Vinavika og kvennalandsleikur

FSu stendur fyrir Vinaviku dagana 5. - 9. des. Þá eru stelpurnar í minnibolta (1.- 6. bekk) hvattar til þess að taka vinkonur sínar með sér á æfingu, og auðvitað kostar ekkert fyrir vinkonurnar! Vinavikan endar svo á skemmtilegri pizzaveislu. Vonandi mæta sem flestar vinkonur!!

Æfingatöfluna, tímasetningar allra æfinga, má finna hér á heimasíðu félagsins, fsukarfa.is

Stelpur i Hollinni 1

Stelpunum í minniboltanum var boðið á leik íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta gegn Portúgal þann 23. nóvember sl. Stelpurnar fengu þann heiður að leiða liðsmenn beggja liða inn á völlin og var spennan í hámarki yfir því. Ekki skemmdi fyrir að Ísland vann svo leikinn með 11 stigum.

Stelpur i Hollinni 2

Á myndunum hér með fréttinni má sjá stelpurnar okkar einar og sér í samhentum hópi og svo að hlusta á þjóðsöngvana með portúgalska landsliðinu.

Áfram FSu!

 

 

Þriggja leikja langhundur

Vegna anna tíðindamanns heimasíðu FSu hefur því miður farist fyrir að greina frá úrslitum og fjalla um leiki undanfarið. Beðist er velvirðingar á því og reynt að bæta þar úr, þó seint sé.

 

Síðast var greint frá leiknum gegn Hamri í Hveragerði þann 17. nóvember. Til að gera langa sögu stutta hafa þrír tapleikir bæst við síðan, og taphrinan því orðin 6 leikir í röð, eftir að liðið vann 4 af fyrstu 5 leikjunum. Í þessari baráttu ungs og óreynds liðs hefur ekki bætt úr skák að tveir leikmenn hafa sest á sjúkrabekkinn, til viðbótar þeim lykilmönnum sem nokkuð tíðrætt hefur hér verið um að væru meiddir. Beggja þessara nýjustu meiðslamanna saknar liðið í baráttunni undir körfunum, Arnþór Tryggvason var varla kominn með leikheimild þegar hann sneri sig illa á æfingu og Hörður Jóhannsson sömuleiðis þegar einungis 3 mínútur voru liðnar af leiknum í Hveragerði.

 

ÍA-FSu 17.11.

Í þennan leik náðist að skrapa saman 9 leikmönnum, en hins vegar náðist ekki að skrapa saman neinni alvöru stemmningu og heimamenn á Akranesi voru við stjórnvölinn nánast allan tímann. Þó kviknaði á einhverjum perum undir lok leiksins og FSu náði að minnka muninn í 2 stig og vinna svo boltann þegar skammt var eftir. Mistök í innkasti við hliðarlínu kostuðu hins vegar tvö stig í andlitið og síðustu tilraunir okkar manna fjöruðu út en Skagamenn áttu síðsta orðið og unnu 74-67.

 

Derek Shouse var bestur Skagamanna en Jón Orri Kristjánsson skilaði sínu, þó hægt færi, 11 stigum, 11 fráköstum og 25 framlagspunktum. Björn Steinar Brynjólfsson (14 stig) og Sigurður Rúnar (12 stig) voru einnig betri en enginn.

 

Að venju var Terrance langatkvæðamestur í FSu-liðinu með 42 stig og 9 fráköst, 35 framlagspunkta. Ari Gylfason skoraði 13 stig og bætti upp slaka þriggjastiganýtingu með 8 fráköstum og 4 stoðsendingum, Svavar Ingi skoraði 7 stig en gerði þó enn betur með sínum 12 fráköstum. Hilmir Ægir skoraði 3 og Gísli 2 stig.

 

FSu-Höttur 26.11.

Næst var komið að heimaleik gegn toppliði Hattar. Ekki komust þeir Héraðsbúar suður á réttum tíma og því var leiknum frestað um sólarhring og leikinn kl. 7 á laugardagskvöldi, þrátt fyrir hófleg mótmæli okkar, þar sem þessi leiktími varð til þess að við misstum enn einn leikmanninn úr hópnum. Ekki var hlustað á það.

 

Ekki varð þetta skemmtilegur leikur, mikið flautað og á stundum furðulega, tæknivillum og óíþóttamannslegum villum útdeilt af töluverðum móð án sjáanlegarar, bráðrar nauðsynjar. Hvað um það var Höttur bara sterkara liðið og vann með rúmum 20 stigum, 81-102.

 

Það var helst til tíðinda að þegar nokkrar mínútur voru eftir, og gestirnir með nærri 30 stiga forystu, skiptu báðir þjálfararnir sínum byrjunarliðsmönnum útaf. Þá brá hins vegar til þess að FSu strákar minnkuðu muninn töluvert og þjálfari Hattar svipti öllu sínu byrjunarliði inn á aftur, væntanlega til þess að forðast þá niðurlægingu að vinna með minna en 20 stigum.

 

Aron Moss var magnaður hjá Hetti með þrefalda tvennu, 21 stig, 13 fráköst og 14 stoðsendingar. Hreinn Gunnar skoraði 14, Mirko Stefan Virijevic 14 (9 fráköst) en aðrir minna.

 

Terrance Motley skoraði 33 stig fyrir FSu og tók 9 fráköst, Svavar setti 10 stig, Ari 9, Sveinn Hafsteinn 7, Sigurður Jónsson og Haukur Hreinsson 6 hvor, Helgi Jóns. 5, Hilmir Ægir 3 og Jón Jökull Þráinsson 2 stig.

 

Vestri-FSu 2.12.

Þriðji og síðasti leikurinn í þessari hrinu fór fram á Ísafirði sl. föstudagskvöld. Nokkuð vantaði af malti í okkar menn lengst af leik. Terrance átti sinn slakasta leik hingað til, hitti illa, tapaði boltum og var ekki beittur varnarlega. Þetta einbeitingarleysi lýsti sér m.a. í því að hann nældi ér í 5 villur þegar töluvert var eftir af leiknum og Vestri með örugga forystu. En þá vöknuðu aðrir sem betur fer til lífsins og hleyptu spennu í viðureignina. Með mikilli liðsbaráttu og góðum varnarleik náðu þeir að minnka muninn í aðeins 3 stig. En dómaraskandall kom í veg fyrir að þeir fengju þann möguleika sem þeir áttu að fá til að minnka muninn enn frekar eða jafna leikinn. Vestramenn lentu í vandræðum með pressuvörn gestanna og voru gott betur en 8 sekúndur fram yfir miðju, þannig að FSu hefði átt að fá boltann og þar með umrætt tækifæri til að gera enn frekari atlögu að sigri. En dómaraparið var því miður ekki með á nótunum og FSu varð að brjóta á besta manni Vestra, Hinriki Guðbjartssyni, sem setti niður 2 víti af öryggi og tryggði sigur heimamanna.

 

Hinrik var allt í öllu hjá Vestra, skoraði 34 stig, hitti 6/11 úr þristum og 10/10 úr vítum. Yima Chia-Kur skoraði 15 stig, Knezevic og okkar maður, Adam Smári Ólafsson (7 fráköst), 11 hvor og Magnús Breki 9 stig (10 fráköst).

 

Ari Gylfason var stigahæstur FSu-manna með 24 stig og 40% nýtingu, sem er umtalsverð bæting frá fyrri leikjum í haust (6/6 í vítum), og tók 8 fráköst. Hann byrjaði fyrsta fjórðung af krafti með 7 stigum og leiddi endurkomuna í lokin með mikilli baráttu og góðum körfum. Motley skoraði 23 og tók 14 fráköst en missti af síðustu 6 mínútum leiksins sem reyndist dýrkeypt. Svavar skoraði 10 stig, Gísli Gautason 8, Hilmir Ægir 7 og Haukur Hreinsson 7, auk þess að taka 6 fráköst og gefa 6 stoðsendingar.

 

 

Áttleysa og kyrrð á skjálftasvæðum

Í gærkvöldi fór fram fyrsti nágrannaslagur vetrarins af þremur í 1. deild karla milli FSu og Hamars. Leikið  var í Frystikistunni fyrir þunnskipuðum áhorfendapöllum og leikurinn stóð engan veginn undir nafni sem einhver Suðurlandsskjálfti, eins og oft hefur verið, í mestalagi að greina hafi mátt, með góðum vilja, eitthvert smákiltl undir iljum.

Bæði lið voru í leikmannahallæri langt fram á haustið og eru því enn má segja í undirbúningsfasa og eiga inni töluvert svigrúm til framfara. Hamar hefur þó á að skipa mun fleiri reyndum leikmönnum, og kannski var það einmitt reynslan sem reið baggamuninn, altént mættu heimamenn mun einbeittari til leiks, áttu í litlum vandræðum með óákveðna og hikandi gesti sína og unnu öruggan 10 stiga sigur, 85-75, sem er þó minni munur en útlit var fyrir þegar skammt lifði leiks. Með sigrinum færðist Hamar upp fyrir FSu í 5. sæti deildarinnar, bæði lið með 4/4 árangur.

FSu skoraði fyrstu 2 stigin en það var í eina skiptið sem við vorum yfir í leiknum. Hamar jafnaði 2-2 og það var í eina skiptið sem liðin voru jöfn. Hamar hamraði deigt járnið frá upphafi og skoraði 15 stig áður en okkar menn rönkuðu við sér og staðan 15-2 eftir 5 mínútur. Strákarnir réttu sinn hlut og eftir fyrsta hluta var munurinn kominn niður í 6 stig, 26-20.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Hamarsmenn tóku aftur völdin í 2. hluta og unnu hann 17-8, þannig að ekki var sóknarleikur okkar upp á marga fiska. Hittnin var alveg ótrúlega slök hjá strákunum okkar, verður bara að segjast eins og það er, og það var ekki út af stórkostlegum varnarleik Hamars, heldur einbeitingar- og skipulagsleysi. Staðan í hálfleik 43-28.

FSu-liðinu til afsökunar má segja að það vann báða seinni fjórðungana, þann þriðja 20-23 og þann fjórða 22-24. Það var þó augljóslega ekki nóg, og segir heldur ekki nema hálfa söguna, því þegar langt var liðið á fjórða leikhluta var Hamar með 20 stiga forystu. FSu-menn höfðu sem betur fer það stolt að sætta sig ekki við að skíttapa, minnkuðu muninn með góðu áhlaupi síðustu 2-3 mínúturnar og þá sást m.a. glitta í gamalkunn tilþrif fyrir utan þriggjastigalínuna.

Okkar gamli félagi og vinur, Chris Woods, átt ágætan dag fyrir Hamar, 24 stig, 15 fráköst, 6 stoðs. og 30 framlagspunktar. Örn Sigurðar. var á sínum stað með sinn mjúka úlnlið, 17 stig, 7 fráköst og fína nýtingu, Oddur Ólafsson setti 15 stig, Smári Hrafnsson 13 (4/5 í þristum), Snorri Þorvaldsson 8 stig, Mikael Rúnar 6 og Rúnar Ingi Erlingsson 2. Allir þessir leikmenn eru gamalreyndir og traustir í hvívetna en að auki tók hinn ungi Björn Ásgeir Ásgeirsson lítillega þátt í leiknum.

Í FSu-liðinu var Motley atkvæðamestur sem fyrr. Hann var nokkuð lengi í gang og skorti upp á einbeitinguna og kraftinn sem einkennt hefur hans leik hingað til. Terrance skoraði þrátt fyrir það 41 stig, tók 15 fráköst, fiskaði 9 villur og varði 2 skot, skilaði 52% skotnýtingu (þrátt fyrir 0/5 í þristum) og 37 framlagspunktum. Ari er enn að leita að skotinu sínu, nýtingin ekki góð, og 19 stig, 7 fráköst og 8 fiskaðar villur telja því ekki meira en 8 framlagspunkta. Þrír þristar í gamalkunnum stíl undir lok leiks eru þó vonandi næg upprifjun fyrir hann um  hvar körfuna verður að finna í næsta leik. Orri Jónsson skoraði 9 stig og tók 5 fráköst en Svavar Ingi (3 stig/5 fráköst), Sveinn Hafsteinn (2 stig), Hilmir Ægir (1 stig, 3 frk./3 stoðs.), Sigurður og Helgi Jónssynir hefðu allir þurft að bæta meiru við, miðað við leikmínútur, til að von væri um sigur.

Arnþór og Jón Jökull misstu af leiknum vegna meiðsla og Hörður sneri sig illa þegar 3 mínútur voru liðnar af leik og lék ekki meir. Gísli Gautason nýtti sínar tæpar 4 mínútur til að taka 2 fráköst.

Næsti leikur FSu er á sunnudaginn kemur, 20. nóv. gegn ÍA á Akranesi. Leikið er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu kl. 19.15.

 

FSU - SINDRI í 16. liða úrslitum Maltbikarsins

Rétt í þessu var dregið í 16 liða úrslit í bikarkeppni KKÍ, Maltbikarnum. Helstu tíðindi eru þau að við fáum heimaleik í þessari umferð, gegn neðrideildarliðinu Sindra frá Höfn í Hornafirði. 

Leikirnir í 16 liða úrslitum fara fram 4. eða 5. desember, en þessi lið drógust saman:

Njarðvík b - Höttur

Keflavík - Þór Þorl.

Valur - Skallagrímur

FSu - Sindri

Grindavík - ÍR

Haukar - Haukar b

Þór Ak. - Tindastóll

KR - Fjölnir.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Tuesday the 17th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©