Góður heimasigur á Skagamönnum

Grein skrifuð Föstudagur, 26 janúar 2018
 

Leikur FSU og ÍA í 1. deild karla gærkvöld varð þegar til kom aldrei spennandi. Skagamenn skoruðu fyrstu körfuna en síðan tók FSU völdin. Eftir 5 mínútna leik var munurinn orðinn 12 stig, 17-5, og þó gestirnir héldu í við heimaliðið til loka fyrsta fjórðungs þá var nokkuð ljóst hvert stefndi. Í hálfleik munaði 30 stigum, 53-23 og mest fór munurinn yfir 40 stig, lokatölur 96-57, eða 39 stiga sigur.

Fín mæting var á leikinn, stúka heimaliðsins þétt setin, og góður andi sveif yfir vötnum. Það er gaman hve yngri iðkendur og foreldrar þeirra eru virkir í stuðningi sínum við liðið. Framtíðin björt.

Skagamenn, sem hafa ekki unnið leik í deildinni ennþá, hafa lent í miklum áföllum í vetur. Fyrst meiddist erlendi leikmaðurinn þeirra, Darrell Shouse, illa og þurfti að yfirgefa liðið. Nýr bandarískur leikmaður sem kom í staðinn, Marcus Dewberry,fsu ia 250118 web 57 hefur vaxið með hverjum leik og spilað mjög vel undanfarið. En sl. þriðjudag hvarf hann af landi brott „af persónulegum ástæðum“ og óvíst er með framhaldið hjá honum. Liðið heldur í vonina að hann skili sér fljótt aftur, en hann var alla vega ekki til staðar í gærkvöldi og ÍA hefur ekki efni á því að missa sinn besta leikmann. Því fór sem fór. FSU sendir bestu kveðjur upp á Skaga og vonar að farsællega leysist úr leikmannamálum þar hið fyrsta.

ÍA mætti með 10 manna hóp og allir komu við sögu, 9 settu stig á töfluna, fyrirliðinn Jón Orri flest eða 11 og Jón Frímannsson hirti 10 fráköst.

Sömu sögu var að segja hjá FSU, allir spiluðu og 11 töluvert mikið. Ari Gylfason var afburðagóður og daðraði við þrefalda tvennu með 20 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst á aðeins 23 mínútum, 5/8 í þristum og 26 framlagsstig. Antowine Lamb var einnig öflugur á köflum, skoraði á 25 mín. 19 stig, tók 10 fráköst, stal 5 boltum og varði 2 skot.

Fleiri áttu góðan leik. Hlynur Hreinsson var dansandi góður með 14 stig og gaf 5 stoðsendingar, hitti 4 af 6 þriggjastigaskotum og skilaði 17 framlagsstigum. fsu ia 250118 web 74Sömu sögu er að segja af Florijan Jovanov sem skoraði 13 stig, tók 4 fráköst, varði 2 skot og nýtti styttri skotin mjög vel, 18 í framlag. 

Svavar Ingi Stefánsson nýtti sínar tæpar 15 mínútur mjög vel, 9 stig, 4 fráköst og 3/4 í teignum. Sömu sögu er að segja af öðrum leikmönnum, allir skiluðu góðu dagsverki þó stigaskorið hafi verið mismikið eins og gengur. 

Haukur Hreinsson skoraði 6 stig úr flottum gegnumbrotum, Maciek 4 og tók 4 fráköst, Páll Ingason skoraði 4 stig, Jón Jökull Þráinsson 3 og gaf 4 stoðsendingar, Sveinn Hafsteinn skoraði 2 stig og stal 5 boltum og Bjarni Bjarnason skoraði 2 stig. Arnór Bjarki skoraði ekki að þessu sinni en gaf 2 stoðsendingar á þeim tiltölulega stutta tíma sem hann fékk á vellinum.

Af fyrrgreindum ástæðum var þessi leikur ekki „marktækur“ hvað styrkleika liðanna varðar, og engin hætta á því að heimamenn líti á þennan stóra sigur sem vísbendingu um gengi sitt í næsta leik, en þeir „fara í Fjósið“ nk. mánudag, 29. janúar, til að mjólka kýr Skallagríms. Vonandi ná þeir að tutla eitthvað úr borgfirskum spenum til rjómagerðar, en ekki tóma undanrennu.

Myndasafn Björgvins Rúnars Valentínusarsonar úr leiknum má skoða á Fjasbókarsíðu FSU-Körfu

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©