Sterkur sigur í Iðu.

601437 10152713088640287 1880073073 nFSU mætti Breiðablik í 1.deild karla í kvöld en leikurinn fór fram í Iðu fyrir framan rúmlega 100 áhorfendur.

Þessi lið eru í mikilli keppni um að komast inn í úrslitakeppnina. 

Breiðablik byrjaði leikinn betur og tóku strax forystuna, heimamenn virtust ekki klárir í slaginn og alveg sama hvort um var að ræða varnarleik eða sóknarleik. Fyrsti leikhlutinn var í stuttu máli eign gestanna sem voru komnir með 6 stiga forskot að honum loknum 13-19.

Annar leikhluti var alls ekkert betri hjá heimamönnum í FSU og virtust þeir algjörlega andlausir í öllum sínum aðgerðum. Breiðablik voru hins vegar vel stemmdir og voru að vinna leikinn á öllum vígstöðvum og á sérstaklega í fráköstunum, en þeir fengu að vaða inn og út úr teig heimamanna með boltann með sér og enginn hafði rænu á að ýta þeim þaðan út. Staðan í hálfleik 35-46 Breiðablik í vil.

Í hálfleiknum fóru liðin til klefa og fóru yfir sín mál, það er ekki hægt að hafa eftir hvað var sagt inn í klefa FSU í leikhlé þar sem hugsanlega gætu börn verið að lesa þetta og eða viðkvæmir einstaklingar. En það sem var sagt virkaði vel því heimamenn komu algjörlega dýrvitlausir inn í seinni hálfleik og á aðeins 5 mínutum voru þeir búnir að jafna leikinn með 11-0 spretti þar sem vörnin hjá þeim virtist óyfirstíganleg fyrir gestina sem skoruðu sín fyrstu stig í seinni hálfleik eftir heilar 6 mínutur. Eftir 3.leikhluta var það FSU sem leiddi leikinn 58-54.

4.leikhluti byrjaði á sömu nótum og sá þriðji þar sem heimamenn voru komnir í mikinn ham og hleyptu Breiðablik ekki nálægt sér. Mestur varð munurinn 19 stig 76-57 en leikurinn endaði með þægilegum sigri FSU 83-74.

Allir sem spiluðu fyrir FSU stóðu sig vel og þá sérstaklega í seinni hálfleik sem var frábær.  Collin Pryor var óstöðvandi og endaði með 33 stig, 16 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Margir voru glaðir að sjá kunnuglegt andlit í FSU búning í kvöld en Sæmundur Valdimarsson hefur bæst í hópinn hjá FSU á lánssamning frá Stjörnunni. Sæmi skoraði 17 stig og tók 5 fráköst og hann á eftir að styrkja liðið mikið á lokasprettinum. Elli og Ari spiluðu báðir vel, Elli með 10 stig og Ari 8. Arnþór kom inn á með ótrúlega orku í vörnina og virtist þrífast vel undir körfunni í slagsmálum um fráköstin við stóra og stæðilega leikmenn Breiðabliks. 

Góður liðssigur hjá strákunum sem eiga núna tvo útileiki í röð, fyrst við Augnablik og svo við Fjölni.

FSU-Breiðablik

1616774 10100187312283330 1371378287 nÁ fimmtudagskvöld þann 6.febrúar kl 19:15 fer fram körfuboltaleikur í Iðu á Selfossi milli FSU og Breiðabliks.

Þessi leikur er mikilvægur þar sem þessi lið eru í kapphlaupi um sæti í úrslitakeppni 1.deildar karla í körfubolta. 

Heimavöllur FSU er íþróttahúsið Iða og þar er frábær aðstaða til að leika körfuknattleik, sérhönnuð lýsing, drapperingar á veggjum og góð aðstaða fyrir áhorfendur. Í raun er það eina sem vantar að mati forráðamanna FSU eru fleiri áhorfendur. Í liði FSU eru ungir strákar, flestir á aldrinum 17-19 ára sem koma úr starfi körfuknattleiksakademíu FSU og leggja þessir strákar gríðarlega mikið á sig til að geta keppt við sér eldri og reyndari leikmenn í hverri viku. 

Selfoss er að mati margra mikill handbolta og fótboltabær, en að okkar mati er Selfoss íþróttabær í fremstu röð á landsvísu. Hér eru mörg lið og margir einstaklingar í fremstu röð í sinni grein. 

Allir sem koma í Iðu til að horfa á körfubolta segja að þetta sé einstaklega gott hús til að vera áhorfandi og leikmenn annara liða segja það sama um þá upplifun að spila þar. 

Nú langar okkur til að reyna að koma sem flestum á þennan leik til að hjálpa strákunum að komast inn í úrslitakeppnina. Það eru aðeins þrír heimaleikir eftir hjá þeim á þessu tímabili og eru þeir allir á fimmtudagskvöldi. Við viljum skora á alla sem þetta lesa að koma á leik og láta í sér heyra. Öskrum og köllum jákvæð skilaboð sem hjálpa strákunum að ná þessu markmiði sínu að komast í úrslitakeppnina. 

Sjoppa á staðnum, heitt á könnuni og pizza í hálfleik.

 

 

Sárt tap gegn Tindastól.

timthumb 2FSU sótti Tindastól heim í gær á Sauðárkrók, en Tindastóll var fyrir leikinn í efsta sæti deildarinnar og taplausir í þokkabót.

Erik Olson þjálfari FSU tók út leikbann í þessum leik og mátti því ekki stýra sínu liði af bekknum og þurfti hann því að fá sér sæti í stúkunni með popp og skagfirst kaffi.

Leikurinn fór hægt af stað í stigaskorun en engu að síður var mikill hamagangur inn á vellinum, FSU fór illa með fyrstu sóknir sínar og voru að henda boltanum frá sér en sem betur fer gerðu heimamenn mikið af því sama. FSU komst í 13-9 með góðum spretti en heimamenn jöfnuðu sig af því höggi fljótt og enduðu leikhlutann með forystu 17-16.

Liðin skiptust á að hafa forystu í öðrum leikhuta og leikurinn var hin mesta skemmtun með góðum körfubolta á þessum kafla. FSU leiddi leikinn 35-32 en aftur áttu heimamenn endasprett sem gerði að verkum að Tindastóll hafði forystu í hálfleik 38-35.

Seinni hálfleikur hófst með áhlaupi heimamanna sem ætluðu sér greinilega að klára leikinn þar og þarna eins og þeir hafa oft gert í vetur. FSU tók leikhlé og og skipulögðu sig betur og svöruðu fyrir sig með góðri vörn og snöggum sóknum. Heimamenn sýndu samt alltaf sinn mikla styrk með því að halda FSU hæfilega langt frá sér á þessum kafla leiksins.  Fyrir lokahluta leiksins leiddi Tindastóll 65-58.

FSU sýndi strax í lokahlutanum að þeir ætluðu sér ekki að gefa sigurinn eftir án þess að berjast til síðasta dropa. Í hvert skipti sem heimamenn tóku á sprett voru FSU komnir á hæla þeirra aftur. Í lokin voru það reynsluboltar heimamanna sem kláruðu leikinn fyrir þá með hjálp heilladísa og tilviljanna. Þegar ein mínuta var eftir voru FSU 5 stigum á eftir Tindastól og Tindastóll með boltann í sókn. Þegar 40 sekúndur voru eftir tóku þeir neyðarskot þar sem skotklukkan var að renna út og boltinn small í spjaldinu, starfsmenn íþróttahússins mátu það þannig að Tindastóll ætti að fá nýja skotklukku og þrátt fyrir mótmæli FSU manna ákváðu dómarar leiksins að vera sammála um að ný skotklukka ætti að standa þar sem boltinn hefði í raun farið í hringinn. Heimamenn náðu þess vegna að brenna enn meiri tíma af klukkunni og enduðu með að klára leikinn auðveldum körfum þar sem gestirnir þurftu að taka áhættur. Lokatölur 93-83 Tindastól í vil.

FSU barðist hetjulegri baráttu í þessum leik og sýndu Tindastól enga virðingu. Reynsluboltarnir í liði heimamanna reyndust dýrmætir á lokahluta leiksins á meðan FSU gerði of mörg mistök.

Hlynur Hreinsson var frábær í þessum leik og Erlendur Stefánsson og Ari Gylfason voru einnig sterkir. Arnþór Tryggvason kom með mikla orku inn í leikinn og stóð sig mjög vel. 

Stigahæstir FSU: Collin 23, Hlynur 20, Ari 19, Elli 11, Arnþór 4, Geir 2, Svavar 2.

Næsti leikur strákanna er gegn Breiðablik í Iðu á fimmtudaginn kl 19:15 en þar verður hart barist þar sem þarna eru tvö lið sem eru í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Stelpurnar sóttu sigur á Laugarvatn.

timthumbFSU/Hrunamenn fóru á Laugarvatn og mættu þar liði Laugdæla í 1.deild kvenna í kvöld.

FSU byrjaði leikinn miklu betur og voru grimmar í vörninni og uppskáru mörg hraðaupphlaup fyrir vikið. Laugdælir áttu erfitt með að finna glufur á liði FSU og staðan eftir 1.leikhluta 20-9 FSU í vil. 

Annar leikhluti var aðeins jafnari og heimastúlkur fóru að finna opin skot og náðu að minnka bilið milli liðanna. Staðan í hálfleik 38-28 FSU í vil.

Seinni hálfleikur fór af stað með áhlaupi frá FSU sem ætluðu greinilega ekki að sleppa tökunum á leiknum og breyttu stöðunni í 49-28 á örfáum mínutum. Eitthvað rumskuðu þá Laugdælir og tóku upp á því að setja niður 5 þriggja stiga skot í röð. Staðan fyrir lokahlutann 56-43 FSU ennþá yfir. 

Síðasti hlutinn var nokkuð jafn en heimastúlkur komust aldrei mjög nálægt gestunum og FSU sigldi heim nokkuð þægilegum sigri 67-54.

Stigahæstar FSU: Jasmine 25 stig, Margrét 14 stig, Nína 12 stig, Rakel 7 stig. 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 19th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©