Stelpurnar úr leik í bikarkeppni.

logo fsuNú fyrir lauk leik Njarðvíkur og FSU í bikarkeppni kvenna. Njarðvík leikur í úrvalsdeild og var því vitað fyrir leik að barátan yrði erfið í leiknum.

Skemmst er frá því að segja að Njarðvík átti ekki í vandræðum með að slá stelpurnar okkar úr bikarnum og endaði leikurinn 93-36 fyrir Njarðvík.

Þetta var síðasti lekurinn hjá stelpunum á þessu ári og eiga þær næsta leik í Janúar.

Á sunnudaginn fara strákarnir okkar í Grafarvoginn þar sem þeir mæta Fjölni í 16 liða úrslitum í bikarkeppninni. Leikurinn hefst kl 19:15

Fyrsti sigur hjá stelpunum.

logo fsu.isSameiginlegt lið FSU og Hrunamann mætti Grindavík -b í Iðu síðastliðinn laugardag. Fyrir leikinn hafði lið FSU ekki unnið leik í deildinni en Grindavík hafði sigrað tvo leiki, gegn Tindastól og gegn Þór en bæði þessi lið höfðu áður sigrað FSU.

Það var ljóst í upphafi leiks að FSU ætlaði sér stóra hluti, þær komust í 9-1 a fyrstu mínutunum og voru að spila vel. Grindavík kom vel til baka og staðan að loknum 1.leikhluta var 14-12 FSU í vil.

Annar hlutinn byrjaði svipað og sá fyrsti og heimastúlkur fóru hratt af stað og náðu að búa til gott bil á milli liðanna, staðan í leikhlé var 32-20 fyrir FSU.

Seinni hálfleikur byrjaði með góðum spretti FSU og ekki að sjá að þær ætluðu að gefa neitt eftir í þessum leik. Hittnin var góð og vörnin small vel saman. FSU fór með nokkuð öruggan sigur af hólmi, lokatölur 61-42 og fyrsti sigur FSU í höfn.

Stigahæstar: Jasmine Alston 16 stig, Karen Munda Jónsdóttir 13 stig, Margrét Hrund Arnarsdóttir 10 stig, Hafdís Ellertsdóttir 9 stig, Rakel Lind Úlfhéðinsdóttir 5 stig. 

Næsti leikur hjá stelpunum er í bikarkeppni gegn Njarðvík á föstudaginn en hann er spilaður í Njarðvík.

Körfubolti í Iðu um helgina.

Um helgina eru tveir leikir á dagskránni í Iðu hjá FSU. Í kvöld mæta strákarnir í 11.flokk Val kl 20:00. 

Og á morgun mæta stelpurnar til leiks en þær fá Grindavík-b í heimsókn kl 13:00

Tap á heimavelli.

timthumbFjölnir gerði góða ferð úr Grafarvogi austur á Selfoss og lagði FSu í Iðu með sex stiga mun, 75-81. Þetta var hörkuleikur en Fjölnismenn tóku ívið harðar á því í vörninni þegar líða fór á leikinn, og það skilaði þeim sigri. FSu-liðið vantaði betri samskipti í liðsvörnina og Fjölnir fékk fyrir vikið einum of oft opna leið upp að körfu heimamanna – ódýr stig úr auðveldum skotum. Á meðan þurfti FSu-liðið að hafa mikið meira fyrir öllum sínum sóknaraðgerðum og neyddist alloft að taka mjög erfið skot, sem ekki römbuðu rétta leið.
 
 
FSu byrjaði leikinn þó af miklum krafti og spilaði glimrandi sóknarleik. Flest gekk upp og allir kátir. Mest náði FSu 12 stiga forystu, 25-13, í fyrsta fjórðungi og bæði Ari Gylfason og Collin Pryor funheitir, settu bara allt niður. En gestirnir voru svo sem ekkert langt undan og Hjalti tiltölulega rólegur á hliðarlínunni, þó hann hafi tekið leikhlé í stöðunni 7-0 og ræst hárblásarann. Hann stillti samt fráleitt á hæsta styrk. Að loknum fyrsta hluta var staðan 27-20, mikill hraði og blússandi sóknir.
 
 
Strax í öðrum leikhluta náðu Fjölnismenn að stilla varnarstrengi sína og opnu skotin, gleðin og glaumurinn að mestu úti hjá heimaliðinu. Fjölnir saxaði jafnt og þétt niður forskot FSu, vann þennan leikhluta með 7 stiga mun, 18-25, og staðan jöfn í hálfleik, 45-45. Collin var kominn með 20 stig og Ari 10 fyrir heimamenn. Sims hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en skorið dreifðist jafnara Fjölnismegin. Emil smellti þó tveimur flottum þristum og Páll Fannar bætti við góðum körfum á mikilvægum tíma.
 
 
Enn var jafnt eftir þrjá leikhluta, hvort lið skoraði 19 stig og staðan 64-64. Baráttan var töluverð en Pryor hélt heimaliðinu gangandi hvað stigaskor varðaði. Sims lét sífellt meira að sér kveða sóknarlega fyrir Fjölni.
 
 
Í fjórða leikhluta náði Fjölnir undirtökunum og sleppti ekki af bráð sinni klónni eftir það. Þeir voru grimmir og allt liðið var samstíga í vörninni þar sem meginverkefnið var að passa að Ari fengi úr engu að moða. Þessi taktík skilaði árangri, því þó Pryor héldi áfram að bæta í sarpinn smám saman þá gerði það ekki svo mikið til því aðrir leikmenn fundu bara ekki fjölina sína allan seinni hálfleikinn, því miður. Það getur þó hent bestu menn og engin ástæða til að hengja haus yfir því. Þetta auðveldaði Fjölni vissulega varnarleikinn, en það ætti að vera áhyggjuefni í Iðu, og viðfangsefni á æfingum fyrir næsta leik, að Ari taki aðeins 9 skot utan af velli á 32 mínútum, og a.m.k. 3-4 af þeim hálfgerð neyðarskot úr vonlítilli stöðu. Liðið hlýtur að geta í sameiningu gert betur í því að finna sína bestu skyttu, a.m.k. á þeim fásénum dögum þegar aðrir finna ekki netið.
 
 
Ritari er hrifinn af Fjölnisliðinu. Það er jafnt og sterkt, skipað áköfum, samstæðum og skemmtilegum leikmönnum, mörgum greinilega kornungum, og er að því leyti margt líkt með þessum tveimur. Hjalti hefur greinilega góða stjórn á öllu saman, enginn er að reyna mikið upp á eigin spýtur, heldur er liðsheildin í fyrirrúmi, og allir þessir strákar hafa gaman af því að láta finna fyrir sér í varnarleiknum. Ólafur Torfason átti skínandi leik, 16 stig og 10 fráköst, en eftir hljóðlátan fyrri hálfleik endaði Sims með 23 stig og 10 fráköst. Emil setti 13 á sínum gamla heimavelli, Páll Fannar og Garðar Sveinbjörnsson 7. Þarna er líka enn einn með skammstöfunina HV, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson, og sýnist lítið ætla að gefa eldri bræðrum sínum eftir, efni í alveg grjótharðan varnarmann, svei mér þá.
 
 
Collin Pryor setti 37 stig og tók 9 fráköst, var með 68% nýtingu og langhæstur leikmanna með 39 framlagsstig. Vítin litu þó illa út, nema bara tvö þau fyrstu. Ari skoraði 13 stig, þar af 10 í fyrri hálfleik, Svavar Ingi 11 og Erlendur 7.
 
 
Ekki er ástæða til að taka mark á skráningu stoðsendinga og það var líka athyglisvert að þrátt fyrir ákafa framgöngu í varnarleiknum voru vítaskotin lygilega fá. FSu fékk 12 en Fjölnir 16. Það var kannski heimaliðinu til láns að fá ekki fleiri víti, því nýtingin var hreint hörmuleg, aðeins 50%.
 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Tuesday the 11th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©