Glimrandi liðsbolti og góður sigur

Grein skrifuð Laugardagur, 17 febrúar 2018
 

FSU tók á móti Vestra í gærkvöldi á heimavelli sínum í Iðu. Staða liðanna í deildinni er ólík, Vestri í þriðja sæti, 6 stigum frá toppnum með 14 sigurleiki, og líklegur kandídat í lokabaráttuna um sæti í Dominósdeildinni, en FSU-liðið hafði þegar leikar hófust aðeins unnið 3 leiki og var ekki sannfærandi í síðasta leik á heimavelli gegn öðru af toppliðunum, Breiðabliki.

En það er svo að hið fornkveðna, að enginn leikur er unninn fyrirfram, má til sanns vegar færa. Segja má að Vestramenn hafi aldrei séð til sólar í þessum leik. FSU náði strax forystunni, 5-0, og lét hana aldrei af hendi eftir það. Í fyrsta leikhluta var þófsu ia 250118.Lamb jafnræði með liðunum, heimamenn leiddu með 4-6 stigum, 28-22 eftir 10 mín.

Í öðrum leikhluta óx munurinn hægt og bítandi og var kominn í 13 stig í hálfleik, 52-39. Mestur varð munurinn 31 stig eftir 27 mínútna leik, 80-49, en Vestri klóraði aðeins í bakkann með 2-9 kafla og þegar þriðja fjórðungi lauk leiddu heimamenn 82-58.

Í lokafjórðungnum komust vestanmenn næst í 20 stiga mun, 89-69 og 97-77. Lokatölur 110-82, öruggur 28 stiga sigur.

Það má auðvitað finna sárt til með Vestra að hafa misst í alvarleg meiðsli annan af tveimur sínum öflugustu leikönnum, Nemanja Knezevic, sem er óumdeilt einn besti leikmaður deildarinnar, með um 22 stig, 18 fráköst, 4 stoðsendingar og 36 framlagsstig að meðaltali í leik!! Hvaða lið hefur efni á slíku áfalli?

En hvaða áhrif þetta hafði á úrslit leiksins fæst aldrei úr skorið. FSU spilaði nefnilega alveg glimrandi leik, sinn besta og heilsteyptasta á tímabilinu, og var sannfærandi liðsbragur á öllu bæði í vörn og sókn. Ólíkt því sem oft hefur verið raunin kom nú framlag úr öllum áttum. Þjálfarinn gat leyft sér að hvíla lykilmenn meira en oftast áður, enda bara tveggja daga hvíld framundan fyrir næsta leik, mánudaginn 19. febrúar, og liðið hélt þrátt fyrir það skipulagi að mestu og gaf á sér engan höggstað, menn komu áræðnir og fullir sjálfstrausts af bekknum.

Fjórir Vestramenn spiluðu meira en 32 mínútur, Nebojsa Knezevic var þeirra bestur með 19 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst, 21 framlagsstig. Björn Ásgeir skoraði 20 stig, tók 5 fráköst, nýtti skotin vel en þessum bráðefnilega strákfsu ia 250118.Hlynur voru aðeins mislagðar hendur á boltanum á köflum. Ingimar Aron skoraði 14 stig, Ágúst Angantýsson var með 13 stig og 8 fráköst, en hann var eiginlega sá eini sem eitthvað gat staðið fyrir framlínu FSU inni í teignum. Nökkvi Harðarson gaf sinn hlut samt ekki eftir baráttulaust gegn stærri mönnum, með 9 stig og 4 fráköst, Adam Smári 4 stig og 4 fráköst og Gunnlaugur Gunnlaugsson setti 3 stig.

Af okkar mönnum var Antowine Lamb öflugastur, spilaði nú sinn besta leik. Hann skoraði 32 stig með 67% skotnýtingu, tók 10 fráköst og skilaði 36 framlagspunktum. Hann var sannarlega ekkert lamb að leika sér við, svo gripið sé í fimmauraglensið. Hlynur Hreinsson var líka úrtökugóður, vex með hverjum leik og toppaði án efa sína frammistöðu hingað til í vetur. Það er sérstakt ánægjuefni að hann sé loks að komast í sitt rétta stand eftir rúmlega tveggja ára baráttu við meiðsli og afleiðingar þeirra. Hlynur var með fáránlega skotnýtingu (8/11 eða 73%), 21 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar, 25 í framlag.

Florijan Jovanov spilaði líka glimrandi leik; 16 stig, 7 fráköst, 5 stoðsendingar og 22 framlagsstig sanna það. Það er líka augljóst þeim sem hafa fylgst með liðinu í vetur að Florijan hefur nú aðlagast betur nýju umhverfi, nýjum liðsfélögum og nýju hlutverki frá fyrra ári, hefur meira gaman af þessu og er orðinn meiri liðsmaður. Virkilega flottur í gær. 

Þá er að geta Maciek Klimaszewski. Vestramenn réðu ekkert við hann á low-post með bakið í körfuna. Stóri strákurinn, sem margir gleyma þegar þeir leggja dóm á frammistöðu hans að er aðeins 22 ára gamall, skoraði 14 stig, nýtti 5 af 6 skotumfsu ia 250118.Maciek og öll 4 vítaskotin, 12 í framlag - og allt þetta á aðeins 12:29 mín. Bjarni Bjarnason, sem byrjaði með liðinu eftir áramót, er að komast í leikform og hjálpar liðinu mjög mikið, ekki síst varnarlega þar sem hann getur glímt við hættulegustu sóknarbakverði andstæðinganna, og skiptst á við Ara frænda sinn í því hlutverki, með ákefð sinni og baráttu, en einnig Hlyn frænda sinn í hlutverki leikstjórnanda. Bjarni var með 8 stig og 10 í framlag.  

Ari hefur oftast beitt sér meira sóknarlega, tók aðeins 7 skot í leiknum, skoraði 7 stig en gaf í staðinn 7 stoðsendingar og einbeitti sér að því að spila vörn á Nebojsa, og að því er virðist að halda þríheilagt í Biblíutölunum. Svavar Ingi kom sterkur af bekknum, skoraði 7 stig, Haukur sömuleiðis með 5 stig, 3 fráköst, 5 stoðsendingar og 10 í framlag. Sveinn Hafsteinn skoraði ekki en 2 fráköst, 2 stoðsendingar og 4 stolnir boltar voru fínt innlegg í heildarpottinn. Páll Ingason og Arnór Bjarki Eyþórsson komu inn á í lokin, en þeirra hlutverk á eftir að vaxa smám saman, eru okkar framtíðarmenn með rétta viðhorfið til að ná árangri. Sjö af leikmönnum FSu voru með 10+ í framlag, sem er fjári gott og heldur betur jákvæð breyting á liðinu.

Við samanburð á tölfræði liðanna kemur ekki á óvart að FSU er ofan á í flestum þáttum. Munurinn er þó ekki mikill í skotnýtingu (55%/49%) og fráköstin eru jöfn (33/33). En í öðrum dálkum skilur verulega á milli, vítanýtingu (93%/61%), stoðsendingum (28/18), töpuðum (10/20) og stolnum (11/4) boltum. Heildarframlag FSU-liðsins er 138 sem er langhæsta talan sem sést hefur í vetur.

Þetta er sem sagt, þó seint sé, gleðileg og jákvæð þróun fyrir okkur og vel hægt að brosa út í annað, a.m.k. fram að næsta leik. Þar er við Gnúpverja að etja á Flúðum strax á mánudaginn 19.02. kl. 20:00. 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 20th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©