Sætur og langþráður sigur

Grein skrifuð Sunnudagur, 04 febrúar 2018
 

FSU mætti Snæfelli í Stykkishólmi í dag í 1. deild karla. Slæmt ferðaveður virtist blása vel í glæður okkar manna, sem unnu að lokum sætan sigur í sannkölluðum „naglbít“, lokatölur 100-101.

Það var jafnt á nánast öllum tölum í upphafi leiks, 27-27 eftir fyrsta fjórðung og 32-32 eftir 15 mínútna leik.Næstu mínútur var FSU skrefinu á undan og leiddi 48-52 í hálfleik. Þriðji hluti var góður hjá FSU sem náði 14 stiga forystu, 62-76 undir lok fjórungsins, en Geir Elías lagaði stöðuna fyrir heimamenn með þristi áður en flautan gall. Snæfell minnkaði muninn niður í 8 stig, 73-81, eftir 33 mínútur en FSU skoraði 5 stig í röð og kom muninum í 13 stig, 73-86 og aftur 80-93 þegar 4 mínútur voru eftir. Þá kom 11-2 kafli hjá heimamönnum og allt í einu aðeins 4 stiga munur, 91-95. Allt var á suðupunkti það sem eftir lifði leiks, leikstjórnandi FSU kominn á bekkinn með 5 villur og stemmningin með Snæfellingum, sem náðu forystunni 100-99. En Antowine Lamb skoraði og kom FSU aftur yfir þegar um 15 sek. voru eftir, 100-101. Lokatilraun Covile geigaði og strákarnir okkar fögnuðu langþráðum sigri.

Christian Covile, Þorbergur Helgi Sæþórsson og Viktor Alexandersson skorðuðu allir 19 stig fyrir Snæfell en skotnýting Covile var ekki góð, aðeins 30%. Sveinn Arnar var framlagshæstur heimamanna með 24 punkta, 15 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar og 5/7 í þristum. Geir Elías skoraði 10 stig, tók 4 fráköst og gaf 4 stoðsendingar, Nökkvi Már skoraði 10 stig og þeir Eiríkur Már og Rúnar Þór Ragnarsson 4 stig hvor.

Allt byrjunarlið FSU átti skínandi dag. Antowine Lamb var stigahæstur hjá FSU með 30 stig, 61% skotnýtingu, 5 fráköst og 3 stoðsendingar, 29 framlagsstig. Ari skoraði 25 stig, nýtti 7 af 9 þriggjastigaskotum, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, sem gaf 28 framlagsstig. Hlynur skoraði 17 stig, nýtti 5 af 6 þristum og 6 af 7 skotum í leiknum, tók 3 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, 22 framlagspunkta. Florijan skoraði 15 stig, tók 8 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, setti 3 af 4 þristum og skilaði 27 í framlag. Að lokum skoraði Bjarni Bjarnason 5 stig, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar, 9 í framlag.

Aðrir höfðu sig ekki eins mikið í frammi en skiluðu góðu dagsverki, Svavar Ingi 4 stigum og 2 fráköstum, Sveinn Hafsteinn 3 stigum og Maciek 2 stigum og 2 fráköstum. Haukur og Páll Ingason komu einnig við sögu í leiknum, en ekki voru fleiri til staðar vegna veikinda í leikmannahópnum.

Þegar rýnt er nánar í tölfræðina sést að skotnýting FSU er með ólíkindum, 52% í tveggja stiga skotum en 68% í þristum, hvorki meira né minna. Hlynur, Ari og Florijan hittu allir fáránlega og allir leikmennirnir vel.

Snæfell fékk 26 vítaskot á móti 14 hjá FSU, fráköstin voru nokkurn veginn á pari 31/29, en tapaðir boltar 10/18 Snæfelli í vil. Það má því með sanni segja að FSU hafi unnið þennan leik fyrir utan þriggjastigalínuna, enda þar ekki við menn að eiga á góðum degi.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©