Motley fór hamförum gegn Val

FSu og Valur buðu upp á æsispennandi og skemmtilegan leik í Iðu í gærkvöldi í 5. umferð 1. deildar karla. Eftir taugastrekkjandi lokasekúndur hrósuðu okkar menn sigri, 94-90, og náðu 3. sætinu í deildinni með 8 stig, 4 sigra og 1 tap. 

Leikurinn var hnífjafn meira og minna allan tímann. FSu byrjaði 4-0 en Valur jafnaði 6-6. FSu náði aftur smá forskoti, 12-6 og 20-13, en Magnús Bracy breytti því í 20-20 á skömmum tíma, fyrst með fjögurra stiga sókn og strax í kjölfarið þriggjastiga sókn og brást ekki bogalistin frá vítalínunni. Eftir 12 mín var staðan 27-27 en Valur varTerrance.Valur.24.10.16 skrefinu á undan næstu mínútur, 33-37 eftir 16 og leiddi í hálfleik 43-45. 

Í upphafi seinnihálfleiks var Valur á undan að skora en á 25. mín var jafnt, 55-55 og þremur mín. seinna 64-64. Þá seig Valur aftur fram úr, 67-73 eftir 31 mín., en aftur jafnaði FSu 77-77 og 79-79 þegar 5 mín. voru eftir. FSu seig þá framúr, 83-79 og Valur náði ekki að jafna metin eftir það, minnkaði niður í 84-83, en 5 stig á ögurstundu í kjölfarið frá fyrirliðanum komu FSu í góða stöðu þegar innan við mínúta var eftir. Með öruggum vítaskotum náði FSu svo aftur 6 stiga forystu, 93-87, en fyrrnefndur Bracy gusaði köldu vatni yfir áhorfendur með erfiðum þristi þegar nokkrar sek. voru eftir. Motley tryggði svo sigurinn með því að hitta úr öðru vítaskoti sínu og þó Valsmenn næðu sókn og skoti í lokin, sem reyndar geigaði, var tíminn sem eftir lifði of skammur fyrir þær tvær sóknir sem nauðsyn krafði til að jafna eða vinna. 

FSu-liðið og áhangendur þess fögnuðu vel og innilega kærkomnum en sannast sagna all óvæntum sigri á góðu Valsliði.

Ekkert þarf að fara í grafgötur með það að Terrance Motley var maður leiksins. Valsmenn gátu bara ekkert stoppað hann, þrátt fyrir tví- og þrí- og margdekkun á köflum. Terrance skoraði 50 stig, hvorki meira né minna, og skilaði að auki 53% skotnýtingu, 6 fráköstum, 3 stoðsendingum og 38 framlagspunktum. Stórbrotin frammistaða hreint út sagt.

Ari Gylfason er á réttri leið, skoraði 16 stig, þar af 9 í blálokin, og stóð þannig undir öllum væntingum og kröfum þegar á reyndi. Tók að auki 7 fráköst. Sveinn Hafsteinn Gunnarsson átt skínandi dag, 11 stig (80% skotnýting), 2 fráköst og 2Ari.Valur.24.10.16 stoðsendingar. Hörður Jóhannsson var með 100% skotnýtingu þriðja leikinn í röð, 6 stig úr 3 skotum!! Hann er ekki sá skotglaðasti, tekur ekkert frá neinum en nýtir það sem að honum er rétt, þarf að berjast við sér mun hávaxnari menn en gefur ekki tommu eftir. Svavar Ingi skilaði 5 stigum, 2 stoðsendingum og 4 fráköstum, Orri Jónsson sömuleiðis 5 stigum en til viðbótar 3 fráköstum og 4 stoðsendingum og Helgi Jóns. 1 stigi 2 frk. og 2 stoðs.

 Hjá Val var Bracy atkvæðamestur í stigaskori með 23, Illugi Auðunsson skoraði 18, krydduð með 8 frk. og 5 stoðs. og Birgir Björn skilaði 17 stigum, 10 fráköstum og 64% skotnýtingu. Sigurður Dagur Sturluson skoraði 9 stig, Elías Kristjánsson 7, Benedikt Blöndal 6, Ingimar Baldursson 5, Sigurður Páll Stefánsson 4 og Sigurður Rúnar Sigurðsson 1 stig.

Eins og úrslitin gefa til kynna voru liðin jöfn, og tölfræðiskýrslan vitnar um það, framlagið var 85-87, Valur hafði yfirhöndina í fráköstum og stoðsendingum en þriggjastiganýting FSu var mun betri og reið sennilega baggamuninn. 

 

 

Útisigur á Ármanni

FSu heimsótti Ármenninga í Íþróttahús Kennaraháskólans, eða kannski frekar Íþróttahús menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sl. föstudagskvöld í 1. deild karla. FSu lék án sinna reyndustu manna en yngri deildin stóð fyrir sínu og landaði öruggum sigri, 86-104.

Ármenningar settu fyrstu körfuna en það var í eina skiptið í leiknum sem þeir höfðu forystu. FSu tók frumkvæðið og náði þokkalegu forskoti, 9-23 og staðan eftir fyrsta leikhluta var 19-31. Eftir 13 mín. höfðu heimamenn minnkað muninn í 26-33 en nær komust þeir ekki og strákarnir okkar breikkuðu bilið smám saman það sem eftir lifði leiks, þó aldrei hafi munurinn farið „úr böndunum“, var þetta á bilinu 15-25 stig lengst af, en niðurstaðan 18 stiga sigur eins og fram hefur komið.

Ekki var þetta neinn glans- eða spennuleikur en ýmsir gerðu góða hluti. Terrance Motley var auðvitað áberandi burðarás í okkar leik, með 40 stig, 11 fráköst, 6 stoðsendingar, 11 fiskaðar villur (19 vítaskot) 2 varin skot og 36 framlagspunkta, án þess kannski að hafa mikið fyrir hlutunum. Tvíburarnir knáu, Sigurður og Helgi Jónssynir stóðu sig vel, Helgi setti t.d. 9 stig með 50% nýtingu og tók 5 fráköst, 13 í framlag og Sigurður 12 stig með 56% nýtingu, 4 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Hilmir Ægir skoraði 9 stig, setti ¾ úr þristum eða 75%, og Svavar Ingi skoraði 18 stig, tók 5 fráköst og skilaði 4/5 eða 80% þriggjastiga skota sinna rétta boðleið, 50% skotnýtingu alls. Hörður Jóhannsson, 6 stig og 2 fráköst, og annan leikinn í röð klikkar hann ekki á einu einasta skoti, Sveinn Hafsteinn og Jón Jökull 4 og 2 fráköst, Gísli Gautason 2 stig og Sindri Snær bættu svo við því sem upp á vantaði. Og þó Orri Jónsson fái gefins 17 sekúndna leiktíma hjá Kalla Guðlaugs. tölfræðiskrásetjara, þá var hann ekki með í þessum leik og víðs fjarri Íþróttahúsi menntavísindasviðs.

Fyrir Ármann var Dagur Hrafn Pálsson öflugur með 22 stig og 11 fráköst, Baldur Ingi Jónasson var eins og unglamb á fjölunum, 15 stig úr örfáum þriggjastigaskotum, 7 stoðsendingar og hæsta framlag þeirra, 23 punkta. Guðni yngri Guðnason var fjandi góður, þó hans nafn sé hvergi að finna á tölfræðiskýrslunni, og fleiri Ármenninga mætti tína til sem áttu ágæta spretti.

 

 

Tvö stig eru tvö stig

Vinir okkar af Vestfjörðum, hið nýstofnaða félag Vestri, á gömlum og traustum grunni KFÍ og annarra félaga þar vestra, heimsóttu okkur í Iðu sl. föstudag í þriðja leiknum í 1. deild karla á tímabilinu. Ekki varð þetta leikur í anda séra Árelíusar, a.m.k. var fegurðin ofurliði borin, hvort sem það var af kappinu einu saman eða fleiri ástæðum. Hvað um það, FSu náði í sín tvö mikilvægu stig, og þegar talið verður upp úr söfnunarbaukunum í vor verður aðeins spurt um þau en hvorki fegurð né tilþrif.

Leikurinn fór rólega af stað og eftir 4 mínútur var staðan 4-2. FSu vaknaði þá aðeins til lífs og leiddi 13-4 eftir 7 mínútur og 18-11 að loknum fyrsta leikhluta. Um miðjan annan hluta var komin allstíf vestanátt, 22-24, og í hálfleik leiddi Vestri enn með tveimur stigum, 38-40. Í þriðja leikhluta var allt í járnum fyrstu mínúturnar en FSu náði smám saman frumkvæðinu aftur og leiddi með 6 stiga mun eftir 30 mínútur, 60-54. Þetta forskot dugði, munurinn jókst hóflega smám saman í fjórða hluta, mest í 13 stig þegar mínúta var eftir, 77-64, en úrslitin 78-68.

Hjá Vestra var Nebojsa Knezevic allt í öllu með 35 stig, 18 fráköst og 42 framlagsstig. Nökkvi Harðarson var næstur með 7 framlagsstig, m.a. 10 fráköst, Hörður Helgi Hreiðarsson skoraði 13 stig, en aðrir létu minna fyrir sér fara í þetta skiptið.

Okkar megin var svipað uppi á teningnum tölfræðilega því Terrance Motley skilaði 29 stigum, 16 fráköstum, 6 stolnum, 2 vörðum skotum og 50% skotnýtingu, alls 39 framlagsstigum. Aðrir leikmenn en þeir erlendu skiluðu FSu betri tölum en félagar þeirra að vestan, og þar lá munurinn. Helgi Jónsson t.d. 9 stigum, 4 stoðsendingum og góðri skotnýtingu, alls 11 framlagsstigum, Svavar Ingi 12 stigum, 3 frk. og 10 frl., Orri Jónsson 11 stigum og 67% nýtingu. Hilmir Ægir skoraði 6 stig, Hörður Jóhannsson 5, og hitti úr öllum sínum þremur skottilraunum, Sigurður Jónsson 3 stig, 3 frk. og 3 sts., Sveinn H. Gunnarsson 2 stig og Ari Gylfason 1 stig, 3 sts. og  5 frk. - en er enn að vinna í að stilla miðið.

Leikjadagskrá FSu er þétt á næstunni. Á morgun, föstudag 21.10. er útileikur gegn Ármanni kl. 19:15 í Íþr.húsi Kennaraháskólans, nk. mánudag 24.10. er heimaleikur í Iðu kl. 20:00 gegn Val og á fimmtudaginn eftir viku 27.10. útileikur gegn Breiðabliki í Smáranum kl. 19:15.

 

 

Ekki verður kálið sopið fyrr en í ausuna er komið

Eftir nokkuð nettan og þægilegan sigur í fyrsta leik sl. fimmtudag var FSU-liðinu snarlega kippt niður á jörðina austur á Egilsstöðum í gær. Í ljós kom, eins og vita mátti, að Höttur er kominn mun lengra á veg með sitt lið, auk þess að hafa innan sinna vébanda mun eldri leikmenn með mikla reynslu.

Í stöðunni 4-4 í upphafi leiks skildi með liðunum og fyrr en varði mátti sjá 23-9 á stigatöflunni og 29-13 við lok fyrsta fjórðungs. Ekki tók betra við fyrir okkar stráka í upphafi annars hluta, 34-15, síðan og 44-15 eftir 15 mínútna leik, en staðan í hálfleik var 51-26.

Þrátt fyrir þennan mótbyr gáfust okkar menn ekki upp og komu tvíefldir til leiks í seinni hálfleik. Þegar þrjár mínútur lifðu af þriðja fjórðung hafði FSU tekist að minnka muninn í 12 stig, 60-48, og heldur að léttast brúnin á tíðindamanni fsukörfu.is heima á Selfossi fyrir framan tölvuna með læfstattinu.

En í kjölfarið settu heimamenn niður 3 þrista á skömmum tíma, á meðan engin skot okkar manna rötuðu rétta leið í Egilsstaðakörfuna, og gerðu út um allar vonir um jafnan leik. Þegar síðasti hluti var eftir var munurinn kominn í 20 stig og hélst þannig allt þar til bæði lið skiptu útaf sínum sterkari dráttarklárum þegar um þrjár mínútur voru eftir og varamenn Hattar fullir sjálfstrausts í ljósi stöðunnar hittu úr sínum skotum og juku muninn enn frekar í lokin. Lokatölur 102-71.

Hjá FSU var Terrance Motley langstigahæstur með 36 stig, 16 fráköst að auki, 9 stolna bolta (og þar með einum frá þrefaldri tvennu) en 8 tapaða á móti, 29 í Terrance Motleyframlag. Svavar Ingi kom næstur með 10 stig og 7 fráköst, Sigurður Jónsson 6 stig og 4 stoðsendingar, Ari Gylfason 6 stig og 6 fráköst, Hilmir Ægir Ómarsson 6 stig, Hörður Jóhannsson 3 stig og 2 fráköst, og þeir Sveinn Hafsteinn og Jón Jökull skoruðu báðir 2 stig.

Þrír leikmenn Hattar voru nálægt 20 stigum. Aaron Moss var magnaður með þrefalda tvennu: 18 stig, 18 fráköst og 10 stoðsendingar, 42 í framlag. Ragnar Gerald setti 23 stig með flotta skotnýtingu og Viðar gamli sallaði niður 20 stigum, þar af 3 þristum á mikilvægum tíma. 10 leikmenn Hattar skoruðu í leiknum og allir 12 tóku þátt.

Munurinn á tölfræðiframlagi liðanna var mikill, 142-50 Hetti í vil og endurspeglast í skotnýtingu (50%-32%), fráköstum (49-38) og stoðsendingum (33-13), svo eitthvað sé talið.

Auðvelt er fyrir utanaðkomandi að detta í einhverja bölsýni fyrir hönd FSU eftir svona leik. Það er hins vegar ekki í boði innan félagsins, enda öllum þar ljóst á hvaða stað liðið er, í undirbúningi. Sem er auðvitað ekki æskilegt þegar tímabilið er hafið. En í þessum aðstæðum erum við og verðum að vinna út frá því. Það gerum við, leikmenn og stjórn, með bros á vör - og þá vissu að allt horfir til betri vegar. 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Tuesday the 17th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©