Breytingar í vændum

Grein skrifuð Mánudagur, 18 desember 2017
 

Liðið okkar tapaði síðasta leiknum fyrir jólafrí í gærkvöldi, gegn Gnúpverjum í Fagralundi, sem er heimasvæði HK í Fossvogsdalnum, Kópavogsmegin. Lokatölur 99-87.

Ekki verður skrifaður langhundur um þennan leik, hann má alveg gleymast sem fyrst. Gnúpverjar voru betri aðilinn og áttu sigurinn skilinn, voru með örugga forystu nánast allan tímann, mest 18 stig í seinni hálfleik, og þó okkar menn næðu að naga muninn niður í 4 stig komust þeir ekki nær og heimamenn sigu aftur fram úr.

Meginmunurinn á liðunum var barátta og leikgleði, sem Gnúpverjar hafa haft nóg af í allt haust, og þeim endist enn.

Þrátt fyrir ágætan mannskap og nokkrar væntingar um betra gengi í vetur hefur ekki tekist að púsla úr FSU-hópnum frambærilegu liði, því miður. Þó á milli sjáist þokkalegir sprettir þá er leikur liðsins svo brotakenndur, óstöðugur og viðkvæmur að allt skipulag á til með að hrynja til grunna við minnsta mótlæti. Það hefur vantað „maltið“ í þessa blöndu. 

Þá má koma því hér á framfæri að stjórn félagsins og þjálfarar hafa fyrir nokkru ákveðið að skipta um erlendan leikmann. Félagið þakkar Jett Speelmann fyrir samveruna, en hann reyndist hafa einstakan mann að geyma, samviskusaman, sjálfstæðan og sjálfbjarga, góðan félaga og dreng góðan í alla staði. Því er söknuður að honum, allir óska eftir þessum eiginleikum þegar þeir ráða erlendan leikmann. Jett er á margan hátt hæfileikaríkur leikmaður, en hans sterku hliðar eru ekki einmitt þær sem FSU-liðið vantaði frá atvinnumanninum sínum, að mati forsvarsmanna liðsins. Þegar hefur verið samið við annan Bandaríkjamann sem kemur til landsins milli jóla og nýárs, ef flugvirkjar og Icelandair lofa.

Vonir standa til að nýr leikmaður komi með eitthvað af því malti sem vantar - og að þeir sem fyrir eru í hópnum þambi ókjör af því um jólin. 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Monday the 18th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©