„Karaktersigur“ á Gnúpverjum

Grein skrifuð Tuesday, 20 febrúar 2018
 

Í gærkvöldi mættust FSU og Gnúpverjar í íþróttahúsinu á Flúðum og niðurstaðan varð annar magnaði sigurinn í röð hjá strákunum okkar, 21 stigs sigur á Everage Richardson og félögum hans í liði Gnúpverja, 113-92.

Liðsheild FSU stóðst öll próf í nokkuð erfiðum átakaleik þar sem verulega hitnaði í kolunum á köflum, jafnvel svo að lá við að syði upp úr. A.m.k. var einn sendur til búningsklefa í kælingu. En strákarnir okkar héldu ró sinni, án þess þó að gefa tommu eftir, og þegar þriggjastigaskotin fóru að detta í seinni hálfleik var ekki að sökum að spyrja.

FSU leiddi 9-6 og 14-11 en Gnúpverjar jöfnuðu 18-18 og náðu síðan 20-26 forystu fyrir lok fyrsta fjórðungs. Í öðrum hluta jafnaði  FSU 37-37 og aftur 39-39 en eftir það var FSU með yfirhöndina til loka, 48-41 í háfleik. Fljótlega í seinni hálfleik fór munurinn í 12 stig, 55-43 og gestirnir náðu eftir það aldrei að ógna svo heitið gæti, munurinn fór aldrei niður fyrir 10 stigin eftir það, staðan eftir 3ja hluta 80-64. Þegar 4 mínútur voru eftir stóð 102-79 og Kalli fór að skipta inn á strákum sem minna höfðu spilað.

Það var verulega gaman fyrir stuðningsmenn liðsins að sjá karakterinn og samheldnina í leikmönnum og verður að segja að eftirtektarverð breyting hafi orðið á liðinu. Varnarleikurinn er allur annar og flæðið í sókninni oft til fyrirmyndar. Stundum er talað um 'karaktersigur' í íþróttum og þessi var nákvæmlega það.

Richardson flaug allan tímann fremstur í oddaflugi fyrir Gnúpverja. Hann var frábær kallinn, skoraði 50 stig og skilaði 55 framlagspunktum, setti 11 þrista í 17 tilraunum, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Einhverjum gæti dottið í hug að þessi einstaklingstölfræði, a.m.k. 11 þristar í einum og sama leiknum, væri ekki síður fréttaefni en að kærasta leikmanns mæti til að horfa á! En svo er ekki að sjá á Netmiðlunum. Atli Örn Gunnarsson kom næstur Gnúpverja með 9 stig og 6 fráköst, Gabríel Möller skoraði 6 stig og gaf 9 stoðsendingar, en alls komust 9 leikmenn Gnúpverja á blað.

Antowine Lamb fór fyrir breiðfylkingu FSU. Fimm leikmenn skorðuðu 13 stig eða meira, Lamb flest, eða 31, auk þess að taka 10 fráköst. Florijan Jovanov var þrusugóður með 23 stig, 9 fráköst og 5 stoðseningar, og þeir Ari, Hlynur og Bjarni voru allir mjög góðir, Ari með 17 stig og 4 stoðseningar, Hlynur 13 stig og 4 stoðseningar og ekki síst Bjarni með 15 stig, 4 fráköst og 19 framlagsstig. Hvílíkt viðbótarframlag frá honum m.v. undanfarna leiki, framlag sem skiptir sköpum fyrir liðið. Haukur lagði sín lóð á vogarskálarnar með 3 stigum, 5 stoðsendingum og 3 fráköstum, Maciek skoraði 6 stig, en náði ekki að fylgja eftir frábærri hittni í síðasta leik, og Sveinn Hafsteinn skoraði 5 stig úr 2 skottilraunum!! 

Næst á dagskrá er heimaleikur gegn Fjölni í Iðu næstkomandi fimmtudag, 22. febrúar kl. 19:15. Rétt er að enginn missi af þeim leik, enda FSU liðið til alls líklegt nú um stundir og í bullandi færum að vinna þriðja leikinn í röð - þ.e. með sömu spilamennskunni áfram!

ÁFRAM FSU!!! 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 20th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©