Hársbreidd vantaði í fyrsta leik

FSU tók á móti Skallagrími í Iðu í fyrsta leik tímabilsins í gærkvöldi. Skallarnir byrjuðu mun betur og lögðu grunninn að 6 stiga sigri í fyrsta leikhluta og þó FSU ynni hina þrjá hlutana dugði það ekki og úrslitin 82-88. Vissulega var skarð fyrir skildi að Jett Speelman, bandaríski leikmaðurinn okkar, var ekki með vegnaAri3 leikbanns fyrir brot í æfingaleik 22. september sl. Ekki var dæmt í málinu fyrr en daginn fyrir leik og bannið tók gildi í hádeginu á leikdag. Vonandi verður málsmeðferð af þessu tagi ekki tíðkuð aftur.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en í stöðunni 7-6 eftir 4 mínútur skoraði Skallagrímur 7 stig í röð og síðustu 2 mínútur fyrsta leikhluta vann hann 2-12, breytti stöðunni úr 16-20 í 18-32.

Skallarnir héldu þessari forystu að mestu í öðrum leikhluta og þegar heimamenn náðu að klóra muninn niður í 9-10 stig gusuðust gestirnir aftur í 15 stiga forystu, en í hálfleik munaði 13 stigum, 43-56.

Í þriðja hluta saxaði heimaliðið muninn smám saman niður og eftir 7 mínútur munaði 3 stigum, 62-65, en Borgnesingar svöruðu fyrir sig og þegar hlutanum lauk leiddu þeir með 9, 66-75. 

Fjórði hluti var jafn og spennandi, FSU setti gestina út af laginu með svæðisvörn svo þeir skoruðu ekki mikið, aðeins 13 stig til loka leiks, en heimamenn nýttu sér ágætan varnarleik illa, töpuðu boltanum of oft og létu skynsemina ekki ráða nógu í sókninni. FSU komst aldrei yfir, minnkaði muninn í 1 stig, 78-79, þegar 3 mín. voru eftir en Skallagrímur hélt sjó og vann sem fyrr segir með 6 stiga mun 82-88.

Eins og komið hefur fram var vörnin slök í fyrri hálfleik, að fá á sig 56 stig í einum hálfleik á heimavelli er ekki vænlegt til árangurs, og svo sem hvergi. Segja má að leikurinn hafi tapast þar og á „illa“ töpuðum boltum, því Skallagrímur Florijan2skoraði 24 stig eftir tapaða bolta heimamanna, eða 13 fleiri slík stig en FSU. Þetta voru mikið slæmar sendingar þvert á völlinn sem gáfu gestunum opin hraðaupphlaup.

Að öðru leyti er tölfræðin í töluverðu jafnvægi, skotnýtingin nánast jöfn, nema vítin FSU verulega í hag, fráköstin í jafnvægi, stoðsendingar og villur. En tapaðir boltar FSU eru 19 gegn aðeins 11 gestanna.

Hinn gamalkunni Darrell Flake var bestur Skallagrímsmanna með 17 stig, 13 fráköst og 32 í framlag. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var líka góður með 22 stig og sömu sögu má segja um Kristján Örn Ómarsson sem skoraði 13 stig, tók 9 fráköst og skilaði 24 framlagsstigum. Zaccery Alen Carter skoraði 19 stig og gaf 8 stoðsendingar en aðrir höfðu sig minna í frammi.

Af okkar mönnum átti Ari Gylfason mjög góðan leik með 21 stig, 9 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna og flotta skotnýtingu; 27 framlagsstig. Segja verður honum einnig til hróss að hann er ódeigur við að fara í gólfið þegar á þarf að halda og setur liðsfélögum sínum þannig gott fordæmi, eins og sönnum fyrirliða sæmir.

Florijan Jovanov var líka góður í sínum fyrsta leik með FSU; 17 stig og 12 fráköst. Haukur Hreinsson skoraði líka 17 stig og var með úrvalsskotnýtingu. Sveinn Hafsteinn átti skínandi leik, 9 stig og 75% skotnýtingu og spilaði þétta og góða vörn á leikstjórnandi Borgnesinga. Hlynur Hreinsson er á réttri leið en á enn nokkuð í land að ná fullum styrk. Hann skoraði 7 stig og gaf 5 stoðsendingar. Jón Jökull skoraði 4 stig, Maciek Klimaszewski var með 4 stig og 4 fráköst og Svavar Ingi 3 stig og 4 fráköst.

Margt gott má læra af þessum leik og þegar liðsheildin slípast betur saman er fullvíst að hún mun skila okkur skemmtilegum körfubolta og ófáum sigrum.

Krækja á myndasafn Björgvins Valentínusarsonar úr leiknum er hér.

 

 

Fyrsti leikur í Iðu fimmtudaginn 5.10. kl. 19.15

Fyrsti leikur FSU á Íslandsmótinu 2017-2018 er heimaleikur gegn Skallagrími annað kvöld, fimmtudaginn 5. október, kl. 19:15 í Iðu.

Körfuboltasambandið hefur gefið út spá þjálfara, forsvarsmanna og fyrirliða félaganna í 1. deild karla um gengi liðanna og skv. henni er Skallagrímur líklegastur til sigurs í deildinni og að fara þar með beinustu leið aftur upp í Dominosdeildina að ári.

Skv. spánni lendir Breiðablik í öðru sæti en FSU í því þriðja. FSU hefur því leik í toppbaráttuslag og verður spennandi að sjá hver staða liðsins er í upphafi móts. 

Það er skammt stórra högga á milli því eftir að hafa heimsótt Snæfell í Stykkishólm mánudaginn 9. október tekur FSU á móti Breiðabliki fimmtudaginn 12. október í Iðu.

Vert er að hvetja sem flesta til að mæta á leikina og hvetja FSU-liðið til dáða. Annars var spáin svohljóðandi:

1. Skallagrímur

2. Breiðablik

3. FSU

4. Hamar

5. Fjölnir

6. Snæfell

7.-8. ÍA

7.-8. Vestri

9. Gnúpverjar

 

Manuel til Rúmeníu

Manuel Angel Rodriguez Escudero, aðstoðarþjálfari m.fl. karla og Körfuboltaakademíu FSu, er farinn til Rúmeníu. Hann fékk skyndilega tilboð sl. föstudag um starf aðalþjálfara þar í landi og var farinn af landi brott daginn eftir, enda hefst deildakeppnin í Rúmeníu strax nk. miðvikudag.

Liðið sem Manuel tekur við í Rúmeníu heitir Alba Ilulia og leikur í efstu deild kvenna þar í landi. Því er um að ræða gott tækifæri fyrir hann og skref upp á við á þjálfaraferlinum.

Í samningi Manuels við FSU-KÖRFU var klausa þess efnis að hann gæti losnað ef honum byðist aðalþjálfarastaða annars staðar.

FSU-KARFA þakkar Manuel fyrir góð störf fyrir félagið og óskar honum alls hins besta í framtíðinni. Þó tíminn hafi verið stuttur setti hann sitt mark á starfið, bæði hjá m.fl. karla og yngriflokkana.

 

 

FSU fékk heimaleik gegn Grindavík í Maltbikarnum

Dregið var í 32 liða úrslit Maltbikarsins nú í hádeginu. FSU fékk heimaleik að þessu sinni og dróst gegn Dominosdeildarliði Grindavíkur, liðinu sem fór alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn sl. vor.

Það verður spennandi en risastórt verkefni fyrir strákana okkar að glíma við þetta rótgróna og öfluga félag, næstbesta liðið á landinu.

Leikir í 32 liða úrslitum fara fram 14. - 16. október nk. en nánar um dráttinn má sjá hér.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Tuesday the 17th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©