Mikilvægur sigur í fyrsta leik

FSU tók á móti ÍA í Iðu í fyrsta leik keppnistímabilsins fimmtudaginn 6. okt. sl. FSU-liðið var búið að ná heilum þremur æfingum með öllum leikmönnunum, svo ekki var til setunnar boðið að hefja keppni!!!

Í stuttu máli frá sagt var leikurinn jafn fram að hálfleik, FSU leiddi 19-16 eftir fyrsta hluta en ÍA hafði snúið taflinu sér í vil 10 mín. seinna, 33-34. Þriðja leikhluta byrjuðu heimamenn svo af krafti og skoruðu 16 stig án þess gestirnir næðu að svara fyrir sig, og náðu því forskoti sem dugði. Þó ólseigir Akurnesingar næðu að minnka muninn niður í fimm stig fyrir lok þriðja leikhluta, 54-49, var það engan veginn nóg og FSU smá jók muninn aftur það sem eftir lifði leiks, mest í 19 stig, 80-61, en lokatölur urðu 82-65 og mikilvægur sigur í fyrsta leik þar sem anað var nokkuð út í óvissu.

Terrance Motley var atkvæðamestur leikmanna FSU með 31 stig, 15 fráköst, 2 varin skot, 62% skotnýtingu og 41 í framlag. Orri Jónsson var einnig mjögOrri öflugur með 21 stig, 5 fráköst, 8 fiskaðar villur, 67% skotnýtingu, 3 stolna bolta og 26 framlagsstig. Ari Gylfason skoraði 7 stig, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar, Hilmir Ægir Ómarsson skoraði 6 stig og tók 5 fráköst, Helgi Jónsson og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson skoruðu einnig 6 stig, Sigurður Jónsson 3 og Svavar Ingi Stefánsson 2 stig.

Hjá ÍA var Derek Daniel Shouse öflugastur með 30 stig og 11 fráköst, Fannar Freyr skoraði 10, Birkir Guðjónsson 9, Karvel Lindberg Karvelsson 6, Áskell Jónsson og Jón Orri Kristjánsson 5 stig.

Munurinn á liðunum kemur vel fram á tölfræðiskýrslunni, framlag FSU-leikmanna var 96 stig en ÍA 54 stig. Gestirnir höfðu þó betur í fráköstum, 38-47.

 

Síðustu púslin í myndina

Tveir leikmenn hafa bæst við æfingahóp FSu nú síðustu dagana í september. Með þeim má segja að komin sé lokamynd á hópinn sem gera mun atlögu að árangri í 1. deild karla í vetur. Báðir nýju leikmennirnir koma til FSu frá Þór í Þorlákshöfn.Svenni

Nýju mennirnir eru Sveinn Hafsteinn Gunnarsson, 22 ára gamall bakvörður, og Jón Jökull Þráinsson, 19 ára og sömuleiðis bakvörður. Báðir þessir strákar eru nemendur við F.Su.

Eins og fram hefur komið eru þeir frá Þorlákshöfn og hafa alið allan sinn körfuboltaaldur í Höfninni. Þetta eru kraftmiklir, metnaðarfullir og áhugasamir strákar sem fengur er að fyrir hvaða lið sem er að hafa í sínum leikmannahópi. FSU-KARFA býður þá velkomna til leiks. 

Þó oftast hafi FSU-liðið verið ungt að árum er meðalaldurinn í ár sennilega lægri en verið hefur mörg undanfarin ár, eða allar götur síðan félagið tefldi aðeins fram leikmönnum á Jón Jökullframhaldsskólaaldri, úr Körfuboltaakademíunni.

Nú er sem sagt meðalaldur leikmanna 21,6 ár. Öldungurinn í hópnum, Ari Gylfason, er 26 ára en yngstir eru tvíburarnir Helgi og Sigurður Jónssynir, 17 ára gamlir.

Þessu fylgja auðvitað kostir og gallar en ef marka má andann á æfingum undanfarið yfirgnæfa kostirnir gallana.

Hjá FSU er nú samansafn af áköfum og metnaðarfullum ungum mönnum og í slíku andrúmslofti gerast góðir hlutir. Ákefðin er reynsluskorti yfirsterkari og það er gaman að vinna við slíkar aðstæður - og í fullu samræmi við grunngildi félagsins, en þau eru nr. 1, 2 og 3 að skapa umgjörð og aðstæður fyrir unga leikmenn til að bæta sig.

 

 

 

Orri tekur slaginn á ný

Það hafa verið langar og erfiðar fæðingarhríðir að koma mynd á leikmannahóp FSU í sumar og haust. 10 leikmenn frá síðasta ári eru horfnir á brott og nokkrir sem hugðust fylla skörðin hafa horfið frá af ýmsum ástæðum.Orri

Það var því óvænt ánægjuefni í byrjun september þegar Orri Jónsson byrjaði að æfa með FSu. Hann er staddur hér á landi í starfsþjálfun á verkfræðistofu á Selfossi, sem er hluti af lokasprettinum í meistaranámi hans frá háskólanum í Árósum.

Orri var í Akademíunni og lék með FSu á árunum 2008-2012 og skapaði sér þá þegar nafn sem drífandi liðsmaður og mikill baráttujaxl.

Í framhaldinu lék Orri á sínum heimaslóðum í Borgarfirðinum, með Skallagrími í úrvalsdeild, áður en hann hélt til framhaldsnáms í Danaveldi.

Orri lék meðfram námi í dönsku deildinni og hefur því mikilvæga og fjölbreytta reynslu sem nýtast mun okkar unga leikmannahópi mjög vel við að feta sig af stað fyrstu skrefin í 1. deildinni.

FSU-KARFA fagnar Orra og býður hann hjartanlega velkominn heim í Iðu.

 

Terrance Motley til FSU

FSU-KARFA samdi í sumar við bandaríska leikmanninn Terrance Motley um að koma á Selfoss og leika með liði félagsins í 1. deild karla á komandi keppnistímabili.

Nú hefur Útlendingastofnun gefið Motley grænt ljós og er hann væntanlegur til landsins fyrir helgi. Það er ekki seinna vænna því deildakeppnin hefst strax í Terrance Motleynæstu viku. Fyrsti leikur FSU er gegn ÍA í Iðu fimmtudaginn 6. október kl. 19:15.

Motley er öflugur leikmaður, 201 sm á hæð og líkamlega sterkur. Honum er ætlað það hlutverk að „fylla teiginn“ eins og sagt er á körfuboltamáli, taka fráköstin og jafnt að verjast sem skila stigum nálægt körfunni. Hann er samt fjölhæfur leikmaður sem á að geta spilað stöður 3, 4 og 5, með ágætt stökkskot utan teigs.

Motley er 25 ára gamall, fæddur 1991, og hefur þegar öðlast reynslu sem atvinnumaður en hann kemur nánast beint frá Ástralíu þar sem leiktímabilinu lauk seint í ágúst.

Ekki þarf að fjölyrða um það að félagið hefur töluverðar væntingar um að hann eigi eftir að láta til sín taka og „draga vagninn“, ekki síst í upphafi móts á meðan reynslumestu leikmennirnir okkar eru hægt og bítandi að ná sér af langvarandi meiðslum og liðið að öðru leyti skipað kornungum nýliðum sem þurfa sinn tíma til að fóta sig í stærri hlutverkum en þeir hafa áður leikið.

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Tuesday the 17th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©