Grant Bangs til FSu.

Grant Bangs 21 árs gamall leikmaður frá Englandi hefur bæst í leikmannahóp FSu. Grant er rúmlega 200 cm bakvörður/framherji sem lék síðast í Bandaríkjunum og er hann fjölhæfur leikmaður sem kemur í gegnum samstarf FSu við skóla í Englandi. Hann mun því vera annar erlendur leikmaður félagsins og mun því aðeins geta leikið þær mínutur sem Collin Pryor verður á tréverkinu. 

Grant mun æfa með akademíu FSu og að hans sögn hlakkar hann mikið til að hefja sinn feril sem hann vonar að verði langur og farsæll í Evrópu. Hann er væntanlegur til landsins í brujun næsta mánaðar.

971816 996171648720 1893648278 n

Körfuboltabúðir-samantekt

camp 1Um verslunarmannahelgina voru haldnar körfuboltabúðir FSU og Basketball Across Borders í Iðu á Selfossi. Ekki beint heppilegasta tímasetningin en það var ekki hjá því komist þetta árið. Vitað var þó að með þessari tímasetningu mundi það laða að körfuboltafólk sem væri til í að leggja mikið  á sig til að bæta sig í íþróttinni. Búðirnar byrjuðu á miðvikudegi og á fimmtudegi bættist í hópinn 11 manna lið Phillips Exeter Academy ásamt þjálfara og með þeim í för voru Mike Olson þjáfari Kimball Union og Jeff Trumbauer þjálfari hjá Augustana Vikings. Þeir tóku svo við búðunum á fimmtudagsmorgni og sáu um þjálfun eftir það.

Alls komu tæplega 60 krakkar í búðirnar og stóðu sig öll með mikilli prýði, þjálfararnir voru sammála um að vinnusemi krakkana væri til fyrirmyndar og hæfileikar þeirra komu á óvart.

Gengið var frá því að búðirnar yrðu haldnar aftur á næsta ári, og verða þær í lok Júlí og er það mikið gleðiefni þar sem svona æfingabúðir eru alveg einstakar og gefa mikið af sér fyrir alla sem koma að þeim. Markmið Fsu með þessum búðum er að sýna krökkum möguleika í námi erlendis í gegnum körfubolta. Þeir möguleikar eru margir og ekki eins fjarlægir og margir halda. Fsu er nú komið í samstarf við nokkra skóla í Bandaríkjunum og stefnan er að bæta fleiri skólum í þetta samstarf svo hægt sé að bjóða sem flestum upp á möguleika á áframhaldandi námi erlendis. Einnig er nú unnið að samstarfi við akademíur, lið og skóla í Evrópu.

Þjálfaranámskeið var haldið á laugardeginum og komu 12 þjálfarar í Iðu til að hlusta á fyrirlestra hjá Mike Olson, Jay Tilton og Jeff Trumbauer. Á næsta ári er stefnt á að endurtaka leikinn með enn fleiri fyrirlestrum og vonum við að þeir nýtist sem flestum og að menn hafi almennt gagn og gaman af því.

Phillips Exeter spilaði tvo leiki á meðan þeir voru á landinu, fyrst léku þeir við lið Fsu og daginn eftir léku þeir við Skallagrím. Phillips Exeter unnu báða leikina og héldu þeir svo til Svíþjóðar þar sem þeir spila þrjá leiki.

Starfsfólk Fsu vill koma á framfæri þökkum til allra sem komu í búðirnar og til allra sem hjálpuðu til við að gera þetta að veruleika, nú verður unnið að því að gera næstu búðir stærri og betri og erum við strax farin að hlakka til.

Takk fyrir okkur.

Jeff Trumbauer í spjalli.

Við settumst líka niður með Jeff Trumbauer eftir körfuboltabúðirnar og spurðum hann nokkurra spurninga.

Hvernig fannst þér þín fyrsta heimsókn til Íslands?

„Frábær, krakkarnir komu mér skemmtilega á óvart með hæfileikum sínum og vinnusemi. Svo gafst mér tækifæri til að skoða aðeins landið og það er erfitt að lýsa þeirri fegurð sem er að finna í Íslensku landslagi.“

Er körfuboltinn á Íslandi betri en þú hélst?

„Já ég mundi segja það. Ég var ekki viss út í hvað ég var að fara en krakkarnir hér eru hæfileikarík það er engin spurning“

Sástu einhverja leikmenn sem þú munt fylgjast með?

„Já reyndar, ég sá nokkra sem ég mun fylgjast með á næstu mánuðum“

Hvað þurfa krakkar á Íslandi að gera til eiga möguleika á að komast í nám til Bandaríkjanna?

„Þau þurfa að vinna í sínum leik á hverjum degi, það er ekki nóg að koma í íþróttahúsið á kvöldin og skjóta smá og skipta svo í lið og spila. Þau þurfa að leita uppi uppbyggilega gagnrýni frá þjálfurum og vinna í þeim þáttum sem hægt er að flokka sem veikleika í þeirra leik. Æfa meira en sá næsti og vera óhrædd við að viðurkenna sínar veiku hliðar“

Hvernig líst þér á Fsu?

„Mér líst vel á þeirra starf. Hér er allt til alls til að verða betri í körfubolta, þjálfarinn er ungur og gríðarlega duglegur og hugmyndafræðin sem þessi akademía er byggð á er góð. Næstu árin hér eru spennandi og nýr framkvæmdarstjóri sem er einbeittur á markmiðið sem er að búa til betri körfuboltamenn og hjálpa þeim að komast lengra í lífinu í gegnum sína íþrótt. Ég mæli með þessum skóla og þessum klúbbi, hér er allt tilvalið fyrir unga leikmenn á uppleið og þetta er eini klúbburinn á landinu sem er með sama kerfi og við erum með, þ.e.a.s körfuboltalið sem er tengt skóla á þennan hátt“

Munt þú koma aftur á næsta ári?

„Það mun ég gera. Okkur hlakkar mikið til að koma aftur og gera þetta enn stærra og betra, við fengum um 60 krakka þrátt fyrir óheppilega helgi, þannig að ég reikna með að það verði mun fleiri leikmenn  á næsta ári“

photo 12

Spjall við Mike Olson.

photo 11Við settumst niður með Mike Olson eftir að hann hafði lokið þjálfun við körfuboltabúðirnar okkar og spjölluðum aðeins við hann um heimsóknina og körfuboltabúðirnar.

Hvernig fannst þér ganga um helgina?

„Mér fannst þetta ganga eins og í sögu, krakkarnir tóku okkur vel, og voru dugleg að æfa og skipulag búðanna var mjög gott“

Hvernig leist þér á krakkana?

„þau eru frábær, ég kom meira að yngri hópnum og gat þá setið og fylgst með eldri hópnum. Yngri hópurinn var rosalega skemmtilegur, krakkarnir komu alltaf á réttum tíma og tilbúinn til að vinna í sínum leik, vinnueðlið í íslenskum börnum er greinilega gott. Eldri hópurinn var mjög sterkur  og það var sterkur körfubolti í gangi á Selfossi þessa daga“

Sástu einhverja leikmenn sem heilluðu þig sérstaklega?

„Já ekki spurning, það eru nokkrir leikmenn sem verða örugglega komnir í skóla í Bandaríkjunum áður en langt um líður. Og svo eru nokkrir leikmenn sem við munum fylgjast vel með á þessu ári, það eru ekki margar akademíur á Íslandi en þær eru mjög mikilvægar og vonandi fjölgar þeim“

Gætir þú séð fyrir þér að fá leikmenn frá Íslandi inn í þinn skóla?

„Já það er góður möguleiki að svo verði. Ég er í mjög góðu sambandi við Fsu þar sem Erik sonur minn er að þjálfa þar og þetta er önnur heimsókn mín hingað, minn skóli heitir Kimball Union Academy og er undirbúningsskóli fyrir háskólanám þannig að ég þarf að fá krakka á réttum aldri inn til mín, en ég mun taka inn krakka frá Íslandi það er ég nokkuð viss um“

Varstu ánægður með þjáfaranámskeiðið?

„Já ég var það, ég veit að við vorum með þetta allt saman á stórri fríhelgi á Íslandi, en það komu nokkuð sterkir þjálfarar og ég vona að þeir hafi haft gagn og gaman að þessu, þessi námskeið eru nýjung í okkar starfi sem við munum halda áfram að þróa og gera betri vonandi“

Hvernig líst þér á starfið sem verið er að vinna innan Fsu?

„Mjög vel, ég er auðvitað hlutdrægur þar sem sonur minn er að vinna hérna, en hugmyndir þeirra og grunnurinn sem þeir eru að vinna með er mjög góður. Næsta ár hjá þeim er stórt og ég fékk að skoða hluta af því sem þeir eru að fara að gera og ég vildi óska að ég væri 17 ára aftur svo að ég gæti tekið þátt í þessu sem leikmaður, það verður gaman að vera í Fsu á næsta ári greinilega og næstu árin. Framkvæmdarstjórinn er með skemmtilegar hugmyndir og hann er að vinna þetta með réttum áherslum, hann er ekki að horfa eingöngu í árangur aðalliðsins heldur er hann að reyna að gera þessa akademíu að stað sem krakkar sækjast í vegna árangurs í námi jafnt og körfubolta. Ég er spenntur að sjá hvernig þetta mun þróast og við hjá Kimball Union erum spenntir fyrir þessu samstarfi sem við erum komin í með Fsu“

Sérðu fyrir þér að koma aftur á næsta ári?

„Já algjörlega. Ég er strax farin að hlakka til að koma á næsta ári og þá verðum við ekki á svona stórri fríhelgi og við munum koma með enn stærri hóp með okkur til að gera þetta enn betra"

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Thursday the 23rd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©