan með 24 stig og 12 fráköst. Hlynur Hreinsson steig skref í rétta átt með 9 stig og 7 stoðsendingar og Maciek lék sinn besta leik hingað til, skoraði 12 stig og tók 6 fráköst og lét vita vel af sér, sérstaklega í fyrri hálfleik. Aðrir náðu sér ekki á strik og munaði mikið um að Ari var illa fyrir kallaður, skoraði 5 stig af vítalínunni en annars 0/8 í skotum, sem ábyggilega hefur ekki hent áður.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©