Slen og úrræðaleysi

Grein skrifuð Laugardagur, 24 febrúar 2018
 

Hálfgert slen og úrræðaleysi einkenndi leik FSU gegn Fjölni í Iðu sl. fimmtudagskvöld, eftir tvo glimrandi leiki í röð þar á undan, og liðið mátti sætta sig við tap í eiginlega arfaslökum leik, 65-76.

FSU byrjaði þó leikinn vel, spilaði við hvern sinn fingur og margar fallegar leikfléttur enduðu með stoðsendingu og sniðskoti. Um miðjan fyrsta leikhluta leiddi FSU með fimm, 12-7, og við lok hans með átta, 21-13. Í öðrum leikhluta leit lengi fsu ia 250118 web 23vel út fyrir að okkar menn ætluðu að sigla þessu nokkuð þægilega til hafnar, 31-20 eftir 14 mínútur, en þá fór sóknin að hiksta og Fjölnir minnkaði muninn hratt og örugglega, vann þær 6 mínúter sem lifðu fram að hálfleik 11-20 og var farinn að narta í hælana, 42-40 í hálfleik.

Enn var lífsmark með okkar mönnum í upphafi seinni hálfleiks, 48-43 eftir 3ja mínútna leik en Fjölnir jafnaði 48-48 á 25. mínútu. Nú hrökk allt í baklás og FSU skoraði aðeins 2 stig á næstu 6 mínútum á meðan gestirnir settu niður 12 og leiddu með 10, 50-60, þegar síðasti leikhluti var eftir. Í lokafjórðungnum náði Fjölnir 14 stiga forystu, 58-72, þegar 4 mínútur voru eftir og FSU liðið gerði sig aldrei líklegt til að brúa það bil, niðurstaðan 11 stiga tap, 65-76.

Ekki er hægt að kenna varnarleiknum um tap að þessu sinni, það er með minnsta móti að fá á sig 76 stig þegar margir leikir enda í þriggja stafa tölu, jafnvel hjá báðum liðum. En sóknarleikurinn var sá daprasti sem FSU hefur boðið upp á í vetur. Hann einkenndist af úrræðaleysi; of miklu knattraki þegar Falur brýndi sína menn í vörn á boltaskrínum, lítil hreyfing var á mönnum án bolta og engar sendingalínur opnar fyrir vikið. Liðið var að auki allt of lengi upp með boltann og gerði þannig gestunum lífið létt að skipuleggja varnarleik sinn. Sóknir enduðu því trekk í trekk á hálfgerðu neyðarskoti í kappi við skotklukkuna - og skotnýtingin eftir því, örugglega sú daprasta af þriggjastigafæri í Iðu frá því sögur hófust, 3/17 eða 18%.

Í síðasta leik skoruðu 5 leikmenn FSU 13 stig eða meira, nú aðeins 2 meira en 10 og næstu menn aðeins með 6 stig, sem er alveg ótrúlegt. Antowine Lamb átti góðan Florijanleik, með 31 stig, 15 fráköst, 3 varin skot og 8 fiskaðar villur, 39 framlagspunkta. Florijan var á pari tölfræðilega með 14 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.

Eitthvert slen var yfir þeim frændum; Ari gerði þó vel með 7 fráköstum og 5 stoðsendingum en aðeins 6 stig, skotnýting og tapaðir boltar voru alveg úr karakter. Sömu sögu má segja af Hlyni, sem hefur skotið boltanum frábærlega í undanförnum leikjum, Bjarna og Hauki, en þessir 4 leikmenn skiluðu aðeins 11 framlagsstigum samanlagt. Sveinn Hafsteinn og Svavar Ingi skoruðu báðir 4 stig og hífðu framlagstölurnar ekki upp að gagni.  

Sigvaldi Eggertsson (17 stig; 9 fráköst) og Andrés Kristleifsson (18 stig; 4 fráköst) voru bestir í liði Fjölnis og Samuel Prescott Jr. (17 stig; 5 frk; 6 sts) kom í kjölfar þeirra.

Við samanburð kemur í ljós að þrátt fyrir hörmulega þriggjastiganýtingu FSu er heildarskotnýting liðsins betri en gestanna (41%/38%), en þeir taka fleiri fráköst (36/41) og tapa færri boltum (17/14). Stoðsendingar eru mældar FSU í hag (19/11) og ekki munar miklu á heildarframlagi (75/85).

Með eðlilegri meðalframmistöðu hefði FSU unnið þennan leik með 15-20 stigum og því var þetta fínn lærdómur og brýning fyrir lokasprettinn, útileiki næstu tvo föstudaga, 2. mars í Hveragerði og 9. mars á Akranesi.

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 20th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©