Mikilvægur útisigur

Okkar menn heimsóttu Breiðablik í Smárann föstudaginn 7. nóvember í 1. deild karla. Leikurinn var af mikilvægari gerðinni, eftir sigur í fyrsta leik en tvo tapleiki í kjölfarið, svo þriðji tapleikurinn í röð hefði verið ansi súr biti að kyngja. 

Og það leit ekkert allt of vel út lengi vel, því þó FSu hafi byrjað betur rétt í upphafi og skorað tvær fyrstu körfurnar, voru Blikar komnir yfir 7-5 um miðjan fyrsta leikhluta og héldu forystunni alveg þar til FSu jafnaði loksins eftir 35 mínútur, 72-72, en eftir það litu strákarnir ekki til baka og sigldu þessu heim til hafnar.

Að loknum fyrsta hluta var staðan 19-13 og það tók strákana okkar hálfan annan leikhlutann að bæta við, en þá var munurinn á liðunum orðinn 15 stig, 28-13. Þeim tókst að saxa niður um 10 stig, 31-26 eftir 17 mínútna leik, en þá skildu heimamenn þá að nýju eftir í reyk og leiddu í hálfleik 43-28.

Seinni hálfleikurinn fór í að minnka muninn smátt og smátt, eftir 26 mín. munaði 6 stigum, 50-44, og að loknum þriðja leikhluta var þetta komið í 3 stig og allt opið, staðan 61-58.

Um miðjan fjórða hluta vorum við búnir að jafna og sigldum svo jafnt og þétt fram úr, lokatölur 81-91 og FSu vann seinni hálfleikinn því 63-38. Ekki dónalegt að skora 63 stig í einum hálfleik, ef út í það er farið.

Ánægjulegustu tíðindin úr þessum leik eru tvímælalaust stóraukið og gott sóknarframlag frá fleiri leikmönnum en í fyrri leikjum á tímabilinu. Þar fór Elli fremstur að þessu sinni með sinn langbesta leik á þeim vallarhelmingi, en kappinn hitti úr 7 af 12 þriggjastiga tilraunum sínum, sem er framúrskarandi, 58% nýting, hvorki meira né minna. Þá er Hlynur Hreinsson að stíga upp úr sínum meiðslum og komast í betra leikform, spilaði tæpar 24 mínútur og skoraði 14 stig. Þó nýtingin utan af velli hafi ekki verið eins mögnuð og hjá Ella, þá munaði verulega um að Hlynur setti 9 af 10 vítaskotum sínum.

Collin og Ari bættu sig líka frá síðustu leikjum, Ari setti 4 af 9 þristum og 18 stig, auk 5 frákasta og 7 fiskaðra villna. Collin skoraði 20 og þó nýtingin eigi enn eftir að batna þá munar meiru að hann er kominn í berserkjaham í fráköstum, reif niður 24 stykki, segi og skrifa!

Þó þessir hafi verið atkvæðamestir í tölfræðiþáttum stóðu hinir strákarnir sig líka vel, Birkir með trausta frammistöðu á rúmum 20 mínútum og 2 stig, Svavar Ingi 6, Maciej 4 og Þórarinn skilaði sínu líka vel, þó hann hafi ekki skorað, með 2 fráköst og 3 stoðsendingar.

Það má alveg segja það við strákana hér að það er óþarfi að láta reyna svo alvarlega á tauga- og blóðrásarkerfið í þjálfurum, stuðningsmönnum í stúkunni og þeim sem heima sitja og fylgjast með í tölvunni. Þessi leikur tók verulega á, en sem betur fer sýndu þeir hvað í þeim býr í seinni hálfleik og rændu fólkið sitt ekki svefni.

Næsti leikur er gegn toppliði Hattar hér heima í Iðu. Búast má við eðlilegri stígandi í okkar liði og þar með hörkuviðureign, enda viljum við vera á meðal toppliðanna.

 

Keflvíkingum velgt undir uggum

FSu tók á móti Dominosdeildarliði Keflavíkur í Poweradebikarnum í Iðu í kvöld. Eins og eðlilegt ætti að teljast reyndust Suðurnesjamenn sterkari og unnu að lokum með 8 stiga mun, 86-78. En þetta var langt því frá leikur kattarins að músinni og ef heimaliðið hefði náð að sýna sitt besta, þá er eins víst að úrslitin hefðu orðið óvænt. 

Keflavík skoraði tvær fyrstu körfurnar en FSu minnkaði muninn með þristi og jafnræði hélst næstu mínútur. Eftir miðjan fyrsta fjórðung náðu gestirnir 8 stiga forystu, 11-19, en síðustu 2 mínútur fjórðungsins gekk hvorki né rak í sóknarleiknum fyrr en FSu skoraði rétt fyrir lokin og staðan 13-19 eftir 10 mínútur.

FSu byrjaði annan hlutann af krafti og minnkaði muninn í 3 stig, 20-23 og 24-27. En þá spýttu Keflvíkingar í og voru komnir með þægilegt 14 stiga forskot eftir 17 mínútur, 26-40. FSu rétti sinn hlut, 30-40 en Keflavík leiddi í hálfleik 32-43.

Sami munur hélst í upphafi seinni hálfleiks og um hann miðjan var munurinn enn 11 stig gestunum í hag, 39-50. Með mikilli baráttu náðu heimamenn að minnka muninn í 51-55 rétt fyrir lok þriðja fjórðungs en Keflavík átti síðast orðið og staðan 53-59 þegar 10 mínútur voru eftir.

Þessi munur hélst á liðunum í stórum dráttum til leiksloka, minnstur varð munurinn 6 stig og heimamenn áttu þá tækifæri til að nálgast enn frekar. En einbeitingarleysi olli því að besti leikmaður Keflvíkinga, hinn aldni höfðingi Damon Johnson, komst inn í slaka sendingu úr innkasti og skoraði úr hraðaupphlaupi - og kafrak svo síðasta naglann með löngu stökkskoti skömmu síðar.

Johnson dró vagninn fyrir Keflvíkinga í þessum leik, 26 stig, 9 frk. og 4 stoðsendingar á 36 og hálfri mínútu. FSu átti engan nógu góðan kost gegn honum varnarlega þegar Graves VI var líka inni á. Bakverðirnir okkar gerðu sannarlega sitt besta en eru bara of litlir og léttir og stóru strákarnir eiga erfitt uppdráttar gegn honum úti á velli. Annars dreifðist álagið vel hjá Keflvíkingum. Fyrrnefndur Graves VI setti 17 stig og tók 11 frk., Valur Orri, Guðmundur Jónsson og Gunnar Einarsson allir með 9 stig, Davíð Páll 8, Eysteinn Bjarni 4 og Þröstur Leó og Andrés Kristleifsson skoruðu báðir 2 stig.

Í liði FSu var Collin Pryor góður með 34 stig, 13 fráköst, 60% skotnýtingu og 35 í framlag. Erlendur Ágúst átti líka skínandi leik, skoraði 16 stig, nýtti 50% skota, 4 fráköst og 5 stoðsendingar. Birkir Víðisson átti prýðilega innkomu, setti 9 stig og fór nokkrum sinnum illa með vörn gestanna með hraða sínum og áræðni í gegnumbrotum. Ari Gylfason skoraði 8 stig og bætti upp skotnýtinguna með 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. Geir Elías skoraði 5 stig, Maciej 4 og Hlynur Hreinsson 2 stig.

Jákvæður punktur frá síðasta leik var 100% vítanýting, en liðið fékk að vísu aðeins 9 vítaskot í leiknum, sem er óeðlilega lítið. Þar af fékk Collin t.d. bara 2 víti!

Til þess að eiga möguleika á sigri hefði allt liðið þurft að eiga góðan leik. Margt er jákvætt í sóknarleiknum, fallegar og vel útfærðar leikfléttur skapa úrvalsfæri nálægt körfunni. En þriggjastiganýtingin er enn óeðlilega döpur, aðeins 24% hjá liðinu í leiknum. Liðið fékk nóg af góðum þriggjastiga færum, 29 skot og flest opin. Þau detta bara ekki um þessar mundir. Þá má segja að ekki hafi sést eins mikið „blod på tanden“ í kvöld eins og í síðasta leik í deildinni gegn Hamri og Keflvíkingar fengu fyrir vikið of mikið af of auðveldum körfum. Ef þessir hluti hefðu verið í betra standi hefði liðið velgt Keflvíkingum enn betur undir uggum, og vel getað unnið leikinn.

Þegar tölfræðin er skoðuð nánar kemur í ljós að liðin eru áþekk í skotnýtingu, fráköstum, töpuðum og stolnum boltum. Heimaliðið gerir betur í stoðsendingum (20/13) en gestirnir fá hærra framlag (96/84) og frá fleiri leikmönnum og þar liggur sennilega hundurinn grafinn.

 

FSu-Keflavik

1911643 10100342732534900 3995414287247537335 n

Vörn af öllu hjarta

FSu liðið heimsótti Hamar í Hveragerði í gærkvöldi í 1. deild karla. Þetta varð mikill baráttuleikur þar sem leikmenn reyndu sitt ítrasta, fleygðu sér í gólfið og út í veggi til að ná boltanum en fyrir vikið var allmikið um mistök. En svona vilja áhorfendur hafa það, þeir vilja sjá leikmenn leggja sig fram og eru tilbúnir að fyrirgefa ýmislegt í staðinn. Þó FSu hafi leitt mest allan tímann reyndust Hamarsmenn sterkari síðustu mínúturnar, unnu 84-78 og eru ósigraðir eftir þrjár umferðir.

 

FSu byrjaði mun betur og náði 10 stiga forystu, 4-14, fyrir miðjan fyrsta fjórðung og eftir 8 mínútur var staða þeirra enn góð, 11-20. Á fyrstu mínútu 2. leikhluta skoraði Hamar 8 stig gegn engu og munurinn 1 stig. FSu strákar vöknuðu til lífsins og um miðjan fjórðunginn var staðan 23-30. Hamar jafnaði og komst yfir í fyrsta skipti, 33-31 eftir 17 mínútur, en gestirnir áttu síðastu orðin í hálfleiknum og leiddu 33-38.

 

Í seinni hálfleik varð munurinn mestur 11 stig á 24. mínútu fyrir okkar menn, 45-56, en Hamar jafnaði 63-63 og aftur 65-65, sem var staðan þegar 30 mínútur höfðu verið leiknar. Í lokahlutanum komst Hamar svo yfir 70-67 en FSu svaraði fyrir sig og leiddi með fjórum, 70-74, þegar 6 mínútur voru eftir. Nú var lukkan og einbeitingin horfin gestunum og þeim var fyrirmunað að skora næstu 5 mínútur, á meðan raðaði Hamar niður 12 stigum og staða þeirra orðin vænleg, 82-74, þegar ein mínúta var eftir. Lokatölur 84-78 eins og fyrr var um getið.

 

Hjá Hamri báru nýju leikmennirnir af, þeir Julian Nelson og Þorsteinn Gunnlaugsson. Þorsteinn einn besti leikmaðurinn í deildinni mörg undanfarin ár, hokinn af reynslu og styrk, með 13 stig, 14 fráköst og góðan varnarleik gegn Collin Pryor. Og Nelson var sá sem skipti sköpum og vann leikinn fyrir Hamar, með 34um stigum og 8 fráköstum. Þegar Hamarsliðið komst hvorki lönd né strönd gegn sterkri vörn FSu var það þrautalendingin að láta Nelson klára dæmið upp á eigin spýtur. Hann gerði það, getur skotið fyrir utan þriggja stiga línuna og er líka snarpfljótur í gegnumbrotum og kattliðugur að hlykkja sér að körfunni. Hinn síungi Halldór „Gamli“ Jónsson var líka betri en enginn með 5/7 í þristum og 19 stig.

 

Það verður ekki af okkar strákum tekið að þeir berjast eins og ljón, eru eins og fjandinn sjálfur út um allan völl. Liðið hefur tekið miklum framförum í varnarleiknum frá því í fyrra og verður spennandi að sjá hvernig hann þróast eftir því sem á líður tímabilið. Ekki verður hjá því komist að minnast þar á Þórarin Friðriksson, sem er með eindæmum baráttuglaður strákur og virðist kveikja enn betur í félögum sínum, sem þó eru engar geðlurður fyrir. Þórarinn lék lítið sem ekkert í fyrra en byrjar nú inná, og næsta víst er að þessa stöðubreytingu á hann að þakka eldmóði sínum og áræðni. En hinir leikmennirnir eiga líka hrós skilið að þessu leyti, og liðsvörnin er með allt öðru og betra yfirbragði en lengst af á síðasta tímabili. Rós í hnappagatið. Tölfræðilegur stuðningur við varnarleikinn sést í 23 töpuðum boltum Hamars á móti 15 hjá FSu.

 

Tvennum sögum fer af sóknarleiknum. Það sem heillar við hann er góð liðssamvinna og vel útfærð leikkerfi. Það var unun að horfa á margar sóknir liðsins, sem enduðu með auðveldum sniðskotum trekk í trekk. Hinn kornungi miðherji, Maciej Klimaszewski, naut iðulega góðs af þeim samleik og skilaði boltanum í netið af öryggi. Maciej, sem þrátt fyrir nafnið og erlendan uppruna er íslenskari en flestir og farinn að láta til sín taka í yngri landsliðum Íslands, gerði líka nokkrum sinnum vel þegar hann fékk boltann með bakið í körfuna og setti hann mjúklega yfir tvo af bestu kraftframherjunum í íslenskum körfubolta, þá Þorstein Gunnlaugsson og Örn Sigurðarson. Strákurinn skoraði 17 stig og hitti úr 8 af 9 skotum. Geri aðrir betur.

 

Hins vegar er illt að horfa upp á það þegar leikmenn misnota auðveld færi, og of mikið var um það í þessum leik, reyndar má segja slíkt hið sama um alla þrjá fyrstu leikina. Eitthvað þarf að laga, hvað sem það er, því svona leikir vinnast ekki nema með því að stilla betur miðið. Og 50% vítanýting er með öllu óboðleg liði sem vill láta taka sig alvarlega. Hér tapaðist leikurinn.

 

Það er vissulega skarð fyrir skildi að leikstjórnandi liðins, Hlynur Hreinsson, hafi verið fjarverandi vegna meiðsla hingað til. Hann skilaði þó 9 mínútum í þessum leik og virðist vera óðum að ná sér. Það mun taka hann einhvern tíma að komast í sitt besta form en ógnin fyrir utan þriggja stiga línuna vex til muna með endurkomu hans. Erlendur Ágúst leysir af í þeirri stöðu og gerir margt mjög vel, ekki síst varnarlega. Birkir Víðisson sýndi styrk sinn, fagmennsku og leikskilning í gegnumbrotum, með því að velja hárrétt milli sendinga og sniðskota. Segja má að of margir í liðinu séu á svolítilli þrautagöngu í augnablikinu hvað skotið varðar, en með aðstoð ættu þeir að finna það, vonandi sem fyrst, og þá verður liðið erfitt við að eiga.

 

Collin Pryor og Ari Gylfason, öxlarnir í liðinu, eru augsýnilega ekki komnir á fullan styrk. Collin byrjaði vel, setti tvö góð stökkskot við teyginn, en þegar á leið lét hann Þorstein ýta sér úr stöðu og fór að taka slæm skot. Nýtingin hrapaði fyrir bragðið (4/11), sem er óvenjulegt fyrir Collin, og stigin aðeins 13, langt undir hans meðaltali. Hann spilar samt alltaf sína að því er virðist vélrænu, góðu vörn og endaði með 14 fráköst. Ari er ekki kominn í sitt besta form og þriggjastigaskotnýtingin (2/10) geldur þess. Hann byrjaði rólega en átti frábæran kafla um miðbik leiksins og sýndi þar yfirburði sína, jafnt fyrir utan þriggjastiga línuna, með styttri stökkskotum, gegnumbrotum og hraðaupphlaupum. Undir lok leiksins fóru svo mikilvæg skot, sem að öllu jöfnu detta, naumlega forgörðum. Ari var stigahæstur með 20 stig og tók að auki 5 fráköst.

 

Þegar á allt er litið er útlit fyrir skemmtilegan vetur í Iðu. Liðið okkar spilar frábæra vörn, sannarlega af öllu hjarta, og þó að nokkrir hnökrar séu sóknarlega og full margir eigi eftir að fínstilla miðið, þá er það eins víst og að sólin kemur upp að morgni að það stendur til bóta.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©