Endað á jákvæðan og uppbyggilegan hátt

Síðasti leikurinn okkar á tímabilinu fór fram í gærkvöldi, útileikur gegn Hamri, svo búast mátti við spennandi leik þessara nágrannaliða sem eldað hafa grátt silfur mörg undanfarin ár og sumir leikirnir með alveg nístandi spenningi eins og grannaslagir eiga að vera.

En ekki fór fyrir þannig stemmningu í gær. Leikurinn skipti kannski ekki nógu miklu máli, þannig lagað séð, því Hamar var öruggur í úrslitakeppnina en FSu sigldi lygnan sjó í 7. sætinu og gat ekki klifrað hærra í töflunni. Nokkra sterka leikmenn vantaði hjá Hamri vegna meiðsla, m.a. þeirra besta mann, Chris Woods, og þeir Snorri Þorvalds. og Hilmar Péturs. hvíldu líka. Hjá FSu var Hlynur Hreinsson fjarri góðu gamni og þrír aðrir leikmenn sátu á varamannabekknum í borgaralegum klæðum vegna meiðsla, þeir Hörður Jóh., Hilmir Ægir Ómars. og Sveinn Hafsteinn.

En hvað sem þessu leið var FSu liðið mun betra, tók strax örugga forystu, 0-10 eftir 3 mínútur og eftir fyrsta leikhluta var munurinn 19 stig, 15-34. Í öðrum leikhluta var meira jafnræði, FSu vann þann hluta þó með 3 stigum, 18-21, og fór í te með bæði tögl og hagldir, 33-55.

En ekki lögðust Hvergerðingar á bakið og dilluðu rófunni í seinni hálfleik, heldur bitu í skjaldarrendur. FSu liðið hélt ekki einbeitingunni, tapaði mörgum boltum og „skaut framhjá“ í ágætum færum þannig að Hamar minnkaði muninn, óþarflega mikið að mati skrifara sem sat í stúkunni, og komst niður í einfalda tölu þegar verst lét. En það var bara augnablik og munurinn fór aftur upp í 12 stig, 57-69, við lok 3. leikhluta. Þegar 4 mín. voru eftir munaði 13 stigum, 71-84, en lokamínúturnar voru gestanna og úrslitin 71-92 sem fyrr segir.

Elli Stefáns. var stigahæstur heimamanna með 21 stig og góður í gegnumbrotum en með slaka nýtingu af þriggjastigafæri. Örn Sigurðar skilaði hæstu framlagi, 19 punktum, en hann skoraði 19 stig, nýtti 62% skotanna og tók 5 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson, kornungur og efnilegur nemandi í FSu-Akademíunni, setti 12 stig í andlitið á kennurum sínum þar, 4 þristar úr 8 tilraunum, takk fyrir túkall! Smári Hrafnsson skoraði 8 stig, Oddur Ólafs. 7 (9 frk. og 4 sts.), Kristinn „Diddi“ Ólafsson 3 og Guðjón Ágúst Guðjónsson 1 stig.

Það er orðin hálfgerð tugga að segja að Terrance Motley hafi verið atkvæðamestur hjá FSu. En þó hann hafi skorað 27 stig, tekið 10 fráköst, gefið 9 stoðsendingar, stolið 4 boltum og skilað 31 framlagsstigi má færa rök fyrir því að Ari Gylfason hafi jafnvel látið meira að sér kveða. Ari skoraði 26 stig, tók 11 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, stal 6 boltum og fékk fyrir það 33 í framlag. Ari setti niður 6 þrista í leiknum og var að heyra úr stúkunni að heimamenn séu orðnir hálfleiðir á honum.

Arnþór Tryggvason átti góðan dag, 12 stig, 6 fráköst og 1 varið skot er enginn smá happadráttur fyrir liðið inn í teiginn. Helgi Jónsson var annar Akademíustrákur sem lét verulega að sér kveða. Helgi brilleraði alveg með 11 stig, 80% skotnýtingu (3/4 í þristum), 8 fráköst og 6 stoðsendingar, alls 21 framlagsstig, sem er ekki ónýtt hjá 17 ára gutta!! Svavar Ingi skoraði 6 stig (50% nýting), Gísli Gautason 4 (2/2) og þeir Jón Jökull Þráinsson og heimamaðurinn Páll Ingason, þriðji Akademíunemandinn sem gerði sig gildandi, skoruðu 3 stig hvor. Tóti Friðriks náði ekki að setj'ann í gær en lék góða vörn og tók 2 fráköst.

Srákarnir okkar luku keppni á mjög jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Eins og Eloy sagði í viðtali við Gest frá Hæli eftir leik hefur þetta tímabil að mörgu leyti verið erfitt vegna ástands og aðstæðna í leikmannahópnum, mikil umskipti frá því í fyrra, ótrúleg meiðsli og vandræði fyrir vikið að halda úti almennilegum æfingum. Úr þessu öllu hafa þjálfararnir greitt snilldarlega, liðið, og leikmenn einstaklingslega, hefur verið í stöðugri framför í allan vetur, þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að æfa 5 á 5 nema kannski einu sinni, tvisvar í viku sum tímaskeiðin. Vel gert, Eloy og Jose!

Við hlökkum til að sjá hvert þeir geta farið með þetta lið næsta vetur.

ÁFRAM FSU!!!

 

FSu er „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“

Í hálfleik á síðasta heimaleik FSu í 1. deild karla sl. fimmtudagskvöld afhenti Sigríður Jónsdóttir, ritari framkvæmdastjórnar ÍSÍ og formaður fræðslu- og þróunarsviðs sambandsins, félaginu viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“.

Viðurkenning þessi byggir á „Gæðahandbók“ sem skila þarf inn og uppfylla ákveðin skilyrði. Gæðahandbókin er lýsing á stjórnun og starfsemi félagsins. Þar eru sett fram ítarleg markmið fyrir starf félagsins og leiðir að þeim; aldursgreind markmið og áherslur í körfubolta, en einnig félagsleg markmið, markmið fyrir fjármál og rekstur, markmið í umhverfismálum ofl. Í Gæðahandbókinni er einnig viðbragðsáætlun og forvarnarstefna gegn einelti, mismunun og hvers kyns ofbeldi.

Stjórn félagsins hefur undanfarna mánuði unnið að því að endurskoða, auka  og bæta gæðahandbókina en félagið hefur einu sinni áður hlotið þessa viðurkenningu, sem veitt er til fjögurra ára í senn.

Það var sönn ánægja og heiður að taka við viðurkenningunni úr hendi Sigríðar við þetta tækifæri, að viðstöddum góðum hópi stuðningsmanna og foreldra yngstu iðkendanna, sem tóku virkan þátt í viðburðinum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar var einnig viðstaddur og óskaði félaginu til hamingju, en sveitarfélagið styrkir Fyrirmyndarfélög og -deildir í Árborg rausnarlega, um 700 þúsund krónur við afhendingu og síðan 500 þúsund krónur á ári meðan viðurkenningin er virk.

Á meðfylgjandi mynd sést Sigríður Jónsdóttir ásamt fulltrúm stjórnar FSu og álitlegum hópi af yngstu iðkendunum.

FSu.Fyrirm.fél. ÍSÍ 2017

 

 

Stoðsendingar og tapaðir boltar gerðu útslagið

FSu sótti ekki gull í greipar Breiðabliks í Smáranum í 1. deild karla mánudaginn 27. febrúar síðastliðinn. Blikar voru sterkari aðilinn og unnu 12 stiga sigur, 96-84.

FSu liðið var þó aldrei langt undan. Um miðjan fyrsta leikhluta munaði 2 stigum 16-14, en Blikar voru komnir 7 stigum yfir eftir 10 mín. Í öðrum leikhluta jókst munurinn og heimamenn náðu mest 13 stiga forystu, 49-36 eftir 19 mínútna leik og í hálfleik var staðan 50-39. Í þriðja leikhluta náðu okkar menn að bíta frá sér og minnkuðu muninn í 3 stig í tvígang, 63-60 eftir 27 mín. og 70-67 við lok þriðja leikhluta. Í fjórða hluta sýndu heimamenn nægan styrk, juku muninn fljótt upp í átta stig og síðan í 14 þegar um 2 mínútur voru eftir en lokatölur 96-84 og sanngjarn sigur Blika í höfn.

Það sem réði mestu um úrslitin í þessum leik var mikið og gott framlag frá mörgum Blikum. Fimm þeirra voru með 12 framlagsstig eða meira, hæstur allra Leifur Steinn með 30 slík, en hann hitti 7/8 úti á velli og 5/6 úr þristum, skoraði 20 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Snorri Vignisson var líka mjög góður með 21 stig og 25 framlagspunkta, 11 fráköst og 53% skotnýtingu. Garland skoraði líka 21 stig og stal 6 boltum, Birkir Víðisson setti 14 stig, Egill Vignisson 8, Ragnar Jósef Ragnarsson 6 og Þröstur Kristinsson 4 stig.

Terrance var að venju allt í öllu í sóknarleik FSu, skoraði 32 stig og skilaði 32 framlagspunktum með 19 fráköst, 4 stoðsendingar, 10 fiskaðar villur og 3 varin skot í ferilskrána. Ari Gylfason skoraði 14 stig, tók 8 fráköst, fiskaði 7 villur og stal 2 boltum. Hlynur Hreinsson kom næstur með 12 stig, 2 frk. og 2 sts., þá Arnþór Tryggvason með 8 og 6 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 6 stig, Jón Jökull Þráinsson með 5 stig, 2 frk. og 3 sts., Þórarinn Friðriksson 5 stig og 2 frk., Gísli Gautason 2 stig og 2 frk. og Helgi Jónsson nældi í 3 frk.

Á tölfræðisamanburðinum sést að skotnýting Blika er mun betri (49/37) en FSu nýtir vítin mun betur (77/47) og tekur fleiri fráköst (38/48). Stoðsendingar (20/12) og tapaðir boltar (10/21) gera svo útslagið.

Herslumun vantaði gegn sterku Valsliði

Sjálfsagt hafa einhverjir talið að Valur ætti í vændum léttan byr í seglin í Iðu og þægilegan sigur á okkar liði í 1. deild karla í gærkvöldi. Valur með sitt vel mannaða lið nýbúinn að velgja Íslandsmeisturunum verulega undir uggum í undanúrslitum Maltbikarsins og siglandi hraðbyri að úrvalsdeildarsæti, þó úrslitakeppni sé að vísu framundan. En FSu-liðið brýndi klærnar vel og gerði gestum sínum lífið leitt með ágætri spilamennsku á löngum köflum. Herslumuninn vantaði þó í lok leiks og Valur tryggði 5 stiga sigur, 76-81, með tveimur vítaskotum þegar 4 sek. voru eftir.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik. Valur náði 5 stiga forystu eftir 11 mínútur, 23-28 og FSu 6 stiga forystu eftir 18, 43-37. Annars var jafnt á nánast öllum tölum, 43-43 í hálfleik. Í þriðja leikhluta tóku Valsmenn af skarið og leiddu allt til loka. Mest náðu þeir 12 stiga forystu, 53-65 eftir 27 mín. og 60-72 eftir 32 mín. En heimamenn lögðu ekki árar í bát heldur reru lífróður og minnkuðu muninn smám saman, í 70-75 þegar þrjár mínútur voru eftir og allt að opnast. Þá komu smá mistök og Valur jók forskotið í 70-79. En FSu skoraði 6 stig í tveimur þriggjastigasóknum í röð og fékk svo tvö ágæt tækifæri til að jafna en skotin geiguðu naumlega og Bracy nýtti sér bónusinn með því að setja bæði vítin í, að sjálfsögðu.

Urald King var stigahæstur Valsmanna með 24 stig, 8 fráköst, 7 fiskaðar villur, 2 varin skot og 50% skotnýtingu Birgir Björn var líka mjög góður með 18 stig, 6 fráköst og 71% skotnýtingu. Magnus Bracy spilaði mest Valsmanna, tæpar 36 mín. og skoraði 10 stig, Oddur Birnir skoraði 9, Þorgeir Blöndal og Illugi (6 frák.) 6, Sigurður Dagur 4 og Sigurður Páll og Benedikt Blöndal (5 sts.) 2 stig hvor.

Terrance var að venju öflugastur heimamanna með 36 stig, 15 fráköst, 9 stolna, og 40 framlagspunkta - og spilaði allar 40 mínúturnar. Eini ljóðurinn á hans leik var 1/10 fyrir utan þriggja stiga línuna. Ari átti góðan leik, skoraði 19 stig, og í fyrri hálfleik sérstaklega sást glitta í hans gamla, góða leikstíl þegar hann setti 5 þrista en hægði að auki verulega á Bracy með góðum varnarleik. Nokkuð langt var í næstu menn, Hlynur (4 sts.) og Jón Jökull (2/3 í þristum) skoruðu 6 stig, Arnþór 4, Svavar Ingi og Þórarinn (4 frk.) 2 og Helgi 1 stig.

Mikill munur var á villudómunum, FSu fékk á sig 26 villur en Valur aðeins 17, sem var alveg óeðlilegt miðað við gang leiksins og baráttuna. Hlynur, sem byrjaði leikinn mjög vel, sat leiðinlega mikið vegna þessa og kólnaði aðeins í skotunum fyrir vikið, en hann, Terance, Ari og Svavar voru allir komnir á síðasta sjens og Arnþór fokinn nokkru fyrir leikslok. Hjá Val var það aðeins Bensi Blöndal sem leið fyrir dómgæsluna og missti takt við leikinn en hann og Oddur Birnir sönkuðu að 53% villna liðsins.

Það verður að segjast eins og er að FSU getur spilað alveg glimrandi bolta og stendur þá jafnfætis bestu liðum deildarinnar. En stöðugleikann vantar og inn á milli er liðið alveg skítlélegt, það verður bara að segja það eins og það er. Á þessu eru margar eðlilegar skýringar, sem fram hafa komið hér í skrifum um leikina, og verður ekki farið meira út í þá sálma. Nú er ekkert að gera annað en að horfa fram á veginn, klára þetta tímabil með reisn, nýta sumarið vel og geirnegla þetta næsta vetur. Við höfum nægan eðalvið í það og smíðakunnáttuna.

Næsti leikur er strax á mánudaginn, 27. febrúar gegn Breiðabliki í Smáranum kl. 19:15.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 16th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©