Skyldusigur á Ármanni

FSu mætti Ármanni Íþróttahúsi Kennaraháskólans á föstudagskvöldið. Ármenningar hafa ekki enn unnið leik í 1. deildinni, enda búa þeir við mikla „leikmannaveltu“, inn og út um dyr hjá þeim hafa frá því á síðasta tímabili farið leikmenn sem nemur a.m.k. þremur liðum. Niðurstaðan varð öruggur sigur FSu, 59-86.

FSu tók forystuna strax í upphafi en Ármenningar fylgdu í humátt á eftir. Eftir fyrsta leikhluta leiddum við með 6 stigum, 14-20 og náðum svo 10 stiga forystu, 17-27 snemma í öðrum hluta. En Ármenningar minnkuðu muninn fljótt í 6 stig, 23-29. FSu leiddi með 14 í hálfleik, 32-46.

Svona gekk þetta fram í fjórða leikhluta og þegar 8 mínútur voru eftir munaði 11 stigum, 53-64. Þá jókst munurinn og var kominn upp í 20 stig eftir 35 mínútur og fór að lokum upp undir 30 stig, lokatölur 59-86.

Ármann hefur þrjá leikmenn frá Stjörnunni á sínum snærum, á venslasamningi, og tveir þeirra voru atkvæðamestir. Daníel Freyr Friðriksson skoraði 16 stig og skilaði hæstu framlagi (14) og Brynjar Magnús Friðriksson var öflugur með 12 stig og 13 fráköst. Allir 10 leikmenn Ármanns komust á blað.

Eloy skipti mínútum vel milli manna og allir 10 skoruðu stig. Ari, Hlynur og Terrance drógu tölfræðivagninn hjá FSu en allir skiluðu sínu hlutverki vel, og góðu dagsverki. Ari skoraði mest, 21 stig, þar af 17 í fyrri hálfleik og var þá mjög öflugur. Auk þess tók hann 6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Reyndar mætti velta fyrir sér skráningu stoðsendinga í leiknum, allt lið FSu gaf 10 stoðsendingar en lið Ármanns 8, skv. tölfræðiskýrslunni, og má ímynda sér að einhver misbrestur sé þar á. Hlynur skoraði 20 stig og nýtti 80% skota sinna, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þeir frændur voru hæstir og jafnir með 22 framlagspunkta. Terrance skoraði 19 stig, tók 11 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Arnþór Tryggvason skoraði 10 stig (5/8) og tók 6 fráköst, Jón Jökull skoraði 5 stig og tók 3 fráköst, Svavar Ingi skoraði 4 stig, Páll Ingason skoraði 3 og tók 2 fráköst,  og Helgi Jónsson og Þórarinn Friðriksson skoruðu 2 stig hvor. 

Næsti leikur FSu er fimmtudaginn 23. febrúar kl. 19:15, gegn Val í Iðu. Við unnum Valsara í Iðu í haust og getum gert það aftur á góðum degi.

 

 

Lyftiduftið vantaði

Ekki náðum við að halda einbeitingu út alla síðustu viku og fylgja eftir frábærum leik gegn Hamri á mánudegi með því að vinna líka ÍA á fimmtudeginum - og koma okkur þar með í betri stöðu í baráttunni um úrslitasætið. Því miður virðist eitthvað af baráttunni, liðsandanum og sigurviljanum hafa orðið eftir í þvottavélinni með svitanum úr búningunum, og Skagamenn hrósuðu sigri 65-70.

Í stöðunni 5-5 tóku gestirnir forystuna og leiddu mestallan leikinn með 5-8 stigum. Einu sinni fór munurinn í 10 stig, 33-43 eftir 25 mínútur, en FSu jafnaði 53-53 þegar 5 mínútur voru eftir. Þá sigu Skagamenn, með Ármann Örn Vilbergsson í broddi fylkingar, aftur fram úr og unnu með 5 stiga mun.

Það er ansi brokkgengt að skora 93 stig gegn Hamri en bara 65 á heimavelli í næsta leik á eftir gegn veikari andstæðingi, þó með fullri virðingu fyrir liði ÍA, og sýnir svart á hvítu að FSu-liðið er hvorki fugl né fiskur nema 100% einbeiting og baráttuandi sé til staðar á öllum póstum, alltaf. Það er ekki hægt að kvarta yfir því að halda Skagamönnum í 70 stigum, að ekki sé talað um að besti leikmaður þeirra, sá bandaríski, skori aðeins 10, en allt lyftiduftið virðist hafa klárast gegn Hamri og vantaði sem sagt í deigið að þessu sinni svo úr yrði æt kaka.  

Ármann Örn var atkvæðamestur Skagamanna með 21 stig úr 7 þriggjastigaskotum af 14, auk þess að næla í 10 fráköst. Áskell Jónsson skoraði 17 stig, Andri Jökulsson 13, Derek Shouse 10 og tók 10 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 8 stig og 11 fráköst og Sigurður Rúnar skoraði 1 stig.

Terrance var stigahæstur heimamanna með 25 stig 10 fráköst og 2 varin skot, Ari Gylfason skoraði 17 stig og tók 11 fráköst, Hlynur Hreinsson 8 stig og 4 fráköst, og þessir þrír skiluðu 100% vítanýtingu (18/18) og liðið 92% sem er ljós punktur. Svavar Ingi Stefánsson kom næstur með 6 stig og 5 fráköst, Helgi Jónsson 5 stig og 4 fráköst, Páll Ingason 3 stig og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 1.

Vonandi kennir niðurstaðan úr þessum leik þá lexíu að eina færa leiðin fram á við er að allir gefi til liðsheildarinnar allt sem þeir geta.  

Næsti leikur er á Egilsstöðum nk. fimmtudag og á sunnudaginn þann 5. febrúar mætum við Vestra í Iðu kl. 19:15 í sannkölluðum fjögurra stiga leik um 5. sætið.

 

FSu tók Kögunarhól

FSu mætti Hamri í hörkuleik í Iðu í gærkvöldi. Þetta var önnur viðureign liðanna af þremur í 1. deild karla á keppnistímabilinu, en þá fyrstu vann Hamar með 10 stigum í haust í Hveragerði. En strákarnir okkar sneru nú við taflinu og eftir vel útfærðri hernaðaráætlun Eloy tóku þeir Kögunarhól með kraftmikilli árás í seinni hálfleik og njóta nú útsýnisins yfir Flóann og Ölvesið ofanvert.

Hamar hóf leikinn af meiri krafti, leiddi 4-7 og svo 6-14 eftir 4 mínútur. En FSu náði vopnum sínum og komst yfir 15-14 eftir 7 mínútna leik. Jafnt var að loknum fyrsta leikhluta 21-21 og leikurinn hnífjafn fram að hálfleik, þó FSu væri alltaf skrefi eða hálfu á undan, og staðan eftir 20 mínútur 45-43.

Strax í upphafi seinni hálfleiks tók heimaliðið frumkvæðið. Terrance Motley tók af skarið og skoraði 8 stig í röð fyrir FSu, tvo flotta þrista, og gestirnir náðu aldrei að ógna FSu-liðinu verulega eftir það. Munurinn fór mest í 16 stig, 76-60, eftir 32 mínútur en aldrei niður fyrir 8 stigin, 88-80, þegar 2 mínútur voru eftir. Lokatölur 93-80 og FSu liðið fagnaði eðlilega vel og innilega, enda hefur á ýmsu gengið frá því í lok október, þegar vinningshlutfallið var 4/1 eftir 5 fyrstu leikina, og allt sjálfstraust fauk út í veður og vind á tímabili. 

Það er alveg magnað hvernig þessu unga og brothætta liði hefur tekist að berja sig saman undanfarið svo nú skín sjálfstraust og öryggi af hverju andliti og góður liðsbragur svífur aftur yfir vötnum. Fyrir vikið er gaman að vera í Iðu og horfa á!!

Hjá Hamri var það bara Chris Woods sem lék af eðlilegri getu. Þessi ljúfi vinur okkar var líka frábær, með 35 stig og 19 fráköst, 38 framlagspunkta sem reyndist 47% af samanlögðu liðsframlagi Hamarsliðsins. Erlendur Ágúst skoraði 12 stig en Örn Sigurðarson kom næstur Chris með 9 stig, 5 frk. 4 stoðsendingar og 13 framlagsstig. Hilmar Pétursson setti 10 stig og nýtti 44% skota sinna en annars var skotnýting liðsins slök, 24% í þriggjastigaskotum og þakka má Chris Woods fyrir að hífa heildarnýtinguna í 40%.

Terrance Motley var að vanda atkvæðamestur í okkar liði. Hann átti úrvalsgóðan dag eins og tölurnar bera vitni, 28 stig, 16 fráköst, 8 stoðsendingar, 52% skotnýting, 3 varin skot og 41 framlagsstig. Eini ljóðurinn á hans leik var að næla sér í tvær kjánalegar og óþarfar villur og þurfa fyrir vikið að horfa af bekknum á félaga sína sigla fleyinu til hafnar. En Motley hefur margítrekað í vetur sýnt það hve góður leikmaður hann er, og sýndi sem sagt sparihliðarnar í gær.

Fyrirliðinn Ari Gylfason var líka magnaður. Hann dreif liðið áfram með ákafa sínum í vörn og sókn og sló hvergi af allar þær 35:32 mínútur sem hann spilaði. Ari skoraði 24 stig (25 framlagsstig), tók 6 fráköst (3 í sókn) og fiskaði 9 villur. Af þeim gáfu 8 vítaskot sem hann nýtti öll með tölu, og skotnýtingin er jafnt og þétt á uppleið. 

Það sem skiptir þó mestu fyrir möguleika liðsins á einhverjum árangri er viðbótin í aðalleikstjórnanda þess, Hlyni Hreinssyni, sem er hægt og rólega að ná sér upp úr sínum langvarandi meiðslum. Hlynur gat nú spilað rúmar 29 mínútur og sýndi gamalkunna takta sem liðið heldur betur munar um: 14 stig, 6 stoðsendingar, 4 fráköst 57% nýting (2/2 í þristum) og 19 framlagsstig, takk fyrir túkall!

Svavar Ingi var öflugur, bætir sig með hverjum leik og sýnir meiri stöðugleika. Hann skoraði 12 stig, tók 7 fráköst og skilaði liðinu 14 framlagsstigum.

Þó þessir fjórir ofantaldir séu meira áberandi á tölfræðiskýrslunni skiluðu hinir leikmennirnir allir mjög góðum hráefnum og nauðsynlegum í sigursúpuna. Allir tóku kröftuglega á sleifinni, hrærðu vel upp í og bættu við nauðsynlegu kryddi til að migi í munni. Jón Jökull Þráinsson skoraði 6 stig, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 5 og þeir Helgi Jónsson og Hilmir Ægir Ómarsson skoruðu 2 stig hvor. 

Hvað sem öðru líður fann liðið í kvöld góða uppskrift og tókst að sjóða og hræra úr henni þá ljúffengu súpu sem það getur stolt borið á borð fyrir hvaða gesti sem er, hvenær sem er. Þá er bara að halda sig við hana áfram og allir ganga brosandi frá borði. Takk fyrir mig.

 

 

Bikardraumurinn úti

FSu sótti ekki gull í greipar nágranna sinna í Þór í 8 liða úrslitum Maltbikarsins niðri í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Þór tók öll völd strax í upphafi leiks, eftir fyrsta hluta munaði 25 stigum og hálfleik 37, 62-25. Í seinni hálfleik var meira jafnvægi, FSu skoraði 43 stig gegn 42 stigum Þórs og úrslitin því 104-68.

Ekki var í sjálfu sér við því að búast að FSu, lið í neðri hluta 1. deildar, hefði nægt blek í eitt af skárri Dominosdeildarliðunum. Þetta var þó tækifæri fyrir lið á fyrstu metrum uppbyggingarferlis, og unga og óreynda leikmenn, að sýna tennurnar í bikarleik, þar sem „allt getur gerst“, skv. áreiðanlegum heimildum.

En skortur á einbeitingu varð þess valdandi að úr varð leikur kattar að mús, hittnin var slök í upphafi leiks, sem er ekki ámælisvert á neinn hátt, en verri voru slakar sendingar, beint í hendur andstæðinganna á galopnum velli, sem kostuðu auðveld sniðskot og troðslur, heimaliðinu og stuðningsmönnum þess til óblandinnar ánægju. Þetta, ásamt því að „gleyma“ of oft að hlaupa í vörn og leyfa fyrir vikið sendingar yfir endilangan völlin í frí sniðskot, eru þau tvö atriði sem ritari leyfir sér að gagnrýna FSu-liðið fyrir - og skrifar á einbeitingarskort. Þó andstæðingurinn sé betri á öllum öðrum sviðum þarf lítilmagninn alltaf að hafa stjórn á þessum grundvallaratriðum. Það er hans eina von. Og Þórsliðið þurfti hreint ekkert á neinni gjafmildi að halda.

En að öðru leyti var yfir engu að kvarta. Í uppsettum leik á hálfum velli, hvort sem var í sókn eða vörn, var margt vel gert. Inn á milli sáust fallegar fléttur og tilþrif, jafnvel þó boltinn hafi ekki alltaf viljað niður í gegn um hringinn. Þegar á leið minnkaði stressið og skotin fóru að detta. Liðið skapaði nóg af fríum skotum og lét ekki pressu slá sig út af laginu, og það sýnir sig í skorinu í seinni hálfleik.

Þórsarar skiptu mínútunum bróðurlega á milli sín. Enginn lék minna en 13:32 mín. og enginn meira en 25:10. Tíu leikmenn komust á blað en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir liðsins náði sá 11. ekki að skora. Ragnar Örn Bragason var stigahæstur með 20 stig  en það markverðasta á tölfræðiskýrslunni er samt að Tobin Carberry tók ekki eitt einasta skot í leiknum. Öll 3 stigin hans komu af vítalínunni. Segir þetta e.t.v. meira en orð um persónuleika þessa frábæra leikstjórnanda, sem hirti að auki fyrir liðið sitt 14 fráköst.

Eloy skipti einnig FSu-mínútunum bróðurlega og þar komust 9 af 10 leikmönnum á blað. Terrance var atkvæðamestur með 15 stig og 8 fráköst, næstur kom Sveinn Hafsteinn Gunnarsson með 11 stig (50% nýting), Jón Jökull Þráinsson (50% nýting, 3 frk.) og Svavar Ingi Stefánsson (5 frk.) 10 stig, Ari Gylfason (7 frk.) 7 stig, Hilmir Ægir og Sigurður Jóinsson (5 sts.) 5 stig hvor, Helgi Jónson (5 frk.) 3 og Gísli Gautason 2 stig.

Að loknum þessum æfingaleik taka við mikilvægar vikur. Í næstu viku eru tveir heimaleikir, á mánudaginn 23. jan. gegn Hamri og á fimmtudag 26. jan. gegn ÍA. Að lokinni keppnisferð á Egilsstaði 2. febrúar er svo von á Vestra í Iðu sunnudaginn 5. febrúar. Þetta eru úrslitaleikirnir, því FSu, Hamar, Vestri og ÍA eru nánast í einum hnapp að berjast um 5. sætið í deildinni, sem er síðasta sætið inn í úrslitakeppnina í vor. Að því sæti ætlum við að gera atlögu.

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Saturday the 16th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©