Hollur er heimafenginn baggi

Fimm heimastrákar hafa skrifað undir samninga þess efnis að leika áfram með FSU. Fjórir gerðu tveggja ára samning en einn samning til eins árs.

Þetta eru (frá vinstri til hægri á meðfylgjandi mynd):

Fimm fræknir

Jörundur Snær Hjartarson, 19 ára framherji, sem alinn er upp í Iðu frá blautu barnsbeini, í yngriflokkastarfinu og Körfuboltaakademíunni. Jörundur dvaldi í Frakklandi á nýliðnu keppnistímabili en er kominn heim aftur og mun styrkja hópinn verulega. Hann er líkamlega sterkur og hefur í gegn um tíðina verði með öflugustu leikmönnum landsins í sínum árgangi og spilað með yngri landsliðum. Það er fagnaðarefni að fá Jörra aftur heim.

Svavar Ingi Stefánsson, 23 ára framherji/miðherji, sem alið hefur allan sinn aldur í herbúðum FSU. Svavar hefur, þrátt fyrir ungan aldur, um árabil verið mikilvægur hlekkur og hluti af kjarna liðsins, og nemandi Akademíunnar. Hann skilaði á nýliðnu tímabili 7,3 stigum og 3,7 fráköstum að meðaltali á 20:31 mínútu fyrir liðið og ætlar sér meira á komandi tímabili, enda innistæða fyrir því.

Ari Gylfason, 27 ára skotbakvörður, sem lék á Selfossi upp alla yngri flokkana, var í Akademíu FSu en hleypti einnig heimdraganum. Hann var skiptinemi í Bandaríkjum Norður Ameríku á síðast ári í High School og lék körfubolta með skólaliðinu við góðan orðstír. Heimkominn lék hann með Þór Þorlákshöfn og KFÍ áður en hann sneri aftur á heimaslóðir og hefur síðustu 4 árin verið burðarás liðsins. Ari var valinn besti leikmaður 1. deildar karla fyrir tveimur árum, þegar FSU vann sér sæti í Úrvalsdeild, en hefur frá því haustið 2015 glímt við meiðsli í öxl sem hann er, eftir aðgerð, nú loks að ná sér almennilega af. Ari spilaði rúmar 33 mínútur að meðaltali á síðasta tímabili, skoraði 14,7 stig, tók 5,6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Hlynur Hreinsson, 24 ára leikstjórnandi, hóf sinn körfuboltaferil ungur að árum á Selfossi en lék einnig með Snæfelli og KFÍ á unglingsárunum. Haustið 2015 gekk Hlynur aftur í raðir FSU og var koma hans tvímælalaust lykillinn að framþróun og velgengni liðsins það keppnistímabil - og úrvalsdeildarsætinu. Hlynur tók stórstígum framförum, enda fékk hann mikið traust og ábyrgð, sem hann þakkaði fyrir með stigvaxandi listsköpun við stjórnun sóknarleiks liðsins. Hann varð svo fyrir því áfalli að meiðast illa á undirbúningstímabilinu, í leik í Lengjubikarkeppni KKÍ, og þó hann hafi harkað af sér og spilað fram yfir áramót í úrvalsdeildinni tók það sinn toll og kom honum og liðinu í koll í vetur, því það var ekki fyrr en undir lok tímabils í vor að Hlynur var aftur farinn að geta leikið af einhverjum krafti nokkrar mínútur í leik, og sýna gamalkunna takta. Nú lítur þetta betur út og vonir standa til að í haust verði öll meiðsli að baki. Hlynur var með í 13 leikjum í vetur, spilaði 22 mín. að meðaltali, skoraði 9,2 stig, gaf 3 stoðsendingar, nýtti 46,3% tveggjastiga skota og 40,5% þriggjastigaskota sinna.

Hilmir Ægir Ómarsson, bráðum 19 ára skotbakvörður/framherji, er einn af þeim sem byrjuðu að æfa við stofnun félagsins árið 2005 og innritaðist í Akademíuna þegar hann hafði aldur til. Hann er því að hefja sitt 13. keppnisár fyrir FSU. Síðasta ár var sár vonbrigði fyrir Hilmi, því hann var meiddur í allan vetur og gat lítið sem ekkert æft, á sínu fyrsta ári í meistaraflokki þar sem tækifærið var sannarlega til staðar að sanna sig og stimpla sig inn sem lykilmaður. Hilmir er á batavegi og ætlar að nota sumarið vel til að koma sér í rétta gírinn fyrir komandi átök. Félagið væntir mikils af Hilmi, og ekki eru væntingar hans sjálfs minni.

Ekki þarf að taka fram hvílíkar gleðifréttir hér eru sagðar, fyrir félagið og stuðningsmenn þess. Það er sérlega ánægjulegt að þessir úrvalsdrengir haldi tryggð við félagið sitt, en það er ekki sjálfgefið eins og dæmin sanna. FSU-KARFA er stolt af sínum og bíður með óþreyju eftir fleiri leikmönnum upp úr yngriflokkastarfinu. Þeir verða ekki settir til hliðar þegar þar að kemur. Félagið leggur megináherslu á að gefa hinum ungu og upprennandi tækifæri. Þessi stefna var rækilega undirstrikuð á nýliðnu tímabili, þegar margir kornungir leikmenn, m.a. frá nágrannabyggðum, fengu margar mínútur og mikil tækifæri til að þroskast og bæta sig.

Frekari fréttir af leikmannamálum eru væntanlegar fljótlega - og ekki loku fyrir það skotið að þar verði á meðal fleiri heimamenn með hjartað á réttum stað.

ÁFRAM FSU!!!

 

Frá aðalfundi

Aðalfundur Körfuknattleiksfélags FSu var haldinn í Iðu í gærkvöldi. Góð mæting var á fundinn og gengu hin hefðbundnu aðalfundarstörf vel.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn, en hana skipa nú:

Gylfi Þorkelsson, formaður, Eyþór Frímannsson, gjaldkeri, Blaka Hreggviðsdóttir, ritari, Auður Rafnsdóttir og Ólafur Valdín Halldórsson. Varastjórn skipa Sigríður Elín Sveinsdóttir og Jóhanna Hallbjörnsdóttir.

Úr stjórn gengu Gestur Einarsson, Ragnar Gylfason og Anna Björg Þorláksdóttir. Þeim eru hér með þökkuð góð störf í þágu félagsins, ekki síst Önnu Björgu sem hefur setið í stjórn í mörg ár.

Önnur helstu tíðindi af fundinum voru annars vegar ársreikningurinn. Ánægjulegt er að rekstrarreikningur er jákvæður annað árið í röð. Hagnaður af reglulegri starfsemi 2016 er ríflega ein milljón króna, miðað við rétt tæpar 500 þúsundir árið 2015. Langtímaskuldir að vinna á eru enn nokkrar, bankalán og yfirdráttur, en öllum skammtímaskuldum hefur tekist á tveimur árum að koma í lóg. Þetta má kalla mikinn og góðan árangur á stuttum tíma, en ljóst er þó að enn er brekka framundan, enda vaxtagjöld á síðasta rekstrarári 545 þúsundir, sem gjarnan mætti nýta í annað.

Hins vegar er gaman að segja frá því að á fundinum var kynnt nýtt merki félagsins. Það var hinn geðþekki Eyrbekkingur og FSu stúdent, Elli joð, sem hannaði merkið, sem er einfalt og smekklegt, látlaust og stílhreint, og í nokkrum mismunandi útfærslum. Á meðfylgjandi myndum má sjá nokkrar útfærslur.

oll logo

 

 

Aðalfundur 2017

Aðalfundur Körfuknattleiksfélags FSu verður haldinn fimmtudaginn 30. mars nk. kl. 20:00 í Iðu.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf skv. lögum félagsins.

Allir félagar og velunnarar félagsins eru hvattir til að mæta á fundinn, kynna sér starfsemina og taka þátt í fundarstörfum.

 

Leikmenn framtíðarinnar á Nettómóti 2017

Helgina 3.-5. mars sl. fór fram hið glæsilega Nettómót í Reykjanesbæ. Lið FSu hefur sjaldan eða aldrei mætt með jafn fjölmennan hóp ungmenna á eitt mót.Netto17.6 Alls fóru 62 börn frá Selfossi á mótið en einnig fengu að fljóta með 5 stelpur frá Hveragerði. Tólf lið voru skráð til leiks, 9 hjá strákunum en 3 hjá stelpunum. Alls var 51 leikur spilaður á þessum tveimur dögum.

 

Margt annað var þó á dagskrá um helgina og krakkarnir skelltu sér meðal annars í bíó, sund og svo var mikið fjör að fara í Reykjaneshöllina þar sem voru hoppukastalar og mikið pláss fyrir frjálsan leik.

Á laugardagskvöldinu var svo kvöldvaka þar sem mörg barnanna Netto17.1enduðu á að syngja sig hás. Það var þó alltaf næg orka til þess að spila leikina þar sem FSu sýndi á köflum frábæra takta.

 

Hvert sem litið var mátti sjá iðkendur FSu vera sér og félaginu til mikils sóma. Inni á vellinum sýndu þau mikla íþróttamennsku og utan vallar var gaman að sjá hvað gleðin og vináttan var sterk í hópnum.

 

Stuðningur foreldra í svona starfi er ómetanlegur en fjölmargir foreldrar mættu til þess að styðja sín börn og til þess að aðstoða við framkvæmd mótsins. Með Netto17.2svona sterkt bakland eiga börnin hjá okkur eftir að þroskast í góða og sterka einstaklinga.

 

Það er óhætt að segja að framtíðin hjá FSu sé björt og við hjá félaginu getum ekki verið heppnari með iðkendur. Gaman verður að fylgjast með þessum krökkum og öllum okkar iðkendum í framtíðinni.

 

Það eru þjálfararnir okkar, þau Karl Ágúst Hannibalsson, Harpa Reynisdóttir, Stefán Magni Árnason og Jose Gonzalez Dantas sem hafa veg og vanda af þátttöku krakkanna okkar á þessu móti og öðrum viðburðum. Það krefst mikils undirbúnings og skipulagningar að fara með svo stóran hóp á mót, að ekki sé talað um þegar keppt er tvo daga og þátttakendur gista eina nótt, en þá er varla mikið sofið!!

Meðfylgjandi eru nokkrar skemmtilegar myndir frá mótinu. ÁFRAM FSU!!!

 

Netto17.3 

 

Netto17.4

 

Netto17.5

 

Netto17.7

 

Netto17.8

 

Netto17.9

 

Netto17.10

 

Netto17.11

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 16th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©