Skallarnir betri á öllum sviðum

Grein skrifuð Sunnudagur, 26 nóvember 2017
 

FSU heimsótti Skallagrím í Borgarnes sl. fimmtudag í 1. deild karla. Eftir jafnan fyrri hálfleik sigu heimamenn framúr og unnu öruggan 28 stiga sigur að lokum. Þetta var fyrsti leikurinn í 2. umferð deildarkeppninnar og gaman að velta fyrir sér hvaða breytingar hafa orðið frá fyrsta leiknum í haust, í Iðu, en þá átti FSu, án erlends leikmanns sem var í banni, í fullu tré við Skallagrím, þó leikurinn tapaðist naumlega. Af úrslitum og spilamennsku liðanna nú sést að Skallagrímur hefur tekið miklum framförum sem lið miðað við FSU. 

Leikurinn fór vel af stað hjá okkar mönnum sem voru skrefinu á undan fram undir lok fyrsta fjórðungs, 7-12, 12-17, 16-21, en þá bitu Skallar í skjaldarrendur og leiddu 25-23 þegar fyrsta fjórðung lauk. Eftir það leiddu heimamenn, náðu 10 stiga forystu um miðjan 2. hluta en FSU minnkaði muninn í 5 stig fyrir hálfleik, 45-50. 

Í upphafi seinni hálfleiks fór munurinn niður í 2 stig 52-50, en þá kláraðist púðrið hjá FSU liðinu að mestu og munurinn jókst jafnt og þétt út leikinn og lokatölur 111-83.

Þegar tölfræðin er skoðuð er þar allt í samræmi við lokatölurnar, Skallagrímur hafði yfirburði á nánast öllum sviðum; fráköstin 43-29, stoðsendingar 37-20, skotnýting 59%-41%, framlag 153-82. Eini tölfræðiþátturinn sem var FSU í vil var vítanýting, en FSU hitti úr 14 af 15 vítaskotum sínum, eða 93%.

Finnur Jónsson gat dreift álaginu mjög vel á sinn mannskap og allir voru með á nótunum, liðið er fullt sjálfstrausts og spilar vel saman, liðsandinn frábær og ekki bara 12 leikmenn sem taka fullan þátt heldur var nánast hálfur bærinn á bekknum líka með liðinu, fagnandi og styðjandi félaga sína. Allt til fyrirmyndar þar.

FSU liðið státar ekki af sömu gleði og liðsanda, sjálfstraustið of fljótt að gufa upp við mótlæti. Þetta er kannski skiljanlegt, það er vont að tapa sífellt og erfitt að halda uppi brjálaðri stemmningu við þær aðstæður. Þó er ljóst að ekki verður breyting á gengi liðsins nema leikmenn girði sig í brók hvað þetta varðar. Skortur á baráttuþreki, liðsanda og úthaldi opinberast best í fráköstunum, en þar er liðið alveg á hælunum, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þó maður sé ekki upplagður í skotum eða sendingum þá á að vera hægt að stíga út og rífa niður eitt og eitt frákast, en láta ekki vaða yfir sig í eigin teig á skítugum skónum.

Ari Gylfason var langatkvæðamestur hjá FSU í þessum leik, skoraði 29 stig, þar af 6 þrista, og með hæsta framlagið, 20 punkta. Jett Speelman skoraði 17 stig og tók 5 fráköst, Florijan Jovanov 16 stig og 4 fráköst, Hlynur skoraði 6 stig, tvo þrista snemma í fyrsta leikhluta, gaf 8 stoðsendingar og tók 3 fráköst. Jón Jökull skoraði 6 stig, Sveinn Hafsteinn 4, Jörundur Snær 3 og Maciek Klimaszewski 2 stig og tók 4 fráköst.

Næsti leikur FSU er heimaleikur gegn Snæfelli nk. fimmtudag, 30.11. kl. 19:15. Snæfell er á góðu skriði, vann Vestra örugglega á heimavelli sínum í kvöld og erfitt við að eiga. Þennan leik getum við unnið en aðeins með samheldni og baráttu. 

ÁFRAM FSU!!!

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©