Helgin nálgast.

Næstkomandi helgi er spennandi eins og flestar aðrar helgar hjá okkur. Á föstudaginn fara strákarnir í meistaraflokki karla í Mosfellsbæ þar sem þeir mæta Aftureldingu í bikarnum. Afturelding spilar í 2.deild karla og verður gaman að heimsækja þá. Leikurinn byrjar kl 19:00.

Á sunnudag fara stelpurnar í Grafarvog þar sem þær mæta Fjölni kl 20:15. FSU stelpurnar okkar eru enn að leita að sínum fyrsta sigri í deildinni en lið Fjölnis er mjög sterkt en stelpurnar eru orðnar hungraðar í sigur og ætla að láta til sín taka í þessari ferð.

Á mánudaginn eiga strákarnir í unglingaflokki útileik við Val og hefst sá leikur kl 20:30 og fer fram á Hlíðarenda.

Tap gegn Tindastól.

fatherolson 2FSU og Tindastóll mættust í Iðu í kvöld í 1.deild karla. Fyrir leikinn höfðu gestirnir unnið báða sína leiki nokkuð auðveldlega á meðan FSU höfðu sigrað einn leik og tapað einum.

Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið virtust vera með miðin vel stillt og mikið skorað á fyrstu mínutunum. Antoine Proctor leikmaður Tindastóls fór vel af stað og hvert langskotið á fætur öðru skilaði sér rétta leið hjá honum. FSU voru þó skrefinu á undan eftir fyrsta hlutann 25-23. Annar hluti var mjög svipaður þeim fyrsta til að byrja með. Mikið skorað og fyrrnefndur Proctor var í miklu stuði, skoraði körfur í flestum litum regnbogans og virtist hafa lítið fyrir því að skora þriggja stiga körfur þó að varnarmenn FSU væru oft við það að bora í nefið á honum á meðan hann skaut. FSU voru þó ennþá skrefinu á undan og þegar Tindastóll lagði af stað í sina síðustu sókn í fyrri hálfleik voru FSU menn fjórum stigum yfir. En þá kom óvenjuleg sveifla. Proctor fer upp í þriggja stiga skot og það er brotið á honum, þrjú vítaskot, FSU menn mótmæla og þá er dæmd tæknivilla og tvö skot í viðbót sem Proctor setur öll niður og Tindastóll fer inn í hálfleik með forystu. 50-51.

Seinni hálfleikur hófst hreinlega á einstefnu gestanna. Þeir skoruðu að vild og varnarleikur FSU ekki sannfærandi í þessum hluta leiksins og til bæta gráu ofan á svart þá gekk ekkert í sókninni heldur. Leikhlutinn fór illa með annars jafna stöðu og fyrir síðasta hlutann leiddu gestirnir 66-84. Síðasti hlutinn var öllu skárri hjá FSU og reyndu menn hvað þeir gátu að vinna muninn niður en það var of seint gegn eins sterku liði og Tindastóll er. Lokatölur 89-100 gestunum í vil.

Títtnefndur Proctor skoraði 47 stig fyrir Tindastól í leiknum og skaut hann boltanum ótrúlega vel í þessum leik.

Stigahæstir FSU: Ari Gylfason 29 stig, Collin Pryor 19 stig og 20 fráköst, DAði Berg 14 stig, Svavar Ingi 13 stig. 

Rúmlega 120 manns lögðu leið sína í Iðu í kvöld og var gaman að sjá mörg ný andlit í stúkunni.

Stelpurnar í FSU taka svo á móti Breiðablik á morgun kl 19:15 og 11.flokkur spilar við Snæfell á útivelli. 

Á laugardaginn fer unglingaflokkur í Stykkishólm og mætir Snæfell/Skallagrím.

Næsta helgi.

gameflyerNæsta helgi er viðburðarík hjá liðum FSU eins og sú síðasta. 

Reyndar byrjar fjörið strax á fimmtudag þegar meistaraflokkur karla tekur á móti Tindastól í Iðu kl 19:15. Tindastóll hefur unnið báða sína leiki í haust og eru skagfirðingar með gríðarlega sterkt lið. Okkar menn unnu sterkan sigur á útivelli um síðustu helgi þegar þeir lögðu Hött. Í þessum leik verður ekkert gefið eftir og er um að gera að drífa sig í Iðu og kíkja á fjörið sem verður þar.

Á föstudagskvöldið munu stelpurnar taka á móti Breiðablik í Iðu kl 19:15. Blikarnir eru eitt af sigurstranglegustu liðum deildarinnar og verður því erfitt verkefni fyrir höndum en stelpurnar eru vissar um að sína getu til að leysa það verkefni með stæl.

Á föstudagskvöldið fer 11.flokkur karla í Stykkishólm þar sem þeir etja kappi við Snæfell. 

Og á laugardaginn fer svo unglingaflokkur karla í heimsókn í Borgarnes þar sem þeir mæta sameiginlegu liði Skallagríms og Snæfells.

Fjörug helgi á enda.

logo fsu.isMikið var um að vera um helgina hja körfuboltaliðum FSU. Karlarnir byrjuðu helgina með því að sigra Hött eins og áður hefur verið greint frá.

Á laugardaginn renndi kvennaliðið í Skagafjörð þar sem þær mættu liði Tindastóls í 1.deild kvenna. Ekki fór nú ferðin sjálf alveg eins og hún átti að fara, á miðri leið bilaði rútan og hófst þá mikið símamaraþon sem endaði með að önnur rúta var send af stað frá Akureyri. Nýja rútan hitti svo stelpurnar í Skagafirðinum þar sem þær höfðu náð að höktast á þeirri biluðu alla leið þangað.

Leikurinn sjálfur hófst á áætlun kl 16:00 og voru stelpurnar okkar frískari í byrjun heldur en heimastúlkur og var FSU í forystu framan af leik. Ekki hafa fengist miklar upplýsingar um leikinn en það sem heyrst hefur hingað er að stelpurnar okkar áttu slæman kafla í seinni hálfleik og lentu undir. Ekki tókst þeim að vinna upp þann mun og töpuðu þær því þessum leik. Lokatölur 59-54 fyrir Tindastól.

10.flokkur karla var á fjölliðamóti í Iðu um helgina. Á laugardaginn unnu strákarnir báða sína leiki. Fyrst unnu þeir Skallagrím 56-53 og svo unnu þeir Þór frá Akureyri 54-35. Á sunnudag byrjuðu okkar strákar á sigri gegn Sindra 63-50, með þeim sigri varð ljóst að hreinn úrslitaleikur yrði á milli FSU og Stjörnunar um sigur í riðlinum. FSU menn byrjuðu mun betur í þeim leik og komust strax rúmum 10 stigum yfir. En Stjörnumenn komu sterkir til baka og unnu upp forskotið og í seinni hálfleik komust þeir yfir og unnu á endanum nokkuð þægilegan sigur 54-44. FSU lenti þar með í 2.sæti í riðlinum. 

Helgin endaði svo á leik í 11.flokk milli FSU og Stjörnunar. 

Þar voru það garðbæingar sem byrjuðu mun betur og hittu mjög vel í fyrsta leikhlutanum. Gestirnir leiddu allan leikinn og FSU menn náðu aldrei að komast í forystu þrátt fyrir hetjulega baráttu á köflum. 

Haukur Hreinsson átti stórleik fyrir FSU og skoraði 32 stig og auk þess var hann drjúgur í fráköstunum. 

Þarna eru á ferðinni tvö mjög skemmtileg lið í 10. og 11.flokki FSU og gaman verður að fylgjast með þeim í vetur. 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Monday the 18th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©