... og Covile vann ...

Grein skrifuð Föstudagur, 01 desember 2017
 

FSU tók á móti Snæfelli í 1. deild karla í gærkvöldi. Þetta var jafn og skemmtilegur leikur, en þó heimaliðið hafi verið betra á flestum sviðum leiksins (tölfræðin lýgur víst ekki!!!) þá vann Snæfell samt með 4 stigum, 98-102. 

Þær eru orðnar hálfgerðar klisjur, lýsingarnar á leikjum FSU í vetur, með örfáum undantekningum. Liðið sýnir ágæt tilþrif og er yfir fram undir lok leiks, en spilar frá sér tækifærunum á síðustu 1-2 mínútunum og þarf að láta í minni pokann. Þetta fer nú að verða gott af þessu.

Það var jafnræði með liðunum, FSU oftast yfir en Snæfell aldrei langt undan. Undir lok 3. leikhluta náði FSU mestu forystunni í leiknum, og leiddi með 11 stigum, 84-73, og alveg bullandi gangur á liðinu. En Snæfellingar voru fljótir að jafna í 4. hluta og þá var jafnt á nánast öllum tölum. Snæfell komst yfir 85-87 á 34. mín. en FSU leiddi 98-94 þegar síðasta mínútan var að renna í hlað. Þá mátti öllum gera að Covile jafnaði með fjögurra stiga sókn, þrist, villu og vítaskoti, og FSU lánaðist ekki að útfæra síðustu sóknir sínar nógu vel, of mikið knattrak og hik leiddi til þvingaðra skota í tímaþröng, sem ekki báru árangur, og Snæfell gekk á lagið með 2 síðustu körfunum.

Þó fyrirsögnin hér að ofan sé ekki sanngjörn gagnvart  góðu Snæfellsliðinu, öðrum leikmönnum þess, þá verður bara að segja hverja sögu eins og hún er. Christian Covile er frábær leikmaður, heldur sig til hlés þegar það á við, spilar uppi félaga sína og reynir að skyggja ekki á þá, en þegar á þarf að halda skorar hann bara. Svo einfalt er það. Hann var með 70% skotnýtingu og 13 fráköst, 37 sig og 45 í framlag. Hann bara kláraði dæmið fyrir sitt lið. 

Nökkvi Már átti skinandi leik, 4/6 af þriggjastigafæri og 16 stig, Viktor Marinó sömuleiðis, með hraða sínum og áræðni skilaði hann 12 stigum, Þorbergur Helgi 11 og þó Sveinn Arnar hafi "bara" skorað 8 stig og oftast hitt betur þá var hann hæstur sinna liðsfélaga í +/-, tók 6 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og batt saman varnarleikinn, var með sannkölluð hreðjatök á Jett Speelman hjá FSU.

Ari Gylfason var besti leikmaður FSU eins og oft áður. Hann var úrtökugóður í gær, með 30 stig, 71% skotnýtingu, 7/11 af þriggjastigafæri, tók 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, 32 framlagsstig. Hlynur Hreinsson var líka mjög góður, frábær í fyrrihálfleik, skoraði þá 18 stig og hitti úr öllu. Hlynur er smám saman að nálgast sitt besta form og spilaði í gær rúmar 38 mínútur, mest allra leikmanna FSU, setti 20 stig, tók 4 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og skilaði 20 framlagsstigum. Besti leikur Hlyns í vetur, hingað til.

Florijan Jovanov átti fínan leik, með 14 stig og 8 fráköst, og Maciek var góður með 10 stig, 7 fráköst og 17 framlagspunkta, hans besta frammistaða í vetur. Jett Speelman náði sér ekki nógu vel á strik, 16 stig og 6 fráköst er ekki nóg framlag frá atvinnumanni liðsins, sem vitað er að hefur hæfileika og alla burði til að gera betur. Það kemur þá bara í næsta leik!

Sveinn Hafsteinn skoraði 2 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Hans liðsframlag felst ekki síst í baráttuanda og jákvæðri hvatningu til félaga sinna, ómetanlegir kostir. Og nýjasti liðsmaðurinn, Ragnar Gylfason, sem nýlega gróf eftir gömlum skóm innan úr geymslu, breytti miklu í leik og yfirbragði liðsins með reynslu sinni, yfirvegun, krafti og baráttuvilja. Hann lagði 6 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar í púkkið, 10 framlagsstig.   

Til að loka hringnum er rétt að bera stuttlega saman liðstölfræðina. FSU var yfir á flestum póstum þar, skotnýtingu, vítanýtingu, stoðsendingum, og meira að segja fráköstum, og liðsframlag FSU var 110 gegn 108 hjá Snæfelli. Að þessu sögðu er ljóst að tölfræðin lýgur; betra liðið tapaði. En Covile vann ...

Björgvin Rúnar Valentínusarson tók myndir á leiknum sem nálgast má hér.

Næsti leikur FSU er nk. mánudag, 4. desember kl. 19:15 í Smáranum, Kópavogi, gegn Breiðabliki. 

ÁFRAM FSU!!!

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©