Breiðablik númeri of stórt fyrir FSu

Grein skrifuð Laugardagur, 10 febrúar 2018
 

FSU tók á móti Breiðabliki í 1. deild karla sl. fimmtudagskvöld. Eftir góðan fyrsta leikhluta skildu leiðir og Breiðablik skildi FSU eiginlega eftir í rykinu og vann öruggan og verðskuldaðan sigur, 82-105.

FSU liðiið byrjaði glimrandi vel, spilaði flottan liðsbolta með hröðum færslum og fékk nokkur auðveld sniðskot eftir laglegar stoðsendingar. Eftir 5 mínútur leiddu heimamenn með 6 stigum 13-9, en þá vöknuðu gestirnir og minnkuðu muninn í 19-18 og leiddu 19-21 við lok fyrsta fjórðungs.Hlynur

Í öðrum hluta jókst munurinn jafnt og þétt og var kominn í 15 stig um hann miðjan, 25-40. Sá munur hélst til loka fyrri hálfleiks, 34-49. EFtir 5 mín. í þriðja leikhluta höfðu gestirnir bætt 10 stigum til viðbótar ofan á forystuna og leiddu með 25 stigum, 39-64. Fyrir síðasta fjórðung átti FSU liðið á 22 stiga bratta að sækja.

Lokafjórðungurinn byrjaði ekki vel hjá heimamönnum og munurinn fór upp undir 30 stig, 58-89 þegar 5 mínútur voru eftir. FSU náði að klóra í bakkann og minnka bilið í 15 stig, 77-92 þegar tvær mín. voru eftir en Breiðablik vann lokakaflann 13-5 og gulltryggði 23 stiga sigur.

Okkar gamli vinur, Chris Woods reyndist erfiður ljár í þúfu, skoraði 23 stig á 19 mínútum og nýtti 75% skota sinna, þar af nokkur erfið stökkskot utan teigs með mann í andlitinu, sem hann er ekkert endilega vanur að setja í af slíku öryggi. Þá voru Ragnar Jósef, Orri Hilmarsson og Erlendur Ágúst allir vel heitir fyrir utan þriggjastigalínuna og liðið hreyfði boltann hratt og vel og fann alltaf rétta manninn opinn á réttum stað. Ragnar setti 19 stig, Elli 13 og Orri 11 stig. Smith Florijanskoraði 14 stig, tók 11 fráköst og var framlagshæstur Blika með 27 stig, Árni Elmar skoraði 12, Snorri Vignisson 8, Sveinbjörn og Matthías Örn 2 hvor og Hafþór Sigurðarson 1 stig. Allir 12 leikmennirnir komu við sögu og gerðu gagn með fráköstum og stoðsendingum, dreifingin á framlagi var mjög góð innan liðsins.

FSU gat aðeins teflt fram 9 leikmönnum að þessu sinni vegna veikinda og meiðsla og a.m.k. 2 af þeim mættu nánast beint í leik eftir veikindalegu. Framlagsþunginn liggur á of fáum herðum í liðinu og það einfaldar allar varnaraðgerðir andstæðinganna. Antowine Lamb var framlagshæstur FSU-manna með 25 punkta, 16 stig og 14 fráköst. Næstur kom Hlynur með 18 í framlag, 15 stig, 5 stoðsendingar og glæsilega skotnýtingu. Ari var stigahæstur með 22 stig og bætti við 3 fráköstum og 3 stoðsendingum, 15 framlagsstig. 

Það munaði mikið um að Florijan átti ekki sinn besta dag, 8 stig og 4 fráköst, skotnýtingin oftast verið betri og fráköstin fleiri. Bjarni hitti ekki heldur vel en tók 4 Bjarnifráköst. Svavar Ingi skilaði sínu með 7 stig, Maciek skoraði 6 og þeir Sveinn Hafsteinn og Jón Jökull 4 hvor.

Tölfræðisamanburðurinn sýnir vel muninn á liðunum. Skotnýting (52%/35%), fráköst (47/36), stoðsendingar (23/17), varin skot (6/0) og heildarframlag (130/76) er allt Breiðabliki verulega í hag. 

Það var slæmt að liðið gat ekki fylgt eftir góðum leik í sigri gegn Snæfelli á útivelli í síðustu umferð, en í sjálfu sér varla við því að búast miðað við að nánast hefur verið messufall á æfingum alla vikuna af fyrrgreindum ástæðum.

Nú gefst vika til að safna kröftum fyrir næsta leik gegn Vestra föstudaginn 16. febrúar kl. 19:15. Þá hefst hinsvegar sannkallað akkorð með 3 leikjum á 7 dögum!!!

FSU

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©