Markmið FSu

Körfuknattleiksfélag FSu rekur körfuboltaakademíu við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem rík áhersla er lögð á ástundun og aðhald í námi jafnt og árangur í íþróttum. Hver hópur innan akademíunnar æfir fjórum sinnum í viku og eru allar æfingar í stundatöflu nemenda. Námið í akadedmíunni er einingabært í framhaldsskólakerfinu á námsferli nemenda, eins og hvert annað nám.

Mikil áhersla er lögð á undirstöðuatriði körfuknattleiks og fá nemendur akademíunnar mikinn tíma einstaklingslega með þjálfara til þess að bæta sig í íþróttinni og er hver nemandi metinn eftir getu og eigin þörfum í upphafi hverrar annar. Akademían opin öllum, hvort sem leikmaður spilar með liðum FSu eða ekki, og gefur ungum, metnaðarfullum leikmönnum af báðum kynjum frábært tækifæri til að bæta sig með því að vinna einstaklingslega í veikleikum sem alla jafna gefst lítill tími til að gera á hefðbundnum liðsæfingum.

Í íþróttahúsi Fjölbrautaskólans, Iðu, er frábær aðstaða fyrir körfuknattleik. Sex körfur eru í húsinu, sérhönnuð lýsing fyrir körfuknattleik, fullkominn lyftingasalur, slökunarherbergi og skólastofa sem notuð er fyrir leikmannafundi, vídeófundi og aðra samveru. Aðalþjálfari og stjórn félagsins eru með skrifstofu í Iðu. Þjálfarinn, sem jafnframt er stjórnandi akademíunnar, er við þar á skólatíma og oftast langt fram á kvöld, en formaður og gjaldkeri félagsins eru oft á sveimi en ekki með fasta viðveru. Nemendur akademíunnar og leikmenn félagsins eiga því að hafa góðan aðgang að stjórnendum. 

Ef nemendur þurfa á hjálp að halda í bóklegu námi geta þeir leitað til starfsmanna akademíunnar eða stjórnar félagsins.

Unnið er markvisst að samstarfi við akademíur erlendis og skóla í Bandaríkjunum. Ef leikmenn hafa þann metnað sem til þarf að komast í áframhaldandi nám í gegnum körfuknattleik er FSu með sterk sambönd við skóla erlendis og eitt meginmarkmið akademíunnar er að útskrifa sem flesta nemendur og koma þeim sem áhuga hafa í áframhaldandi nám hvort sem er á Íslandi eða á skólastyrk erlendis. 

Nemendur akademíunnar skrifa undir samkomulag í upphafi hvers skólaárs þess efnis að þeir neyti ekki áfengis, tóbaks eða annara vímuefna á meðan þeir eru skráðir í nám og stunda æfingar á vegum Körfuknattleiksfélags FSu. Áhersla er einnig lögð á að hvetja til hollra lífshátta og gott mataræði. 

Hjá FSu er markmiðið einfalt: að nemendur akademíunnar og leikmenn félagsins fái alla þá aðstoð og stuðning sem þarf til bæta sig í námi og íþróttum. 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 20th. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©