Loksins kom sigurinn

Grein skrifuð Mánudagur, 20 nóvember 2017
 

Viðureign botnliðanna, ÍA og FSU, sem hvorugt hafði unnið leik þegar hér var komið sögu, fór fram á Akranesi sl. föstudagskvöld. Eftir hnífjafnan leik sleit FSU sig frá síðustu 5 mínúturnar og landaði sínum fyrsta, langþráða og kærkomna sigri í deildarkeppninni á tímabilinu.

Jafnt var á fyrstu tölum en Skagamenn voru skrefinu á undan þar til FSU komst yfir 22-23 í byrjun annars leikhluta. Jafnt var á lygilega mörgum tölum langt fram eftir leik og ÍA leiddi 70-66 eftir mínútu í 4. leikhluta. Í stöðunni 74-74 skoraði FSU 7 stig í röð og leiddi með 10 stigum þegar mínúta var eftir, lokatölur 80-87.

Skagamenn tefldu fram nýjum bandarískum leikmanni sem þreytti nú frumraun sína, Marcus Levi Drewberry. Þetta er lítill og nettur strákur, en að sama skapi skotfljótur og leikinn. Hann splundraði nokkrum sinnum vörn gestanna með hraða sínum og sendingahæfni, skoraði 25 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Ármann Örn Vilbergsson er eins og allir vita baneitraður fyrir utan þriggjastigalínuna, getur auðveldlega skotið sunnan úr Grindvík, og hann skoraði 15 stig. Jón Orri var að vanda þéttur fyrir í teignum, með 11 stig í fáum tilraunum og 11 fráköst, framlagshæstur þeirra Skagamanna með 22 punkta. Allir 10 leikmenn ÍA sem komu við sögu settu stig á töfluna.

Helstu tíðindin af okkar mönnum eru þau að Hlynur Hreinsson steig nú upp úr öskustónni, að segja má, eftir tveggja ára baráttu við meiðsli. Hann átti skínandi leik og hans viðbótarframlag tryggði sennilega sigurinn, að öðrum ólöstuðum. Hlynur var með 20 framlagsstig og flotta skotnýtingu, 17 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar út frá tölfræðiskýrslunni, sem ekki er reyndar alveg marktæk að öllu leyti. Það eru miklar gleðifréttir fyrir liðið ef aðalleikstjórnandi þess er kominn á sporið til frambúðar.

Jett Speelman skoraði 26 stig, var með 50% nýtingu en bara 4 fráköst, sem er ekki nema í mesta lagi 30% af þörf liðsins. Ari skoraði 15 stig en Florijan 7 og tók 11 fráköst. Sveinn Hafsteinn skilaði sínu hlutverki vel, 11 stigum Jón Jökull sömuleiðis með 2 stig, 3 fráköst, 3 stoðsendingar og nokkra stolna bolta á mikilvægum stundum. Maciek setti 9 stig.

Bæði lið hittu úr 8 þriggjastigatilraunum en gæfan lá FSU-megin því ÍA reyndi 40 slík á móti 22 frá FSU. Akkilesarhælar FSU-liðsins hafa hingað til verið tapaðir boltar og fráköst. Hið fyrrnefnda var nú í lagi en hið síðarnefnda, fráköstin, hins vegar fyrir neðan öll velsæmismörk. ÍA vann frákastabaráttuna 47-32 og fékk stundum 3-4 tilraunir í hverri sókn til að skora. Þetta var ástæðan fyrir því að ekki vannst a.m.k. 20 stiga sigur uppi á Skaga, og ef ekki verður breyting á þessu verður erfitt eða ómögulegt fyrir okkar menn að vinna annan leik í vetur. 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©