Næsti heimaleikur FSU á Flúðum gegn Gnúpverjum

Grein skrifuð Laugardagur, 17 febrúar 2018
 

Næsti heimaleikur FSU er á Flúðum nk. mánudag, 19. febrúar, kl. 20:00, gegn Gnúpverjum. Þetta er sá seinni af tveimur leikjum sem FSU liðið leikur á Flúðum á þessu keppnistímabili.

Lið Gnúpverja hefur komið eins og stormsveipur inn í deildina og komið mörgum á óvart með baráttu sinni og leikgleði, sem skilað hefur 7 sigurleikjum. Mikil leikmannavelta hefur einkennt liðið en smám saman hafa góðir leikmenn bæst í hópinn og styrkt liðið verulega. Bandaríski leikmaðurinn þeirra er besti leikmaður deildarinnar og með nýlegum viðbótum í Hreppamanninum Atla Erni Gunnarssyni, unglingalandsliðsmanninum úr Njarðvík, Gabríel Sindra Möller, og nú nýjast hinum leikreynda Leifi Steini Árnasyni, eru Gnúpverjar komnir með þéttan hóp af reyndum og góðum leikmönnum.

Nú er kjörið tækifæri fyrir Hreppamenn og nærsveitunga að sjá vonandi bæði skemmtilegan og spennandi leik, en alla vega að mæta þó ekki væri nema til að berja augum frábæra leikmenn, eins og t.d.  hinn smáa en knáa bakvörð Gnúpverja, Everege Lee Richardson, sem skorað hefur mest allra í deildinni í vetur, 37.4 stig að meðaltali, skilað mestu framlagi, 37.32 punktum og er auk þess hæstur Gnúpverja í öðrum tölfræðiþáttum með 8.6 fráköst og 5.0 stoðsendingar. Atli Örn Gunnarsson er næstbesti Gnúpverjinn , næstur Richardson í framlagi, fráköstum og stigaskori.

Af okkar mönnum er Antowine Lamb hæstur á blaði með 24.1 stig (8. hæstur í deild), 11. 4 fráköst (3. í deild), og 28 framlagspunkta (7. í deild) að meðaltali í 7 leikjum. Næstir honum eru Ari Gylfason í stigaskori (18) og framlagi (17), Florijan Jovanov í fráköstum (7) og Hlynur Hreinsson er hæstur FSU leikmanna með 5.05 stoðsendingar að meðaltali í leik, 5. í deildinni, næstur fyrir ofan téðan Richardson.

Svo eru fleiri leikmenn, bæði „gamlir refir“ og ungir og upprennandi strákar, sem er vel þess virði að fylgjast með.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 20th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©