Framtíðarafrekskonur FSU-KÖRFU fá fræðslu

Stelpurnar í minniboltanum fengu skemmtilega heimsókn í dag frá Hörpu Rut Hreiðarsdóttur, sem er menntaður ÍAK einkaþjálfari.

Tilgangur heimsóknar Hörpu Rutar var að fræða stelpurnar um mikilvægi þess að drekka vatn, teygja á og fjalla almennt um gott og næringarríkt mataræði. Harpa spjallaði við stelpurnar og útskýrði fyrir þeim að nauðsynlegt væri að borða góða og orkuríka fæðu úr öllum fæðuflokkum fyrir og eftir æfingar og mót og að vatn væri besti svaladrykkurinn.

Stelpurnar voru mjög áhugasamar og Harpa Rut hafði varla undan að svara spurningum. Við þökkum henni kærlega fyrir heimsóknina og fræðsluna og bendum fólki á Facebook síðu hennar, Heilræði & Lífsstíll og skemmtilegt Snapchat sem hún heldur einnig úti: lifsstillharpa

Á meðfylgjandi mynd eru minniboltastelpur FSU ásamt Hörpu Rut og Hörpu Reynisdóttur, þjálfara sínum. 

Minniboltikv

 

 

Sveinn Hafsteinn áfram með FSU

Sveinn Hafsteinn Gunnarsson leikur áfram með FSU á næsta tímabili. Samningur þess efnis var undirritaður í gær. 

Sveinn kom til FSU á venslasamningi frá Þór Þorlákshöfn sl. haust og þótti vistin ekki verri en svo að hann ákvað að halda sig við okkur og þjálfarateymið í Iðu.SveinnHafsteinn2017

Svenni lék 17 leiki í 1. deild karla á nýliðnu tímabili en meiddist illa á ökkla þegar skammt var eftir tímabils og missti af síðustu 7 leikjunum. Hann er óðum að jafna sig og byrjaður að æfa að nýju.

Sveinn spilaði 18:23 mín. að meðaltali í þessum 17 leikjum og skoraði 3,4 stig. Hann var stöðugt að bæta sig og á góðu róli þegar hann meiddist; er jákvæður og kraftmikill og góður liðsfélagi sem við erum ánægð með að halda í leikmannahópnum.

Gestaþjálfari frá Spáni í heimsókn

Spænski þjálfarinn Francisco Garcia kemur í kvöld til Íslands. Hann verður í 10 daga heimsókn hjá vini sínum, Eloy Doce Chambrelan, sem hefur milligöngu um heimsókn þessa færa þjálfara frá heimalandinu.Fr. Garcia.1

Garcia mun stjórna og taka þátt í æfingum hjá félaginu, hjá m.fl. karla og Akademíu FSu en einnig hjá yngriflokkunum.

Francisco Garcia er um þessar mundir aðalþjálfari hjá CB. Bembibre sem leikur í efstu deild kvenna á Spáni, en var á árunum 2013-2016 aðalþjálfari indverska kvennalandsliðsins. Hann hefur mikla reynslu víða að og hefur m.a. þjálfað kvennalið í Danmörku (Stevnsgade BBK) og Finnlandi (Tapiolan Honka).Fr.Garcia.2

Ekki þarf að tíunda í löngu máli hvílíkur fengur er að því fyrir félagið að fá svo færan og reyndan þjálfara með nýjar áherslur og sjónarhorn til að kenna okkar áhugasömu iðkendum. 

Haukur kemur heim

Rétt í þessu var Haukur Hreinsson að staðfesta samkomulag þess efnis að hann leiki með FSU í 1. deild karla á komandi timabili. Þetta er 6. heimamaðurinn sem semur við félagið nú fyrir sumarið.

Haukur hélt til náms í íþróttalýðskóla í Danmörku sl. sumar en lenti í meiðslum og gerði hlé á námi í haust. Hann kom heim og náði nokkrum leikjum með FSu fyrir síðustu jól en sneri aftur til Danaveldis í janúar til að klára skólaárið.Haukur.10.03.16 

Á nýliðnu keppnistímabili lék Haukur fimm leiki og lét til sín taka. Hann spilaði í þeim að meðaltali 25 mínútur, skoraði 8,2 stig, gaf 3,8 stoðsendingar, tók 3 fráköst, stal 2,8 boltum, nýtti 80% tveggja stiga skota og skilaði 11,8 framlagsstigum - og munaði liðið um minna. 

Enn einn mikilvægur hlekkurinn hefur nú bæst í liðskeðjuna og smám saman er að púslast saman ásjáleg mynd af liðinu okkar á næsta tímabili.

Velkominn, Haukur.

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 16th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©